«

»

Molar um málfar og miðla 1142

Lesandi benti á þessa frétt á mbl.is (20.02.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/02/20/bunir_ad_grafa_11_12_thusund_tonn/ Þarna er talað um að grafa síld í fjörunni. Eðlilegra væri að mati Molaskrifara að tala um að urða síldina. Í fréttinni segir: ,, Síldin er grafin í fjörunni, en grútnum er ekið að urðunarstað í Fíflholtum. Bjarni segir að reynt sé að taka margar grafir í fjörunni, frekar en fáar stórar. Dýpstu grafirnar séu um tveir metrar. En efnið sem kemur upp úr gröfunum er mokað yfir síldina.” – Efnið er mokað yfir síldina segir á mbl.is. Margt mætti um þetta segja, en efninu, möl eða sandi, er mokað yfir síldina. svo væri ef til vill eðlilegra að tala um gryfjur en grafir.

Molaskrifari fellir sig ekki við orðalagið skynsöm leið, sem þingmaðurinn Þór Saari notaði í fréttum Ríkissjónvarps.(20.02.2013). Erfitt er að sjá að leið geti verið skynsöm. Það getur hinsvegar verið skynsamlegt að fara tiltekna leið. Í fréttum Stöðvar tvö var sagt að kosið yrði um tillögu um vantraust á ríkisstjórnina á Alþingi. Þetta orðalag verður æ algengara. Molaskrifari er svo íhaldssamur að hann fellir sig betur við að talað sé um að greiða atkvæði um tillögu fremur en að kjósa um tillögu.

Ágætlega skemmti Molaskrifari sér við að horfa á beina útsendingu Ríkissjónvarps frá afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna (20.02.2013). Hann þekkti hreint ekki alla þá sem verðlaunaðir voru en Vetrarferð þeirra Kristins og Víkings Heiðars átti þar svo sannarlega heima. Meistaraverk. Hápunkturinn var ræða Þorgerðar Ingólfsdóttur kórstjóra sem unnið hefur ómetanlegt starf í áratugi með ungu fólki í Hamrahlíð. Falleg ræða. Og ekki var hún slök ræða Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra sem afhenti Þorgerði þessa verðskulduðu viðurkenningu.
Undarlegt var, þegar styrktaraðilar kvöldsins voru taldir upp þá var talað um Rás eitt, Rás tvö og RÚV. Var lagt bann við að nefna Ríkisútvarpið? Var það ekki Ríkisútvarpið sem styrkti þetta? Það er óskiljanlegt hversvegna æðsta stjórn Ríkisútvarpsins hatast við og bannfærir hið rétta heiti stofnunarinnar. Þetta mun vera ákvörðun útvarpsstjórans, sem virðist andvígur því að stofnunin sé kennd við eiganda sinn, ríkið, þjóðina. Það er ekkert að því að nota skammstöfunina RÚV í hófi. En það er löglaust að banna notkun hins rétta nafns stofnunarinnar. Við bætist ruglið að stundum er RÚV aðeins Ríkissjónvarpið en stundum stofnunin öll.

Hvaða félag er þetta þjófélag,sem útvarpsstjóra Útvarps Sögu verður svo tíðrætt um í einkamálgagni sínu?

Skeljungur/Orka þarf að láta leiðrétta límmiða sem settir hafa verið upp sumum afgreiðslustöðvum. Á miðunum segir: Algjörlega óheimilt er að versla vinnuvélaolíu nema með viðskiptakortu/staðgreiðslukorti Skeljungs. Við verslum ekki olíu. Við kaupum olíu. Skorað er á fyrirtækið að leiðrétta villuna.

Þýðingarvillur eru ekki óþekkt fyrirbæri í erlendu sjónvarpsstöðvunum sem hér eru aðgengilegar. Í danska sjónvarpinu var nýlega (20.02.2013)sýndur þáttur í röðinni Murder She Wrote þar sem Angela Lansbury leikur glæpasagnahöfundinn Jessicu Fletcher sem leysir hvert morðmálið á fætur öðru eins og hendi sé veifað. Í þættinum var talað um dump truck á ensku og í danska neðanmálatextanum var það kallað skraldevogn. Skraldevogn er það sem köllum ruslabíl eða öskubíl. Dump truck er hinsvegar malar- eða efnisflutningabíll með sturtupalli. Var stundum kallað sturtubíll í gamla daga. En þetta var nú eiginlega útúrdúr.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ég styðst nú bara við máltilfinningu,Þorvaldur og Íslenska orðabók.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Að urða þýðir vitaskuld að bera í urð, hlaða urð að einhverju því sem hverfa skal. Það er alveg ný merking, frá seinni hluta tuttugustu aldar, að hægt sé að urða með mold. En kannski er Molahöfundur að verða nýjungagjarnari með aldrinum?

  3. Eiður skrifar:

    Orðabókin segir að urða geti einnig þýtt að grafa úti á víðavangi. Þetta skilur sjálfsagt hver sínum skilningi. Mér finnst ekkert að því að tala um að urða þótt ekki komi mikið af grjóti við sögu!

  4. Konráð Erlendsson skrifar:

    Sæll.

    Ég get ekki stillt mig um að gera hér athugasemd. Mér finnst einmitt betra að tala um að grafa síldina en að urða hana. Mér finnst ekki hægt að urða í sandi. Urð felur í sér grófara efni, steina eða grjót. Að urða hlýtur þá að vera að hylja eitthvað með urð eða grjóti, ekki satt? Sem sagt: við skulum halda áfram að grafa síldina í sandinn.

    Kveðjur, K.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>