Lítill bæklingur kom inn um bréfalúguna í morgun með dagblöðunum. Framan á honum stendur: „Afsláttur sem telur“. Þetta þykir mér ekki til fyrirmyndar. Veit að vísu að reiðareksmenn um málfar hafa sett þessa merkingu í orðabók, en merkja jafnframt sem málnotkun sem ekki sé æskileg. Hér er sögnin að telja látin þýða að eitthvað skipti máli. Beint úr ensku- „something that counts“.
Í fyrirsögn á dv.is var (01.04) talað um „Þekktustu böndin…“ Af hverju þarf að nota slettuna „band“ um hljómsveit? Það skil ég ekki. Fyrir allmörgum árum töluðu sumir þulir RÚV jafnan um „big band“, þegar var verið að kynna leik fjölmennra jasshljómsveita. Nú hefur hið ágæta orð stórsveit útrýmt þessu „big band“ tali. Sem betur fer.
Fréttamaður Stöðvar tvö tók svo til orða í fréttum (01.04), að „margt væri ábótavant“. Það er kannski ofsagt að mörgu hafi verið ábótabót um íslenskukunnáttu fréttamannsins. Þetta hefði hann þó betur orðað á annan veg.
Þingmenn sýna Alþingi ekki mikla virðingu, þegar þeir standa bölvandi og ragnandi í ræðustóli eins og ítrekað hefur gerst að undanförnu. Þingmenn sýna þinginu heldur ekki virðingu með söng úr ræðustóli. Það er fíflagangur.
Stöku sinnum rekst maður á óborganlegar setningar á Moggablogginu. Eins og til dæmis þessa (01.04): „Er þetta ekki meira fréttnæmt heldur en þessi steypa með Jesús Krist sem hélt ekki vatni.“ Skýr texti. Skýr hugsun.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Orðaleppur skrifar:
03/04/2009 at 20:58 (UTC 0)
http://www.visir.is/article/20090403/LIFID01/124622665
Hef reyndar veitt því athygli áður, að það hafa orðið hausavíxl á notkun „af“ og „að“ í máli fólks. Ekki bara á visir.is.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
03/04/2009 at 14:35 (UTC 0)
Þakka ykkur orðin, Hildur Helga og Sigurður Hreiðar. Langtum fleiri en mig dreymdi um hafa þakkað mér þessar athugasemdir. Að vera háaldraður málfarspervert“ er alveg sérstakur heiðurstitill. Kannski ættum við að stofna félag ?
Mun ég halda þessu áfram enn um sinn eða uns mig þrýtur örendið.
Kveðjur – Eiður
Steini Briem skrifar:
03/04/2009 at 13:29 (UTC 0)
Laglegar á honum leiðar,
lánlaus er Sigurður Hreiðar,
hann getur ei að því gert,
sá gamli málfarspervert.
Sigurður Hreiðar skrifar:
03/04/2009 at 12:06 (UTC 0)
Haltu áfram að halda utan um tunguna og segja til syndanna, Eiður. Ég gerði þetta líka um tíma og fékk þá hornhagldarlega sendingu hér á blogginu — undir rós, þar sem talað var um háaldraða málfarsperverta. Hélt engu að síður áfram meðan mig þraut ekki örendið.
Með baráttukveðju
Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:
03/04/2009 at 03:01 (UTC 0)
Gott hjá þér að taka þátt í því að halda tungunni hreinni.