«

»

Molar um málfar og miðla 1118

Rás tvö heldur sig enn við að ausa ambögusúpu slúðurfréttaritara síns á vesturströnd Bandaríkjanna yfir hlustendur á föstudagsmorgnum. Síðastliðinn föstudag (25.01.2013) var þetta óvenju slæmt. Ég vill, ég vill glumdi í eyrum okkar. Sagt var að hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong hefði viljað láta lyfta af sér boðum og bönnum, – umsjónarmaður bætti þá um betur og sagði : Kasta syndunum á bak við sig ! Hér er þó aðeins fátt eitt talið. Þegar kemur að málfari á Rás tvö er of oft engin sómatilfinning og engin dómgreind til staðar hjá ráðamönnum Efstaleitis og starfssvið málfarsráðunautar virðist ekki ná til Rásar tvö.

Af pressan.is (25.01.2013): Í síðustu viku var landað í Hafnarfirði 1.400 tonnum af nýjum búnaði fyrir álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Ekki var þess getið á pressan.is hvar þessi ágæti afli fékkst. Hér hefði að sjálfsögðu átt að segja að nýjum búnað hefði verið skipað á land, ekki landað.

Það var vel að orði komist hjá næturfréttamanni Ríkisútvarps þegar sagt var í fréttum klukkan fimm eða sex að morgni föstudags (25.01.2013) að Norður Kóreumenn hefðu bitið í skjaldarrendur og hótað nágrönnum sínum og fjendum öllu illu. Eftir að hafa séð norður kóreska landmæraverði í Panmunjom er ákaflega auðvelt að ímynda sér þetta. Molaskrifari heyri því miður ekki hver var höfundur fréttarinnar.

Dálítið magnað að hlusta á fólk í Víðsjá Rásar eitt á fimmtudaginn var (24.01.2013) segja að taka eigi við öllum ævintýramönnum sem hingað koma á fölskum skilríkjum og ljúga til um aldur með því að rúlla fram rauða dreglinum og bjóða ókeypis fæði, húsnæði og vasapeninga í ótilgreindan tíma ! Samkvæmt því sem þarna kom fram nægir að segjast hafa lent í útistöðum við ótilgreinda áhrifamenn í Nígeríu! Við eigum að sinna raunverulegu flóttafólki en senda ævintýramenn til baka.

Fyrir helgina hitti Molaskrifari reyndan fjölmiðlamann á förnum vegi sem er annt um móðurmálið.- Við þurfum að útrýma orði, sagði hann. Molaskrifari hváði. Já, orðinu staðsettur, sagði hann. Það má næstum alltaf sleppa því. Það bætir engu við og er kauðskt. Molaskrifari tók undir. Hefur enda oft gert athugasemdir við notkun þessa orðs. Hvað var svo það sem blasti við Molaskrifara þegar hann kom heim og opnaði tölvuna sína: Tilkynning barst lögreglunni á Suðurnesjum í vikunni þess efnis, að hani nokkur, staðsettur í parhúsi í umdæminu, væri til stórra vandræða. Þetta er af mbl.is (25.01.2013). Hverju bætir orðið staðsettur við í þessari frétt? Engu. Útrýmum þessu orði.

Í Molum 1117 var vitnað til og lagt út af pistli Sunnu Óskar Logadóttur blaðamanns Morgunblaðsins við hlið leiðara Morgunblaðsins (26.01.2013). Af upphafi pistilsins var ómögulegt að ráða annað en að þar væri greinarhöfundur að skrifa frá eigin brjósti. Engin tilvitnunarmerki var þar finna. Kannski var ætlunin með þessu misvísandi upphafi að hneyksla hlustendur. Það tókst gagnvart Molaskrifara. Það var ekki fyrr en síðar í pistlinum sem kom í ljós að þetta voru ekki hugleiðingar blaðamanns. Þessvegna voru ályktanir sem dregnar voru í Molum ekki réttar. Sunna Logadóttir er og Morgunblaðið eru beðin afsökunar á því. Málsgreinin var fjarlægð. Betra hefði verið að skýrt hefði komið fram í upphafi að blaðamaðurinn var ekki að skrifa um sinn eigin hug.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>