«

»

Molar um málfar og miðla 1144

Hjálmar Georgsson skrifaði (23.02.2013): ,,Sæll Eiður. Ég hef verið að lesa pistlana þína og líkað vel. Nú dynur í höfðinu á okkur síðustu áratugi hugtakið kostir og gallar sem að mínu viti er afbökun á máli. Í stað þess að tala um kosti og ókosti og svo gæði og galla sem er verk úttektaraðila hverju sinni til að tryggja gæðin. Ég vann lengi eftir alþjóðlegum stöðlum og veit að kostavara getur verið gölluð. Eins getur vara haft ókosti en verið ógölluð.” Molaskrifari þakkar Hjálmari bréfið.

Í fréttum Stöðvar tvö (23.02.2013) var sagt frá námsárangri nemanda í Háskóla Íslands og sagt að námið hefði að mestu verið kennt á íslensku. Betra hefði verið að segja að kennslan hefði að mestu farið fram á íslensku. Eða að námsefnið hefði að mestu verið á íslensku.

Í auglýsingu frá Lottói er talað um brakandi ferskar milljónir. Hvað þýðir það?

Fyrr má nú gera vel við börn og unglinga en að sýna tvær ævintýramyndir í beit á besta tíma á laugardagskvöldi. Stundum er eins og þeim sem raða saman dagskrá Ríkissjónvarpsins sé ekki sjálfrátt. Hvaða aldurshópar horfa mest á Ríkissjónvarpið eftir fréttir á laugardagskvöldum?

Sögnin að valda vefst ekki aðeins fyrir fjölmiðlamönnum, – heldur einnig háskólamönnum. Í Silfri Egils talaði háskólamaður og kunnur álitsgjafi eins og það er víst kallað um að e-ð hefði ollið e-u. Í stað þess að segja að e-ð hefði valdið e-u. Ótrúlegt hvað þetta vefst fyrir fólki sem á að heita langskólagengið.
Af mbl.is (24.02.2013) er sagt var frá afstöðu formanns til niðurstöðu atkvæðagreiðslu á landsfundi VG: ,, ..Því get ég vel staðið með og unnt þessari niðurstöðu,“ segir Katrín. Molaskrifari efast stórlega um að menntamálaráðherra hafi orðað þetta svona , heldur sagt að hún gæti unað þessari niðurstöðu.
Í fréttum Ríkisútvarps (24.02.2013) var sagt um kjör formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi: Bjarni Benediktsson fékk sinn stærsta formannssigur… Vart getur þetta talist mjög vel orðað. Skárra hefði verið: Bjarni Benediktsson fékk sína bestu formannskosningu til þessa … Það var fleira stórt í Ríkisútvarpinu því knattspyrnufélag í Bretlandi vann sinn stærsta titil. Mikilvægasta titil?
Útvarp Saga hefur fram að þessu stært sig af því á klukkutíma fresti að vera eini frjálsi og óháði fjölmiðillinn hér á landi. Nú virðist útvarpsstöðin orðin hluti af nýjum stjórnmálaflokki þar sem stjórnarformaður Útvarps Sögu er í fjórmenningaflokki sem stjórnar hópi sem kallar sig Lýðræðisvaktina. Þannig er þessi útvarpsstöð væntanlega orðin hluti af því sem þar á bæ er jafnan kölluð hin gjörspillta stjórnmálastétt. – Hún getur verið undarleg þessi veröld.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>