Af dv.is (26.01.2013): Þess að auki eru Vinstri græn varhuga varðandi áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Tvennt er athugavert við þessa setningu. Hún ætti til dæmis að hefjast á : Þar að auki, eru … eða þess utan eru … Molaskrifari kannast ekki við orðalagið að vera varhuga varðandi eitthvað. Venja er að tala um að gjalda varhug við einhverju, – vera tortrygginn eða vera á varðbergi gagnvart einhverju.
Stórgóð, vel gerð, og skemmtileg mynd Páls Steingrímssonar, Friðþjófs Helgasonar (o.fl.) um Spóann og fleiri fugla í Ríkissjónvarpi á sunnudagskvöld (27.01.2013). Hlýtur að hafa kostað mikla yfirlegu að ná þessum frábæru myndum. Ekki spillti vandaður texti í góðum flutningi Guðjóns Einarssonar. Takk.
Molaskrifari viðurkennir að vera heldur óduglegur að hlusta á fréttir á Bylgjunni. Hlustar þó alla jafna í bílnum klukkan tólf á hádegi á laugardögum. Fréttastofu Ríkisútvarpsins þóknast nefnilega einhverra hluta vegna ekki að vera með fréttayfirlit klukkan tólf á hádegi á laugardögum. Það er eitt af mörgu sem er óskiljanlegt í tengslum við ákvarðanir stjórnenda í Efstaleiti um það hvenær okkur skuli sagðar fréttir og hvenær ekki.
Á fréttavef Ríkisútvarpsins (25.01.2013) er talað um eldsvoði hafi geysað. Sex fórust og þrír slösuðust í miklum eldsvoða sem geysaði í hinu þéttbýla … Molaskrifari hallast að því að hér hefði fremur átt að segja að eldur hafi geisað, eða eldsvoði hafi orðið. Í fyrirsögn var talað um að eldur hefði geysað.
Molaskrifari er lítill aðdáandi ofnotkunar þolmyndar. Í Lottóauglýsingu í sjónvarpi segir: Hann var sendur af eiginkonunni til að kaupa Lottó ! Eiginkonan sendi hann til að kaupa Lottómiða. Germynd er alltaf betri.
Ekki yrði Molaskrifari hissa þótt athugun leiddi í ljós að íþróttafréttir í Ríkissjónvarpinu í almennum fréttatímum séu langtum lengri en í nokkurri annarri norrænni sjónavarpsstöð.
Hversvegna sýna sjónvarpsstöðvarnar okkur í fréttum aftur og aftur gamlar myndir úr þingsal án þess geta þess að um myndir úr safni sé að ræða. Að undanförnu hefur Ríkissjónvarpið (t.d. 26.01.2013) hvað eftir annað sýnt myndir úr þingsal þar sem Oddný G. Harðardóttir situr í stól ráðherra. Hún er löngu hætt að gegna embætti fjármálaráðherra. Við eigum að geta treyst Ríkissjónvarpinu.
Á laugardagskvöld (25.01.2013) sýndi Ríkissjónvarpið mynd sem hér: Fyrsti refsarinn. Orðið refsari er ekki finnanlegt í Íslensku orðabókinni.
Í tíufréttum Ríkisútvarps (27.01.2013) var sagt frá skoðanakönnun um hugsanlega úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og að konur í tilteknu landi væru miklu breskusinnaðri en ….. breskusinnaðri getur varla talist gott orð. Bretasinnaðri hefði kannski verið skárra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
28/01/2013 at 16:17 (UTC 0)
-Refsari- er ævagamalt í málinu, kemur t.d. fyrir í riti frá því herrans ári 1627.
Sigurjón skrifar:
28/01/2013 at 15:49 (UTC 0)
Mér sýnist orðið refsari vera prýðilega nothæft og hegðar það sér meira að segja á svipaðan hátt og orðið frelsari. Það að orð sé ekki í orðabók segir ekkert til um ágæti þess. Tölvan mín gerir enga athugasemd við orðið refsingarfullnustugerandi!
Eiður skrifar:
28/01/2013 at 14:30 (UTC 0)
Þetta er allt hverju orði sannara , Kristján.
Axel skrifar:
28/01/2013 at 14:03 (UTC 0)
Er eitthvað að því að fjalla um íþróttir í 5 mínútur í lok fréttatímans? Er það hættulegt?
Kristján skrifar:
28/01/2013 at 13:18 (UTC 0)
Þátturinn um spóann var yndislegur, hér á RÚV. Meira af þessu, takk fyrir mig.
„Hversvegna sýna sjónvarpsstöðvarnar okkur í fréttum aftur og aftur gamlar myndir úr þingsal án þess geta þess að um myndir úr safni sé að ræða.“ spyrð þú, Eiður.
Tek undir þetta. Það virðast engin takmörk fyrir því hversu oft þær sína sömu myndskeiðin. Sama má segja um fréttir frá Héraðsdómi og Hæstarétti. Jafnvel þótt fram komi að um myndir úr safni sé að ræða, er þetta hvimleitt.
Íþróttafréttamenn á RÚV eiga erfitt með að sýna smá glefsu úr íslenskum boltaleik í fréttatíma, án þess að taka viðtöl. Viðtal-viðtal-viðtal. Hvað skildi valda ?
Getur verið að hégómi fréttamanns ráði því. Þá er hann sjálfur í sviðsljósinu og getur látið ljós sitt skína. Þessi viðtöl eru stórlega ofmetinn af þeim sjálfum og oftast mjög innihaldsrýr og keimlík. Þeir ættu frekar að sýna meira frá sjálfum leikjunum og skilja viðtals-hljóðnemann eftir heima. Sleppa því alla vega að troða þessu inn í fréttatímann.
Íþróttadagskráin var raunar betri á RÚV áður fyrr. Unga fólkið á íþróttadeildinni mætti kynna sér það. Sýniði meira frá íþróttaviðburðum og hættiði með bullþætti sem snúast í 360° um stjórnendur þáttarins.
Eiður skrifar:
28/01/2013 at 10:35 (UTC 0)
Ég var að tala um íþróttafréttir inni í almennum fréttatímum.Það þýðir ekkert í þessum efnum og á þessum árstíma að bera okkur saman við Norðmenn þar sem þorri þjóðarinnar er fæddur með skíði á öðrum fæti en skauta á hinni. Það er út í hött. Það er samt miklu skárra að horfa á fólk á skíðum eða skautum en ruslið sem Ríkissjónvgarpið býður á daginn.
Jón skrifar:
28/01/2013 at 10:01 (UTC 0)
Eiður: Þú talar oft um of miklar íþróttir hjá Ríkisútvarpinu.
„Ekki yrði Molaskrifari hissa þótt athugun leiddi í ljós að íþróttafréttir í Ríkissjónvarpinu í almennum fréttatímum séu langtum lengri en í nokkurri annarri norrænni sjónavarpsstöð.“
Þetta var dagskrá NRK 1 í gær (á NRK2 voru aðallega skautakeppnir af ýmsu tagi)
NRKs sportssøndag
09:10V-cup alpint: Slalåm 1. omgang, kvinner
09:45X Games: Høydepunkter Ski Big Air
10:15Vinterstudio
10:30NM på ski: Kombinert langrenn
11:15Vinterstudio
11:30NM på ski: Stafett kvinner
12:15Vinterstudio
12:25V-cup alpint: Sammendrag slalåm 1. omgang, menn
12:35Vinterstudio
12:45NM på ski: Stafett menn
14:00Vinterstudio
14:30V-cup hopp: Skiflyging
16:30V-cup kombinert: Langrenn
17:00V-cup alpint: Høydepunkter slalåm, menn
17:30X Games: Høydepunkter Ski Big Air og snøbrett slopestyle-finaler
18:00Vinterstudio
18:30Newton
19:00Søndagsrevyen
19:45Sportsrevyen
20:15Tore på sporet
SVT1
08.30
Vinterstudion
09.15
Alpint: Världscupen Maribor
10.00
Vinterstudion
12.15
Alpint: Världscupen Maribor
13.00
Vinterstudion
17.00
Ridsport: Världscuphoppningen
17.55
Sportnytt
18.00
Rapport
18.10
Regionala nyheter
18.15
Landet runt
19.00
Sportspegeln
19.30
Rapport
Á eftir íþróttaútsendingum frá morgni til kvölds fylgdu sem sé hálftíma íþróttafréttir á báðum stöðvunum.
Kveðja Jón