«

»

Molar um málfar og miðla 1071

1071
Knattspyrnuáhugamaður sendi eftirfarandi: ,,Ofnotkun og kolvitlaus notkun íþróttafréttaritara á orðinu,,sannfærandi“ heldur áfram og er löngu orðin þeim til mesta vansa. Dæmi nú úr Vísi:
25. nóvember 2012 21:00
Lindegaard: Liðið þarf að fá mark á sig til að vakna
Markmaður Manchester United, Anders Lindegaard, segir í viðtölum í Englandi að hann hafi áhyggjur af spilamennsku liðsins og þá sérstaklega að leikmenn liðsins mæti ekki nægilega sannfærandi til leiks…
Sjálfsagt meinar blessaður maðurinn: …ekki nægilega einbeittir til leiks…
Á sama hátt er sífellt tuðað um ,,sannfærandi sigra“ þegar átt er við: örugga sigra.
Gaman væri ef okkar ágætu fréttaritarar hættu að láta enska starfsbræður sína rugla sig í ríminu með öllu talinu um ,,convincing“ þetta og hitt.” Molaskrifari þakkar ,,knattspyrnuáhugamanni” sendinguna. Þetta er réttmæt og þörf ábending.

Af visir.is (25.11.2012): Rjúpnaveiðimenn voru staðnir að verki í Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þeir verða líklega kærðir fyrir brot á vopnalagalögum, sagði visir.is (25.11.202). Vopnalagalög er mjög athyglisvert nýyrði. Vopnalög hefði alveg dugað.

Enn einu sinni var talað um síðasta sumar í fréttum Ríkissjónvarps (25.11.2012). Átt var við fyrra sumar , sumarið í fyrra.

Gunnar Hólmsteinn þakkar þessa pistla og segir (25.11.2012): ,,Heyrði fréttamann Stöðvar tvö segja frá því í frétt í fyrrakvöld, eða kvöldið þar áður, að,,vopnahlé væri yfirvofandi í Gaza..“ Hef ekki heyrt þetta fyrr. Molaskrifari hefur reyndar ekki heldur heyrt þetta fyrr. Gunnar er líka ósáttur við að ekki skuli lengur vera ,,fréttastef” á undan fréttatíma Ríkissjónvarpsins. Molaskrifari tók einnig eftir þessu en hélt að um tæknileg mistök væri að ræða. Hversvegna kasta stefinu?

Úr Fréttablaðinu (26.11.2012). Þar er fjallað um endursýningu (líklega er þetta þriðja sýning þáttaraðarinnar ) dönsku Matador þáttanna í danska sjónvarpinu. : Það var hinn þekkti rithöfundur ,,Lisa Nørgaard sem átti hugmyndina af sögunni.” Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: … sem átti hugmyndina að sögunni. Ekki , af sögunni. Nýlega var þessum dönsku þáttum hrósað hér í Molum. Ríkissjónvarpið ætti að endursýna þessa þætti og kasta fyrir róða einhverju af ameríska dótinu sem þar er á boðstólum öll kvöld.

Rugling af sama tagi mátti sjá í fasteignaauglýsingu í Fréttablaðinu (26.11.2012). Þar sagði: Húsið er stærra af grunnfleti. Átti að vera: Húsið er stærra að grunnfleti. Mjög fer í vöxt að þessum forsetningum af og að sé ruglað sama eins og áður hefur verið nefnt í þessum Molum. Svo er líka ruglingur með bragð að og bragð af. Molaskrifari er vanur að tala um bragð að einhverju.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>