«

»

Molar um málfar og miðla 1117

Molavin sendi eftirfarandi (24.01.2013:
,,Á Netinu má finna í ókeypis rafútgáfu bókina „Safn af íslenzkum orðskviðum, fornmælum, heilræðum, snilliyrðum, sannmælum og málsgreinum.“ Hana tók saman Guðmundur Jónsson, prófastur í Snæfellsnessýslu og prestur í Staðastaðarsókn. Gefin út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1830 og því frjáls undan höfundarrétti. Það er eintak í eigu Columbia háskólans í New York, sem hefur verið skannað og lagt á Netið. Því nefni ég þetta hér, að þessi bók gæti verið gagnlegt verkfæri fjölmiðlafólki, ekki sízt þeim sem gefa þáttum í sjónvarpi nafn. Þar segir m.a. að til sé málshátturinn „Enginn má við margnum.“ Ríkissjónvarpið sendir nú út framhaldsþætti sem heita „Outnumbered“ (Ofurefli) en hafa fengið íslenzka heitið „Enginn má við mörgum.“ Slík flatneskja í máli getur aðeins verið tilkomin vegna slælegrar íslenzkukunnáttu eða þeirrar leti að nenna ekki að fletta upp í uppsláttarritum.”
Þetta er hverju orði sannara í Molum hafa áður verið gerðar athugasemdir við þetta marflata þáttarheiti Ríkissjónvarpsins. Þátturinn á að sjálfsögðu að heita: Enginn má við margnum. Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í fréttum Ríkisútvarps (24.01.2013) var talað um STEF, (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar). Fréttamaður talaði hins vegar um eigendur flutningaréttar og það var látið standa óleiðrétt. Það þarf satt að segja verulega vankunnáttu til að skrifa og segja flutningaréttur í stað flutningsréttar. Gefur eiginlega til kynna að sá sem þarna var að verki skilji ekki hvað var átt við.

Hvernig getur það gerst í fréttaútsendingu Ríkissjónvarps með nútímatækni að hljóð og mynd stemma ekki saman (seinni fréttir 24.01.2013). Þetta gat auðveldlega gerst þegar myndin var á 16 mm filmu og hljóðið var á 16 mm götuðu segulbandi. Þá varð allt að stemma upp á sekúndu. Þetta á hinsvegar ekki að gerast með nútíma sjónvarpsstækni.

visir.is (24.01.2013): Hafsögubátur frá Reykjavíkurhöfn bjargaði karlmanni úr sjónum rétt utan við Snorrabraut í gærkvöldi … Ekki í fyrsta skipti sem maður les eða heyrir um hafsögubát eða hafsögumann. Hugsunarlaus skrif. Á að vera hafnsögubátur. Og hvaða staður er rétt utan við Snorrabraut?
Meira af visir.is (23.01.2013): Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru allar stöðvar sendar á staðinn en eftir að fyrstu reykkafarar fóru inn var þeim snúið við þar sem eldurinn var minniháttar. Þetta er auðvitað fáránlegt orðalag. Það ætti ekki að þurfa að hafa um það mörg orð. Slökkvistöðvar eru ekki sendar á staðinn, þegar eldur kemur upp einhversstaðar. Slökkvilið fer á vettvang.

Í Garðapóstinum (24.01.2013) er heilsíðuauglýsing frá Önnu konditórí. Þar er ekki mikill texti en margar villur. Þar er talað um Erfðidrykkju (erfisdrykkju), Stekkja party (steggjapartí ?) og Ferminga tertur (fermingartertur). Óvönduð vinnubrögð hjá höfundi, auglýsingastofu og útgefanda.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Bogi skrifar:

    Hafnsögubátur bjargar engum. Hins vegar er mjög sennilegt að skipverjar á umræddum bát hafi bjargað sundkappa á Sundunum, út af Rauðarárvík, en svo heitir vikið sem gengur inn í fjöruna fram af Snorrabraut. kv. sbs

  2. Eiður skrifar:

    Það er rétt, Ómar. En það er ekki nokkur leið að sjá af upphafinu að blaðamaðurinn sé ekki að skrifa frá eigin brjósti. Engin tilvitnunarmerki. Fjarlægði þetta eftir að mér var bent á að lesa lengra. Afsökunarbeiðni í næstu Molum.

  3. Omar R. Valdimarsson skrifar:

    Eiður, orð þín um Sunnu bera þess merki að þú hafir ekki lesið meira en fyrstu málsgrein pistils hennar… Líklega skuldar þú henni afsökunarbeiðni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>