«

»

Molar um málfar og miðla 1116

Morgunblaðið gaf út myndarlegt sextán síðna aukablað á miðvikudag (23.01.2013) þegar fjörutíu ár voru liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey. Morgunblaðinu tókst hinsvegar að koma þessu blaði út án þess að nefna nokkru sinni nafn Magnúsar Magnússonar sem var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og í eldlínunni allan tímann. Honum bregður heldur ekki fyrir á mynd að því er best verður séð. Ef til vill hefur einhverjum tekist að finna nafn Magnúsar bæjarstjóra í þessu blaði. Molaskrifara tókst það ekki. Kannski er þetta bara dæmi um klaufaskap og léleg vinnubrögð. En ef til vill er þetta líka dæmi um pólitík Moggans sem getur á köflum verið heldur vond. Magnús varð þjóðkunnur á svipstundu fyrir röggsemi og skörungsskap við erfiðar aðstæður, – aðstæður sem áttu sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni. Það er alveg ástæða til að halda því til haga.

Molavin sendi eftirfarandi: ,,Í Fréttablaðinu 23.1.2013 segir í frétt: „sem grunaður er um að hafa ráðist á X. um þarsíðustu helgi…“ Hér er átt við að ráðizt hafi verið á manninn um ,,fyrri helgi.“ Ekki nú um helgina, síðustu helgi eða liðna helgi, heldur helgina áður. Orðskrípið ,,þarsíðast“ hefur einhvern veginn komizt inn í kollinn á ungu fréttafólki og sést nú æ oftar. Rétt er að taka fram að margt ungt fréttafólk er til mikillar prýði í málfari og framsögn. Annað virðist munaðarlaust í þeim efnum og ber yfirmönnum sínum ekki fagurt vitni.” Molaskrifari þakkar þessa góðu ábendingu.

Í fréttum Stöðvar tvö (22.01.2013) var talað um stærðarinnar tjöruklumpa. betra hefði verið að tala um stóra tjöruklumpa. Í fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld var talað um heljar stórt grjót. Betra hefði verið að tala um stórgrýti.

Alltaf er gott þegar menn átta sig og leiðrétta það sem rangt er farið með. Á mbl.is var skrifað (22.01.2013) að flensan væri ekki í rénum., útbreiðsla hennar færi ekki minnkandi. Daginn eftir var búið að lagfæra það og segja réttilega að flensan væri ekki í rénun.

Það er ekki innsláttarvilla þegar bæði í fyrirsögn og texta er sama villan eins á mbl.is (23.01.2013): Fjörtíu ár eru liðin frá því hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði … Fjörutíu, ekki fjörtíu. reyndar er æ algengara að heyra fjölmiðlafólk segja fjörtíu en ekki fjörutíu. Smitandi.

Fréttamanni Stöðvar tvö varð (23.01.2013) tíðrætt um sérstakan saksnara, þegar betur var að gáð var hann að tala um sérstakan saksóknara.

Molaskrifari heyrði upphafið á símaþætti Péturs Gunnlaugssonar lögfræðings og stjórnarformanns Útvarps Sögu í samnefndri útvarpsstöð á fimmtudagsmorgni (24.01.2013). Til þáttarins hringdi kona að nafni Rebekka. Hún kallaði Kristínu Völundardóttur forstjórna Útlendingastofnunar,,kerlingu”, ,,illa gerðan tudda” og líkti henni við forstöðumann Kumbaravogs. Það er algjörlega óhæfur þáttarstjórnandi sem lætur slíkt orðbragð viðgangast. Í svona þáttum verða að vera mannasiðamörk. Þeir Sigurður G. Tómasson, Árni Gunnarsson og fleiri góðir útvarpsmenn þekktu þessi mörk. Þeir lokuðu á dóna. Þessi mörk eru ekki til í Útvarpi Sögu. Fjölmiðlar eiga ekki að vera skólpræsi sem taka við hvaða skít sem er. Hvað segir svokölluð Fjölmiðlastofa?

Er þinn dúkari með réttindi? Svona er spurt í auglýsingu í Ríkissjónvarpinu. Dúkari er algeng stytting á starfsheiti þeirra sem eru dúklagningarmenn, leggja gólfdúka og veggfóðra. Rétt eins og pípulagningamenn oft eru kallaðir píparar. Spurningin er þinn dúkari með réttindi er hinsvegar dæmi um óeðlilega orðaröð í íslensku. Betra hefði verið að segja: Er dúkarinn þinn með réttindi?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Heimir Freyr Viðarsson skrifar:

    „Orðskrípið“ þarsíðast er nú ekki yngra en svo að það kemur fyrir í íslenskum dagblöðum að minnsta kosti allt frá 8. áratug síðustu(!) aldar, jafnvel fyrr. Ég tilfæri hér tvö dæmi, hliðstæð þeim sem kvartað er yfir, og spyr um leið hvort ekki kunni að vera að molaskrifara og félögum skjátlist:

    „Hingað kom hann um áramótin þarsíðustu“ Dagblaðið 9. maí 1977, bls 11.

    „… átti að fara fram um þarsíðustu helgi en var frestað vegna veðurs“ Morgunblaðið 31. mars 1981, bls. 25.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Er þetta minn eða þinn sjóhattur?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>