«

»

Molar um málfar og miðla 1141

Í sjöfréttum Ríkisútvarps (20.02.2013) var sagt: Þegar klukkan var fjórðungi gengin í tvö í nótt. Fjórðung gengin í tvö, fimmtán mínútur yfir eitt. Þar var enn fremur talað um efnahagsörðugleika í Ítalíu. Það er málvenja í íslensku að segja á Ítalíu ekki í Ítalíu. Í þessum sama stutta fréttatíma var talað um að gera að einhverju skóna. Það er talað um að gera einhverju skóna, gera ráð fyrir einhverju, búast við einhverju. Þessi villa heyrist æ oftar. Sá sem skrifaði þessa frétt ætti að lesa sér til á bls. 767 í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson. Sú ágæta bók ætti að vera innan seilingar allra þeirra sem fást við skriftir.

Í morgunútvarpi Rásar tvö (20.02.2013) var sagt frá því að í Sjónvarpi Símans væri nú hægt að horfa á útsendingar færeyska sjónvarpsins eins og áður hefur vikið að í Molum. Umsjónarmenn sem þetta ræddu kölluðu færeyska sjónvarpið reyndar færeyska kringluvarpið ! Það heitir Kringvarp Føroya. Í færeysku orðabókinni segir: Kringvarp , – felagsheiti fyri útvarp og sjónvarp.

Fjölmiðlamaður skrifar (20.02.2013): ,,Framkvæma innköllun á vörum, segir Matvælastofnun – það athyglisverða fyrirbæri. Hér færi betur að segja, held ég, að vörur hafi verið fjarlægðar, teknar úr sölu, innkallaðar eða eitthvað slíkt. Raunar finnst mér orðið framkvæmd öðru betur eiga við um eitthvað sem er stórt í sniðum, sbr. byggingaframkvæmdir.” http://mast.is/frettaflokkar/frett/2013/02/13/Ekkert-hrossakjot-i-innkolludu-nautalasagne/ 13.02.2013 Fréttir – ,,Eggert Kristjánssonar hf., í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, framkvæmdi innköllun á vörunni í varúðarskyni vegna möguleika á því að hún innihéldi hrossakjöt”. Molaskrifari þakkar bréfið.

Í fréttum Ríkissjónvarps (20.02.2013) var sagt að ökutækjum lögreglunnar hefði verið ekið fimm komma einn milljón kílómetra. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að tala um fimm komma eina milljón kílómetra.

Góðvinur sendi Molaskrifara þessa krækju á fréttir Ríkissjónvarpsins 30. apríl 1991 en þá urðu stjórnarskipti og við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Molaskrifari horfði á þennan gamla fréttatíma til enda. Kom á óvart hve löng, vel unnin og ítarleg umfjöllunin var. Síðan hefur starfsliði fréttastofunnar fjölgað mikið og tæknin batnað. Molaskrifari er hreint ekki viss um að þetta yrði betur unnið í dag þótt starfsmenn séu nú langtum fleiri en var fyrir tæplega 22 árum. Gaman að þessu. Sjá: .https://www.youtube.com/watch?v=fQg6m2yTVO0 þessa

Í Gevalíakaffiauglýsingu í Ríkissjónvarpinu segir að gott kaffi fái fólk til að tala. Það verður ekki ráðið af auglýsingunni. Það sem þar er sagt, er samhengislaust bull. Þetta kaffi fær fólk samkvæmt því til að bulla.

Hörð barátta á tónlistarverðlaunum , segir í fyrirsögn í DV (20.02.2013). Betra hefði verið að tala um harða baráttu um tónlistarverðlaun sem afhenda átti í Hörpu þetta kvöld.

Lesandi benti á eftirfarandi af spjallvef Hestafrétta (20.02.2013): ,,Hvaða hnakki mælið þið með, fyrir knapa í þyngri kantinum, sem er með gott sæti, góða púða og fer vel með hestinn?” Sá þennan texta á spjallsíðu. Var greinilega ekki hugsað, sem skrýtla.
Skemmtilegt samt.”

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Já, þetta með hnakkinn og knapann er svona eins og auglýsingin gamla og góða
    „Nýkomnir kuldaskór handa karlmönnum sem eru loðnir að innan“ (!)

    Kær kveðja V.S.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>