Blóði verður spillt, segir í texta við auglýsingu um kvikmyndina Lincoln. Auglýsingin var í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöld (30.01.2013). Þarna hefur eitthvað skolast til hjá þýðanda sem verið hefur að baksa við að þýða ensku setninguna: Blood will be spilled. Það þýðir reyndar á íslensku: Blóði verður úthellt. Að spilla einhverju er hinsvegar að skemma eitthvað.
Hugmyndin að baki auglýsingum Icelandair þar sem blandað er saman myndum frá erlendum borgum og Reykjavík er góð. Fínar auglýsingar. Sama verður ekki sagt um auglýsingar Ríkissjónvarpsins þar sem vakin er athygli á Söngvakeppninni. Þar stendur einn af aðstandendum svokallaðra Hraðfrétta í dyrum sendibíls á ferð. Augljóslega er þetta lögbrot og hvetur ekki til virðingar fyrir lögum og reglum. Hvað segir Umferðarstofa?
Fróðlegt væri annars að vita hve mörg hundruð þúsund krónur Ríkissjónvarpið borgar fyrir Hraðfréttavitleysuna eins og sýnd var í gærkveldi (31.01.2013). Allar slíkar kostnaðartölur eru leyndarmál hjá þjóðarútvarpinu í Efstaleiti. Okkur kemur það ekkert við, – okkur sem eigum þessa stofnun.
Skemmtilegur fróðleiksmoli var í Kiljunni (30.01.2013) um hrísluna hans Páls á balanum græna og góð var hugmynd Braga Kristjónssonar um að flytja listaverkið Fallandi gengi ofan frá Rauðavatni í námunda við hús Seðlabankans!Sigurður G. var góður í Kiljunni. Hversvegna fær Ríkisútvarpið hann ekki til að stjórna símaþætti? Hann er einn fárra sem getur gert það með miklum ágætum.
Það var heldur snemmborin gleði hjá Morgunblaðinu um vantraust á ríkisstjórnina þegar blaðið á miðvikudag (30.01.2013) birti fjögurra dálkafyrirsögn á forsíðu: Vantraust í farvatninu. Daginn eftir var eindálka frétt inni í blaðinu: Framsókn hættir við vantraust. Fyrirsögn Staksteina þann dag var hinsvegar vel við hæfi: Fagnaðarlátum frestað.
Það var mikið örlæti hjá ráðamönnum Kastljóss Ríkissjónvarpsins að helga nær allan þáttinn á miðvikudagskvöld (30.01.2013) Wikileaks og starfsmanni Julians Assange og Wikileaks. Assange hefur leitað skjóls í erlendu sendiráði í London. Hann neitar að fara til Svíþjóðar í skýrslutöku vegna ákæru eða ásakana um nauðgun. Kristinn Hrafnsson starfsmaður Assange var á sínum tíma fréttamaður hjá Ríkissjónvarpi. Hann fór þá til Bagdad, að hluta til á vegum Ríkissjónvarpsins, að því er sagt var. Þegar spurt var um kostnað vegna þeirrar ferðar urðu þau þrísaga, Kristinn Hrafnsson, útvarpsstjóri og Birgitta Jónsdóttir alþingismaður sem þá var einnig að vinna fyrir Wikileaks. Þessvegna leyfir Molaskrifari sér að trúa ekki öllu eins og nýju neti sem sagt var í þessum þætti.
Fréttinvar hinsvegar sú ósvífni bandarísku alríkislögreglunnar FBI að senda hingað lögreglumenn til rannsókna án alls samráðs við íslensk stjórnvöld. Engu er líkara en andi hins alræmda en löngu liðna J. Edgars Hoovers svífi þar enn yfir vötnum. Þetta var svo sannarlega frétt. En þeirri frétt hefði átt að gera skil með öðrum hætti en þarna var gert. Hún þurfti ekki lungann úr Kastljósinu. Kvöldið eftir (31.01.2013) var svo innihaldslítið framhald málsins í Kastljósi. Þar var engu bætt við það sem áður hafði komið fram.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
01/02/2013 at 20:22 (UTC 0)
Auglýsing Hraðfrétta er sviðsett og er ekki lögbrot frekar þegar konur keyrðu inn í hús í kvikmyndinni Löggulíf. Ef allt, allt allstaðar, ætti að hvetja til siðaðrar hegðunar, væri held ég bara aðeins leiðinlegra á þessum blessaða heimi. Verum ekki alltaf svona fúl og alvarleg, þó svo að við deilum ekki alltaf sama smekknum.
Bestu kveðjur.
valdimar Lárusson skrifar:
01/02/2013 at 17:49 (UTC 0)
Yfirleitt hefur nú dugað að hafa eitt ð í miðla. Þeir sem gagnrýna smáatriði hjá öðrum ættu að vanda sig og lesa yfir það sem þeir láta frá sér fara.
Eiður skrifar:
01/02/2013 at 15:54 (UTC 0)
Þú hefur ýmislegt til þíns máls, Þorgils Hlynur.
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:
01/02/2013 at 11:05 (UTC 0)
Kæri Eiður. Enn á ný þakka ég fyrir áhugaverðu pistlana þína um íslenskt mál. Það er skemmtilegt hvernig þú talar um Ríkisútvarpið. Reyndar skrifar þú um kostnaðinn við alla þá vitleysu sem þar viðgengst: „Allar slíkar kostnaðartölur eru leyndarmál hjá þjóðarútvarpinu í Efstaleiti.“ Ein stutt athugasemd: Væri ekki réttara að segja: „…hjá þjóðarútvarpinu við Efstaleiti,“ þar sem þjóðarútvarpið stendur ekki í Efstaleitinu miðju, (á miðri götunni!) heldur stendur húsið á lóð við götuna. Einnig vandist ég því, þegar húsnúmer fylgja byggingunum að sagt væri (til dæmis): Útvarpshúsið stendur að Efstaleiti 1. Hvað segir þú við þessu? Kær kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson.