«

»

Molar um málfar og miðla 1140

Helgi Haraldsson í Osló, góðvinur Molanna, bendir á eftirfarandi: Mbl 18/2-2013
http://www.mbl.is/frettir/
„Við ættum að eiga bestu skólana“
Með breyttu skipulagi skóladagsins fyrstu 4-5 árin í grunnskóla er hægt að byggja upp þá grunnfærni sem nauðsynleg er til að ná tökum á öðrum námsgreinum.
Hver skyldi hafa þýtt þetta?!
Eða er þetta haft orðrétt eftir prófessornum?.- Ja, hérna!

Molaskrifari nefndi það í tölvubréfi til Helga í Osló að hér væru hlýindi óvenjuleg,- sex til átta stiga hiti í höfuðborginni dag eftir dag. Runnar af erlendum uppruna létu blekkjast og væru farnir að bruma. Íslenska birkið léti þó ekki blekkjast. Helgi svaraði að bragði:
Stendur það í stykkinu
stolt um daga og nætur.
Ég bið að heilsa birkinu
sem blekkjast ekki lætur!

Molaskrifari þakkar Helga sendinguna. Góður kveðskapur. Kveðjunni var komið til skila í göngu í kringum Vífilsstaðavatnið (19.01.2013).

Skráðir hundar á höfuðborgarsvæðinu eru hátt í sex þúsund en hundarnir telja líklega níu þúsund, svona tók fréttamaður Stöðvar til orða (19.01.2013) á þriðjudagskvöld. Hann átti við að hundarnir væru líklega níu þúsund. Hundar telja ekki neitt. Þetta orðalag er út í hött. Lesa og læra betur.

Svo var í fréttum Ríkissjónvarps (19.01.2013) sagt frá íslenskum glæpamönnum sem hefðu verið handteknir í dönskum tukthúsum! Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt!

Klukkan rúmlega hálf ellefu í gærkveldi (20.02.2013) bauð Ríkissjónvarpið upp á klámmynd sem kölluð var heimildamynd. Hér eru stjórnendur Ríkissjónvarpsins að feta nýjar brautir. Aldrei sjást heimildamyndir um erlend málefni eða þróun sögu og samfélaga í veröldinni. En nú er boðið upp á klám. Kannski eru æðstu stjórnendur þessarar menningarstofnunar, sem einu sinni var, nú loksins búnir að finna fjölina sína: Klám sem kallað er heimildamyndir.

Af mbl.is (19.01.2013): Um helgina hittust á þriðja tug einstaklinga saman í Háskólanum í Reykjavík … – ekki hittust saman. Komu saman eða hittust.

Mjög góður pistill var um gangbrautir á höfuðborgarsvæðinu , slæma merkingu þeirra og misræmi í merkingum í fréttum Stöðvar tvö (19.01.2013). Yfirvöld þurfa að lagfæra þetta. Núverandi ástand hefur mikla slysahættu í för með sér. Þetta ætti að vera tiltöluleg einfalt mál að kippa í liðinn. Borgarstjórn Reykjavíkur ætti frekar að ræða þessi mál en hassbúlluhugmyndir. Molaskrifari upplifði reyndar gagnbrautarháska daginn eftir umfjöllun Stöðvar tvö. Þar sem Ásabraut í Garðabæ endar við Vífilsstaðaveg eru gangbrautarmerki, en engin sebrastrik á götunni. Molaskrifari heyrði mikinn hvin í lofti er hann var að fara yfir götuna. Aðvífandi kom svartur Range Rover sennilega á 80/90 km hraða ( þarna er 50 km hámarkshraði). Ökumaðurinn talaði án afláts í símann. Greinilega ekki haft ráð á að kaupa handfrjálsan búnað. Molaskrifari átti fótum fjör að launa.

Helga Árna skrifar (19.01.2013): ,,Heill og sæll Eiður. Enn og aftur gengur fram af mér. Frá ritstjórn D.V. í dag 19.2 kemur þessi klausa; ,,Í dag verður tekin ákvörðun um það hvort að Oscar fær að vera látinn laus“..Æ,æ,æ, hvað næst?? Kveðja Helga Árna.”. Molaskrifari þakkar Helgu á bendinguna. Von er að spurt sé: Hvað næst?

Það orkar mjög tvímælis hvort ógeðfelld ofbeldisdýrkun og slagsmál eins og sýnd voru í Kastljósi á þriðjudagskvöld (19.02.2013) strax að loknum fréttum eiga erindi í fréttaskýringaþátt. Molaskrifari er á því að þetta efni hafi ekki átt neitt erindi í Kastljós á tíma sem börn gjarnan eru að horfa. Skiptir þá engu þótt varað hafi verið myndunum. Mistök.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    -Grunnfærni- er, illu heilli, brúkuð í aðalnáms-krá framhaldsskóla og grunnskóla sem hugtak yfir grundvallarþekkingu og færni. Hef ég þó tuðað heilmikið um þetta á þar til gerðum vettvangi en lítt fengið áheyrn.

  2. Eiður skrifar:

    Sæll, Egill. Sammála. Þarna hefði átt að tala um falsaðar evrur. Hitt er út í hött. Kannski má tala um svikið fé, fé sem hefur verið svikið út úr einhverjum , fengið með rangindum.

  3. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Á mbl.is í morgun er fyrirsögnin „Sviknar evrur finnast í Portúgal“.
    Þetta finnst mér hljóma furðulega. Falsað hefur yfirleitt verið notað um peninga en sviknir peningar finnst mér rugl. Kannski er ekkert athugavert við þetta, maður er bara orðinn svo vanur því að talað sé um falsaða peninga.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>