«

»

Molar um málfar og Miðla 1124

Piers Morgan hefur að undanförnu verið með áhugaverða umræðuþætti á CNN um byssufrelsið í Bandaríkjunum. Nýlega ræddi hann við repúblikanann Jan Brewer en hún er ríkisstjóri í Arizona. Brewer vill byssufrelsi og að fólk megi  eiga hríðaskotariffla og önnur  öflug vopn sem venjulegt fólk  hefur ekkert  við að gera. Í   þætti á  miðvikudagskvöld (30.01.2013) talaði hún um  fjölskyldubyssur , family guns, Molaskrifari játar að slíkra vopna hefur hann aldrei heyrt getið.

 

Molavinur skrifar (31.01.2013): „Það var sérkennilegt að sjá þessa fyrirsögn: London og Haag beri kostnaðinn á forsíðu Morgunblaðsins 31. janúar. Hún brýtur í bága við grunnreglur í ritun frétta á íslensku þar sem ákvarðanir eru alls ekki kenndar við höfuðborgir eins og gert er á ensku og ýmsum öðrum erlendum tungumálum. Þarna hefði auðveldlega mátt segja: Bretar og Hollendingar borga. Í mínum huga er álitamál hvort ekki beri að nota þjóðaheiti í stað nafna á löndum til dæmis þegar fjallað er um alþjóðaviðræður, segja frekar: Þjóðverjar, Bretar og Hollendingar ræða saman í stað: Þýskaland, Bretland og Holland ræða saman. Hver er afstaða þín til þessa álitamáls?“ Afstaða Molaskrifara er sæu að hann er hjartanlega sammála Molavini og þakkar honum þessar línur.

 

Þeir sem lesa þessa Mola vita  að hér er stundum vikið dagskrá Ríkissjónvarpsins. Á fimmtudögum er oft sérstaklega slök. Svo var til dæmis sl.  fimmtudag (31.01.2013). að loknum fréttum og Kastljósi var Söngvakeppnin , – enn einu sinni og síðan matreiðsluþáttur. Þá tóku við fram að miðnætti  fjórar  engilsaxneskar þáttaraðir, – þar af ein  endursýnd.  Það er hægt að gera betur en  þetta. Metnaðarleysið er með ólíkindum. Er  norræna sjónvarpssamstarfið  úr sögunni? Er Nordvision  liðin undir lok? Af dagskrá Ríkissjónvarpsins mætti halda það.

 

Ekki gat Molaskrifari betur heyrt en að í fréttum  Ríkissjónvarps (31.01.2013) væri talað um nokkur sönglög efir Atla HeimiR Sveinsson. Atli Heimir Sveinsson á  betra skilið. Lögin voru eftir Atla Heimi Sveinsson. Molaskrifari man fyrst eftir Atla Heimi sem markmanni í fjórða flokki A í KR á fótboltavellinum  sem var sunnan við Trípólibíó. Það hefur líklega verið   öðru hvoru megin við  1950.

 

 

Einhver mesta oflofsgrein sem lengi hefur sést á prenti var í Morgunblaðinu á fimmtudag (31.01.2013). Þar skrifaði  Guðni Ágústsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins  grein í norður kóreskum stíl um ágæti forsetans, formanns Framsóknarflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins. Allir voru þeir teknir í guða tölu, ef þeir  voru þar ekki þá þegar.  Guðni  sleppir  því hinsvegar að nefna sneypuför  formanns Framsóknarflokksins til Noregs þegar  hann ætlaði ætla bjarga fjárhag íslensku þjóðarinnar  með samtali við einn  norskan þingmann.Nú skála Framsóknarmenn á börum borgarinnar eins og þeir hafi unnið sigur í fórboltaleik! – Og bólgna út af þjóðrembu.  Guðni blessaður   lætur þess líka ógetið að fyrir dómsuppkvaðninguna sagði forseti Íslands við umheiminn að EFTA  dómstóllinn væri enginn dómstóll, hann gæfi út einhverskonar lögfræðilegar álitsgerðir sem væru alls  ekki bindinandi  fyrir Íslendinga! Nú er að vísu komið annað hljóð í Bessastaðastrokkinn. Þau eru skemmtileg pólitísku skrifin núna með hækkandi sól. En hvort nokkrum manni er greiði gerður með  svo takmarkalausu oflofi er svo aftur önnur saga.  

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    Family Guns ! ! ??

    Í Fréttablaðinu í dag er grein um bræðurnar John (50) og Jim (49). Þeir eru þjálfarar í ameríska fótboltanum og mætast í Super Bowl á morgun. Ég set aldur þeirra í sviga eins og algengt er í erlendum blöðum en allt of sjaldséð í þeim íslensku. Í grein FBL kemur nefnilega aldur þeirra hvergi fram, bara að John sé 15 mánuðum eldri. John fæddist semsagt 1962 og Jim 1963 skv. Wikipedia.

    Fyrirsögnin á sömu grein orkar tvímælis. „Voru herbergisfélagar í átján ár“. Er það viðeigandi orðalag fyrir unga bræður sem deila herbergi heima hjá sér ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>