Ingvar Hallgrímsson hafði samband við Molaskrifara og benti á auglýsingu á bls. 13 í Fréttablaðinu (25.02.2013) sem virðist á ábyrgð Reykjavíkurborgar, – Höfuðborgarstofu.
Auglýsingin hefst með spurningu: Hver eru skilaboð áfangastaða? Þetta er auðvitað eins og hvert annað bull,- en ekki tekur betra við. Aðalfyrirsögnin í auglýsingunni er: Málþing um vörumerkjamótun áfangastaða. – Hvað er Reykjavíkurborg að reyna að segja? Það er ekki alveg ljóst.
Formaður menningar- og ferðamálaráðs borgarinnar setur málþingið. Hann velkist vonandi ekki í vafa um hvað verið er að fjalla. Ingvar benti raunar á ýmislegt fleira sem hefði mátt orða betur í þessari auglýsingu.
Tvennt annað nefndi Ingvar í ágætu spjalli. Hann sagði að menn töluðu oft um niðurhal af netinu. Þá gleymdist það, sem Ingvar réttilega benti á, að menn hala upp en ekki niður. Menn slaka niður. Hversvegna má ekki tala um að sækja efni á netið í stað þess að hala niður? Það þriðja sem Ingvar nefndi var að oft hefur borið á góma að undanförnum að vegum blæði, þegar bundna slitlagið losnar í sundur. Hann spurði hvort ekki mætti tala um veglos, það kæmi los í veginn í stað þess að tala um blæðingar. Þessu er hér með komið á framfæri og Ingvari þakkað samtalið.
S.B. sendi eftirfarandi (25.02.2013):,, Í DV birtist frétt um mann sem skilaði hring sem hann fann. Í fréttinni segir:
,,…skilaði demantshring til eiganda síns.“
Eigandi mannsins hlýtur að hafa verið ánægður!
Þetta endurtekur sig í sífellu.
Fyrir skömmu sagði í frétt að fjórir karlar hefðu haldið konu fanginni gegn vilja sínum.”
Molaskrifari þakkar sendinguna.
Af mbl.is (25.02.2013): Ekki einungis vann mynd fjölskylduföðursins, Argo, Óskarinn sem besta kvikmyndin um kvöldið. Hér ætti að standa: … mynd fjölskylduföðurins … Svo er setningin að auki hálf ófullburða.
Í fréttum Ríkisútvarps /25.02.2013) var sagt frá fundi þingnefndar með seðlabankastjóra. Gjaldeyrishöft, efnahagsbatinn og nýlegar launahækkanir .., bar meðal annars á góma …. efnahagsbatann bar á góma, hefði verið betra.
Í fréttum Stöðvar tvö (25.02.2013) var sagt: Fjórtán prósent í formi stofnfés ..,
í formi stofnfjár, eignarfall orðsins fé er fjár, ekki fés. Ekki eru allar ferðir til fjár, þótt farnar séu.
Ríkissjónvarpið heldur áfram að brjóta sínar eigin reglur með birtingu hallærislegrar auglýsingar þar sem starfsmaður sem annast fréttatengdan þátt bullar um kaffi. Óskiljanlegt er að seljendur Gevalía kaffis skuli bendla sig við svona vitleysisgang.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Dóra Magnúsdóttir skrifar:
01/03/2013 at 10:49 (UTC 0)
Eiður er ósáttur við yfirskrift málþings Höfuðborgarstofu sl. þriðjudag. Hann segir að að yfirskriftin sé bull án þess að rökstyðja það nánar en hún var: Hver eru skilaboð áfangastaða? Ekki er hún málfræðilega röng að því er ég best veit en þó finnst honum hún vera bull. Getur verið að hann þekki ekki til þess þema sem þarna var rætt? Einnig gagnrýnir hann orðnotkunina „vörumerkjamótun“. Það orð sem sem flestir nota, alla vega þeir sem starfa að markaðssetningu, er „branding“ sem er jú enska en íslenska orðið er „mörkun“ sem ég leyfi mér að fullyrða að margir átti sig ekki á – sérstaklega þeir sem ekki starfa við markaðsmál dagsdaglega. Orðið „vörumerkjamótun“ er e.t.v. ekki lipurt en það er þó lýsandi, sumsé mótun/uppbygging vörumerkis (e. brand). Þó ekki fyrir Eið. Þess vegna er hugmyndin um mótun vörumerkis fyrir áfangastaði óljós fyrir Eiði og því hálfgert bull að hans mati („.. ekki tekur betra við“). Kannski hann hefði átt að mæta á málþingið og fræðast um efnið áður en hann bullar sjálfur?
Ég vek athygli á því að vefnum snara.is (Íslensk orðabók) stendur orðið „skilaboð“ fyrir „skilmæli, boðskapur, boð“. Þetta var nákvæmlega þema málþingsins.
Dóra Magnúsdóttir, Höfuðborgarstofu
Sigurjón skrifar:
27/02/2013 at 18:34 (UTC 0)
Ég held að það væri nær að nota nefnifall: vegurinn blæðir, vegirnir blæða.
Veglos er ekki alveg nógu gott því slitlagið getur losnað í sundur af fleiri ástæðum en „blæðingu“.
Það væri sennilega betra að tala um smit en blæðingu.