«

»

Molar um málfar og miðla 1178

Stórfyrirtæki eiga að vera vönd að virðingu sinni. Líka um það hvernig þau auglýsa, kynna starfsemi sína í fjölmiðlum. Icelandair auglýsti nýjan áfangastað í opnuauglýsingu í dagblöðunum. Þar vorum við ávörpuð á ensku: Start spreading the news! (Látið fréttirnar berast !) Við forráðamenn Icelandair vill Molaskrifari segja þetta: Sýnið okkur þá kurteisi að ávarpa okkur á íslensku. Það er enn töluð íslenska á Íslandi.

Á baksíðu Morgunblaðsins (09.04.2013) segir: ,, Þarna eru mjög vandaðir gripir sem eru eftir tvo merka handskera, Kristján Geirmundsson á Akureyri og Jón M. Guðmundsson í Reykjavík”.Orðið handskeri er ekki til. Hér er hins vegar verið að skrifa um menn sem voru eða eru hamskerar. En hamskeri er maður sem stoppar upp hami af dýrum til geymslu ( Íslensk orðabók)

Þorgils Hlynur Þorbegrsson skrifar (09.04.2013): ,,Sæll Eiður. Enn og aftur má þakka fyrir pistla þína og skemmtilegt er að lesa viðbrögð annarra vegna þeirra. Ég er ekki sáttur við þessa nýju sögn sem málfræðiprófessorinn telur sig þurfa að lýsa velþóknun yfir um að gefa þumal (þumla) eða lýsa yfir velþóknun á fésbókinni (svo) sem ég kýs reyndar að kalla einfaldlega ásjónuna. Þessi sögn er einfaldlega að „læka“. Ég tek þar með undir þá gagnrýni sem í pistlinum kemur fram. Ég ræddi þetta mál um daginn við góðan vin, sem einnig er mikill íslenskumaður. Hann benti mér á að þetta orð ætti sér ekkert rímorð í íslensku. „Hvaða rammíslenska sagnorð rímar á móti að læka,“ spurði hann mig. Okkur varð báðum svarafátt. Eftir dálitla umhugsun sagði hann: „Skárra hefði verið að taka upp sögnina að lækja. Orð eins og að sækja, rækja og hrækja ríma við það.“ Ég tók svo sem undir það, en benti á, eins og hann veit raunar, að þarna hef ég notað sögnina að þumla (eða gefa þumal) — fyrir utan að „þumal á það“ stuðlar í stað þess að segja „læk á það“ eins og jafnan tíðkast. Önnur góð manneskja spurði mig hvernig hægt væri að lýsa yfir vanþóknun, þannig að þumallinn sneri niður. Ég varð lengi hugsi yfir þessu, en gæti svarað því svo, ef til vill meira í gríni, að gefa fingurinn eða gefa puttann — án þess að þurfa að taka fram um hvaða fingur er að ræða!!! (Þetta er spaug, reyndar.) En í alvöru talað, þá mætti velta fyrir sér sögninni að þókna — sem nýyrði, í dag er hún ekki til nema í miðmynd að þóknast; ég þókna þetta (lýsi yfir velþóknun) og þá sem andstæðu að vanþókna, sem skýrir sig sjálf. Þarna eru komnar tvær, nýjar, rammíslenskar sagnir yfir þetta fyrirbæri, „að læka“, að þumla og þókna. Fólk þarf bara aðeins að hugsa.
Svo er það um frétt Stöðvar 2 frá 5. apríl. Væri ekki líka hægt að sleppa smáorðinu ef og segja einfaldlega „verði skilyrðum ekki fullnægt“?
Í þriðja lagi hef ég velt enska orðinu „leggings“ fyrir mér yfir þessa ágætu kvenflík og mæli frekar með því að hún (flíkin) verði kölluð leggingar. Nú er sem sagt búið að ákveða að leggings sé kvenkynsorð. fleirtölu. Af hverju ekki leggingar? Kær kveðja Þorgils Hlynur Þorbegrsson
PS. Í sambandi við þessa hugmynd að sögn, að þókna í þessu tilfelli, má benda á sögnina að iðra/iðrast. Í germynd er hún ópersónuleg (mig iðrar þess) en í miðmynd er hún persónuleg (ég iðrast þess). Hins vegar lýtur sögnin að þóknast sömu lögmálum og að líka, dáma og geðjast. Hún er ópersónuleg, stýrist af þágufalli. „Gerðu sem þér þóknast.“ Af hverju væri ekki hægt að snúa lögmálinu við um þessa sögn í þessu ákveðna samhengi? Kær kveðja, ÞHÞ. Molaskrifari þakkar bréfið.

Á mánudagskvöld (08.04.2013) sagði íþróttfréttamaður Ríkissjónvarpsins okkur frá Skotanum sem sigraði mótið. Mótið steinlá. Sumum íþróttafréttamönnum virðist fyrirmunað að læra það að menn sigra ekki mót.

Er það ekki ágætis dæmi um hræsnina og tvískinnunginn í samfélaginu að allir ráðamenn og þeir sem ættu að bera ábyrgð láta eins og sjónvarpsstöðvarnar séu að auglýsa léttöl þegar þær í rauninni eru að auglýsa áfengan bjór? Sennilega.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurgeir Jónsson skrifar:

    Datt þetta í hug, vegna sagnarinnar „að læka“ og því að skortur væri á rímorðum í íslensku:
    Þeir hóuðu í alla tiltæka
    og til stóð að gera þá brottræka.
    Þegar japönsk hæka
    ákvað að stræka
    á öndvegissögnina að læka.

  2. Eiður skrifar:

    Fréttabörn hafa kannski tekið völdin ?

  3. Ólafur Jón skrifar:

    Hvaða kjánagangur er í gangi á http://www.visir.is? Eru einhverjir kjánar farnir að skrifa fréttirnar þar? Síðan hvenær eru ártöl skrifuð með bókstöfum?
    .

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>