Úr Vefmogga (31.03) ,,Síld hefur vaðið um Hafnarfjarðarhöfn undanfarnar vikur.“ Bara veður um höfnina ! Hvíklík ósvífni. Samkvæmt málvenju ætti hér að segja : Síld veður Í Hafnarfjarðarhöfn. En lesendur Vefmogga geta andað rólega því seinna í sömu frétt segir:,,Ekki er talin sérstök hætta stafa af síldinni þar sem straumar inn og út úr höfninni hreinsa hana nokkuð vel“ . Mikið var það nú gott, – hættuleg skepna síldin .
,,Fyrr í þessari viku flaug Madonna, 50 ára, til Malaví ásamt þremur börnum hennar Lourdes, Rocco og David Banda.“ Vefvísir 31.03. Madonna flaug til Malavi ásamt þremur börnum hennar. Hennar hverrar ? Auðvitað flaug hún til Malaví ásamt þremur börnum sínum.
,,Aka þarf með sérstakri gát um Kambana á Hellisheiði en þar er nú fljúgandi hálka.“ Vefmoggi 31.03. Um Kambana á Hellisheiði ! Það var og. Líklega hefur sá sem skrifaði þessa frétt aldrei ekið austur yfir Fjall.
Einkennileg er sú árátta ýmissa þingmanna, að geta aldrei sagt ég nema bæta við orðinu sjálfur, – ég sjálfur. Einkum eru það ungir þingmenn sem hafa tilhneigingu til að tala svona. Þessu hef ég tekið eftir bæði í bloggskrifum og ræðum á Alþingi. Einu sinni reyndu menn að forðast að nota fyrstu persónu fornafnið ég úr ræðustóli þingsins. Það er liðin tíð.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jakob R. Möller skrifar:
02/04/2009 at 21:18 (UTC 0)
Ekki athugasemd, heldur aðdáun. Efast um, að nokkur annar gegni þessu nauðsynjahlutverki um þessar mundir. Vandinn er þó sá, að þeir sem helzt þyrftu að lesa, eru ólíklegastir til þess.
Sverrir Einarsson skrifar:
02/04/2009 at 10:47 (UTC 0)
Já sko ég SJÁLFUR, sagt úr ræðustól Alþingis er til áherslu um að það hafi verið sjálfur þingmaðurinn sem sagði/gerði eitthvað en ekki sauðsvartur ALMÚGA maður. Var einhver að tala um stétta skiptingu á Íslandi?
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
01/04/2009 at 22:36 (UTC 0)
Ekki er að spyrja að fljótfærninni. Molar um máldfar! Biðst velvirðingar á slökum yfirlestri.