«

»

Molar um málfar og miðla 1125

Í þessum Molum eru þrjú lesendabréf:

Dyggur lesandi Molanna skrifaði (31.01.2013); ,,Arthúr Björgvin Bollason er meðal allra áheyrilegustu fréttamanna Ríkisútvarpsins.
Honum varð þó á í messunni í fréttaskýringaþættinum Speglinum í gærkvöldi.
Þar sagði hann frá heimsókn forseta Egyptalands til þýska kanslarans, frú
Merkel. Sagði Arthur Björgvin að Moussi hafi komið til mótsins með
„klofinn hjálm og rifinn skjöld“. Hér hefur fréttamaður ætlað að vitna í kvæði Bólu Hjálmars, sem öllum Íslendingum á að vera kunnugt. Það hljóðar svo:
Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld
ég kem eftir kannske í kvöld
með klofinn hjálm og rofinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

ROFINN ekki RIFINN skjöld. Mikið getur einn lítill bókstafur – eitt O – breytt miklu
í myndmáli meistaraskálds.” Molaskrifari þakkar góða sendingu.

Annar lesandi Molanna skrifar: “ Í síðustu viku var sagt frá því að fyrirtæki mjólkuriðnaðinum sætu ekki við sama borð.
MS selur Mjólku afurðir á lægra verði en „Kú“.
Ég kíkti á kú.is
KÚ er nýtt vörumerki á íslenskum mjólkurvörumarkaði. Fyrstu vörurnar er desertostar og búðingar, en innan tíðar munu nýjar vörur bætast við úrvalið.
Hvað segja menn? Það er kannski allt í lagi að heita eitthvað í þolfalli??” Ekki veit ég það, en þá ætti ég víst að heita Eið!

Hér kemur svo þriðja bréfið frá fyrrum samstarfskonu og góðri vinkonu. Hún segir: ,,Takk fyrir að þreytast ekki á að reyna að bjarga íslenskunni frá öllum enskuslettunum. Ég heyrði einhvern tíma ungling reyna að finna enskt orð í viðtali til að reyna að útskýra hvað hann væri að reyna að segja á íslensku. Við sem vorum svo lánsöm að alast upp á íslenskum alþýðuheimilum þar sem maður var stöðugt leiðréttur ef maður sagði eitthvað rangt og lentum svo í áframhaldandi uppeldi hjá Séra Emil sem seint verður þakkað.

Erindi mitt var að biðja þig að taka á því sem endalaust heyrist og fólk virðist vera sofandi yfir er þegar sagt er „hún á von á sínu öðru barni“ eða þannig að ég fæ alltaf hroll. Maður heyrir þetta mjög mikið í íþróttafréttum og bara allsstaðar. Blessaður taktu þetta fyrir og sem oftast. “ Þessu er hér með til haga haldið. Takk fyrir bréfið.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Fyrst veirusýkinni og lungnabólgunni og tókst ekki að drepa mig upp úr áramótunum, langar mig að leggja hér aðeins orð í belg, þótt síðasta ferð mín hingað væri lítt sköruleg! Og þá er það erindið:
    1) Kærar þakkir til Molaskrifara fyrir afbragðsgott viðtal í Sunnudags-Mogga í gær.
    2) Auðvitað ættu allir Íslendingar að kunna hið alþekkta ljóð, „mínir vinir fara fjöld“. En – í heildarútgáfu á verkum Bólu-Hjálmars, sem Finnur heitinn Sigmundsson sá um, er
    einmitt þessi skemmilega villa á bls. 293. Þar stendur „rifinn“, en ekki „rofinn“. – Ég man að ég móðgaðist herfilega og krotaði í spánnýja bókina!
    Kær kveðja. V.S.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>