Skrítin frétt á Stöð tvö (18.02.2013) Leikskólakennari framvísaði ógildu strætókorti og var vísað út úr strætó með 19 leikskólabörn. Í viðtali við Stöð tvö virtist kennarinn ekkert sjá athugavert við að nota ógilt kort til að ferðast með 19 börn í strætó. Tæpast góð fyrirmynd fyrir börnin. Talsmaður Strætó sagði að bæði kennarinn og bílstjórinn hefðu mátt sýna betri dómgreind. Sjálfsagt rétt. Síðan sagði fréttamaður Stöðvar að talsmaður Strætó hefði beðið börnin afsökunar á ómakinu ! Ómak er umstang eða ónæði. Eðlilegra hefði verið að segja að hann hefði beðið börnin afsökunar á þessu atviki. En hefði kennarinn ekki átt að biðja börnin afsökunar?
Molaskrifari horfði á hluta útsendingar frá afhendingu Edduverðlauna í Hörpu. Kunni lítt að meta undarlegt kossaflens á sviðinu. Aðallega hallærislegt. Hann játar fúslega að hafa aldrei heyrt svonefndan ,,Sjónvarpsmann ársins” nefndan og hefur ekki hugmynd hvað sá hefur til síns ágætis. Hefur raunar hitt ýmsa sem standa líka á gati. Voru hér brögð í tafli? Hvernig féllu atkvæði? Þarna voru tilnefndir ýmsir t.d. úr Kastljósi sem unnið hafa frábærlega vel og eiga heiður skilinn. Þetta var allt hálffáránlegt, – og eiginlega meira en það.
Það var undarlegt í Silfri Egils (17.02.2013) að heyra varaformann Framsóknarflokksins fullyrða að Sviss vildi komast inn í EES! Þetta er tilhæfulaus fullyrðing einsog þeir vita sem fylgjast svolítið með þróun mála í Evrópu. Sviss hefur svo hagstæðan tvíhliða samning við ESB að sambærilegur samningur verður aldrei gerður aftur. Í Silfrinu hreyfði enginn andmælum. Vissi fólk ekki betur? Það er slæmt þegar farið er rangt með staðreyndir í þáttum af þessu tagi.
Undarlegt er hve margir tala um þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar átt er við skoðanakönnun sem fram fór um afstöðu fólks til tillagna Stjórnlagaráðs. Þær spurningar sem afstaða fólks var könnuð til voru óljósar og ómarkvissar.
Nú er komið í ljós að það var aðeins í tilefni af degi táknmálsins að viðtöl voru textuð í fréttum Ríkissjónvarpsins. Áhugaverðar umræður á Fb (19.02.2013) vegna greinar Gísla Ásgeirssonar: http://malbeinid.wordpress.com/2013/02/19/textun-frettatima-ruv/ Þessu þarf að hrinda í framkvæmd. Gott hefði til dæmis verið að texta viðtalið við telpurnar á Akureyri sem unnu það afrek að bjarga stöllu sinni sem féll niður um ís sem brotnaði undan henni og var hætt komin (19.01.2013).
Blaðamaður sendi eftirfarandi (18.02.2013) ,,Það stingur alltaf í augu þegar dauðum hlutum er fengið líf í frásögnum. Hvernig getur flugvél Landhelgisgæslunnar komið auga á eitthvað – sjá hér að neðan? (Ef til vill er þessi kansellístíll hugsaður til þess að skapa einhverja fjarlægð – það er að einstaka menn skyggi ekki á Gæsluna eða verkefni hennar. Ætli karla eins og Guðmundar Kjærnested væri í nokkru getið væri þorskastríð fyrir ströndum í dag. Með sama hætti; ég vil þekkja lögregluþjónana í miðbænum með nafni og geta rabbað við þá, vita hverjir séu flugstjórarnir ef ég flýg út á land, og ekkert verra að vita hver er í brúnni þegar Fossarnir sigla inn Sundin. Skrautbúin skip fyrir landi færandi varninginn heim!)
http://www.visir.is/krosslaga-rekald-vekur-athygli-landhelgisgaeslunnar/article/2013130219157 ,,Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, kom auga á stórt, krosslaga rekald í hefðbundnu gæslu- og eftirlitsflugi sínu í vikunni.
Á vef Landhelgisgæslunnar kemur fram að hluturinn sé 15 sinnum sex metrar á kant og staðsett 33 sjómílur vestur-suðvestur af Reykjanesi.” Hér má bæta við að rekaldið,sem í fréttinni er kallað ,,hluturinn” er ekki staðsett heldur staðsettur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar