«

»

Molar um málfar og miðla 1070

Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti í Ríkisútvarpinu (24.11.2012): Kjörstaðir opna klukkan … Kjörstaðir loka klukkan…. Kjörstaðir opna ekki neitt. Kjörstaðir loka ekki neinu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins er alveg búin að ná þessu. Málfarsráðunautur hefur greinilega látið til sín taka. Gott. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki búinn að átta sig á þessu. Ekki ennþá. Og auglýsingaskrifstofa Ríkisútvarpsins alls ekki.

Fréttamenn eiga ekki að leika aðalhlutverk í fréttum eins og fréttamaður Stöðvar tvö gerði í lýsisfréttinni (24.11.2012) og í skotvopnafrétt nokkrum kvöldum áður. Þarna eru menn á villigötum. Fréttamenn eru aukaatriði, – hvað svo sem þeim sjálfum finnst. Stefán Jónsson fréttamaður talaði um menn með míkrófónbólginn haus, – menn sem ofmetnuðust við það eitt að tala í hljóðnema. Líklega mætti nú tala um fólk með skjábólginn haus.

Þegar fjallað er um ríkisstjórnina á ekki að birta mynd af ríkisráði, þar sem forseti Íslands situr við borðsendann í stofu á Bessastöðum eins og Stöð tvö gerði (24.11.2012). Forsetinn er ekki hluti af ríkisstjórninni þótt hann feginn vildi og honum stundum finnist svo vera. Ríkisstjórnina skipa ráðherrar einir, en þegar þeir funda með forseta til að staðfesta afgreiðslur mála á fundum sem eru formsatriði frá fornum tímum, þá heitir samkoman ríkisráð. Þessu eiga fréttamenn að kunna skil á.

Ef smekkur stjórnenda Ríkissjónvarpsins er á því stigi að þeim finnist svonefndar Hraðfréttir eiga erindi á skjáinn ættu þeir að flytja efnið úr Kastljósi, vilji Kastljósið vera alvöru fréttaskýringaþáttur. Væri ekki alveg til valið að hafa þetta til dæmis milli frétta og veðurfrétta með venjulegum auglýsingum? Þetta eru hvort sem er mest auglýsingar?

Hver á fætur öðrum skrifuðu menn, rithöfundur og óbreyttir bloggarar að það væri eftirsjá af Birni Vali Gíslasyni ef hann hyrfi af þingi. Máltilfinning Molaskrifara er á annan veg. Hann mundi segja að eftirsjá væri að einhverjum. Sé ekki betur en íslensk orðabók sé á sama máli. Hvað segja lesendur?
Meira um Björn Val. Að minnsta kosti tvisvar var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (25.11.2012) um Björn Val: Hann hlaut ekki náð fyrir flokksfélögum sínum. Hér hefði farið betur á því að segja að hann hafi ekki verið í náðinni hjá flokksfélögum sínum, eða ekki hlotið náð fyrir augum flokksfélaga sinna.

Björn V ali var hafnað og Hanna Birna vann gjörvilegan sigur, sagði formaður flokksins sem kallar sig Hægri Græna á Bylgjunni (25.11.2012). Gott að hann sagði ekki að Björni hefði verið hafnað! Birni Vali var hafnað og Hanna Birna vann glæsilegan sigur. Hægri grænir fá ekki mörg atkvæði út á málfar.

Í síðustu viku var hér í Molum vikið að málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Þar varð Molaskrifari sekur um ómeðvitað tillitsleysi og biðst innilega afsökunar á því.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mikið til í því. Takk.

  2. Sigurjón Hauksson skrifar:

    Einfaldast (og kraftmest!) hefði verið: hlaut ekki náð flokksfélaga sinna.

    kveðja
    Sigurjón

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>