«

»

Molar um málfar og miðla 1072

Í gamla daga fengum við ekki að sjá amerískar bíómyndir fyrr en tveimur, þremur árum, stundum líklega fjórum eftir að þær voru frumsýndar vestra og í Evrópu. Árni Samúelsson breytti því. Fyrir það á hann heiður skilinn. Nú getum við horft á nýjar bíómyndir nánast um leið og þær eru frumsýndar vestra..Ríkissjónvarpið sýnir hinsvegar stundum þætti og þáttaraðir löngu eftir að þetta efni hefur verið sýnt í norrænu stöðvunum. Dæmi: Forbrydelsen og Downton Abbey? Óskiljanlegt. Því þetta þarf ekki að vera svona.

Molalesandi vekur athygli á fyrirsögn á dv.is (27.11.2012): Sjúklega fyndinn hrekkur http://www.dv.is/fokus/2012/11/26/draugur-i-lyftunni/. Hann segir fyrirsögnina ekki beinlínis vera til fyrirmyndar. Það er svo sannarlega rétt.

Lesandi vekur athygli á auglýsingu (26.11.2012): ,,Forlagið Útgáfa, segir á Facebook:
Stútfull konfektskál – þvílík veisla!
En getur skál verið stútfull? “ Líkast til getur skál ekki verið stútfull, nema stútur sé á henni. Það er rétt athugað. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa séð skál með stút. Skál getur hinsvegar verið barmafull eða kúffull.
Danir texta viðtöl á norsku. Svíar texta viðtöl sem flutt eru á dönsku. Norðmenn texta viðtöl á sænsku. Íslenska Ríkissjónvarpið textar ekki (27.11.2012) viðtöl við afríkukonur sem tala algjörlega óskiljanlega ensku.
Það á að vera föst og ófrávíkjanleg regla að birta nöfn fréttamanna á skjánum er þeir koma fram í fréttum. Þetta er gert með höppum og glöppum hjá Ríkissjónvarpinu.
Þegar sjónvarpsfréttamenn vitna í skrifaðan texta sem birtur er á skjánum eiga þeir að lesa textann eins og hann er skrifaður á skjáinn. Ekki lesa: …. koma ekki að neinu gagni, þegar á skjánum stendur: ,,koma ekki að gagni. Þetta var gert í fréttum Stöðvar tvö (28.11.2012). Enn skal minnt á þá grunvallarreglu að samræmi á vera milli talna sem letraðar eru á skjáinn og talna sem þukur les.
Í fréttum Stöðvar tvö (28.11.2012) var talað um atkvæðagreiðslu um að Palestína fengi stöðu áheyrnarríkis hjá Sameinuðu þjóðunum. Eðlilegra væri að mati Molasskrifara að tala um áheyrnaraðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum.
Íþróttahreyfingin heldur áfram að barma sér yfir því að fá ekki nægilega mikið fjármagn úr sjóði almennings, ríkissjóði. Í fréttum í gærkveldi (28.11.2012) var sagt fra ráðstefnu um þar sem m.a. var fjallað um þetta eilífa umkvörtunarefni í hátíðasal Háskóla Íslands. Ekki kom fram í fréttinni að íþróttahreyfingin hefði þakkað ríkisvaldinu, fjárveitingavaldinu að Íþrótta og Ólympíusamband Íslands (ásamt UMFÍ og ÖBÍ) hefur haft lögverndaðan einkarétt til að reka Íslenska getspá sem m.a. hefur einkarétt á lottórekstri síðan 1986. Þetta skilar milljarðatugum en virðist einskis metið. Íþróttahreyfingin greiðir há laun bæði til atvinnumanna og stjórnenda. Hún lætur margt gott af sér leiða en á ekki að þegja yfir þeim hlunnindum sem löggjafinn hefur veitt henni.
Lofsverð umfjöllun í Kastljósi um mansal, skipulagða glæpastarfsemi og straum barnshafandi kvenna frá Nígeríu hingað til lands. Enn eitt dæmið um það hvernig glæpamenn og skipulögð glæpasamtök notfæra sér neyð fólks. Ljóst er að við þurfum líka að vera betur vakandi eins og dæmin sanna gegn ævintýramönnum og pörupiltum sem smygla sér hingað og segjast vera flóttamenn.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eirný Vals skrifar:

    Ég tel að Palestína fái stöðu ríkis með áheyrn hjá SÞ.

  2. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þessar upplýsingar. Ég gafst hreinlega upp á að horfa. Leiðréttingin hefur því farið fram hjá mér.

  3. Valur skrifar:

    „Danir texta viðtöl á norsku. Svíar texta viðtöl sem flutt eru á dönsku. Norðmenn texta viðtöl á sænsku. Íslenska Ríkissjónvarpið textar ekki (27.11.2012) viðtöl við afríkukonur sem tala algjörlega óskiljanlega ensku.“

    Þetta innslag var stoppað, beðist velvirðingar á því að komið hafi upp bilun í textavél og innslagið sýnt aftur frá byrjun með texta. Þetta gerðist um 5min eftir að þátturinn fór í loftið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>