«

»

Molar um málfar og miðla 1179

Enn eflir Ríkisútvarpið framlag sitt til málverndar eins og því ber skylda til lögum samkvæmt. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hefur ákveðið, úrskurðað eða dæmt að orðið Evróvisjón skuli útlægt gert. Orðið er svona hálfíslenskun á ensku orði. Eurovision skal fyrirbærið heita upp á ensku! Boðskapurinn hefur verið sendur til starfsmanna. Næst kemur væntanlega frá Ríkisútvarpinu að ekki skuli lengur tala um Evrópu heldur Europe. Við búum þá í Europe ekki Evrópu. Sjá þessa frétt á visir.is http://www.visir.is/evrovisjon-sungid-sitt-sidasta/article/2013703269975. Það er ekki ofsögum sagt af metnaðarleysi stjórnenda Ríkisútvarpsins. Til hvers í ósköpunum er þessi stofnun með málfarsráðunaut? Það á ekki að vera hlutverk Ríkisútvarpsins að efla veg enskrar tungu með þjóðinni.

Málglöggur Molalesandi sendi þetta (11.04.2013): ,,Var að brosa að setningu á baksíðu Fréttablaðsins í morgun, – en hef auðvitað engan rétt til að hlæja að því, þar sem ég sló slöku við málfræðina og kommusetninguna þegar ég var í skóla.
(Með mikilli eftirsjá í dag enda áhuginn á málinu meiri núna).
Málsgreinin hefst svona:
Á meðal þeirra sem hafa lagt leið sína í breska sendiráðið á Íslandi og ritað nafn sitt í minningarbók um Margaret Thatcher sem þar liggur frammi er….
Þá datt mér í hug að mikið væri nú við haft að flytja kerlinguna hingað. En kannske hefur einhverjum dottið í hug að hún fengi að vera í friði hér á landi, meðan sumir Bretar fagna láti hennar.
Veit reyndar ekki hvort þetta er neitt rangt hjá fréttabörnunum en þarna voru engar kommur til að leiðbeina fávísum lesanda.” Rétt athugað. Molaskrifari þakkar línurnar.

Af mbl.is (10.04.2013): Nokkur hætta skapaðist á Hellisheiði um klukkan 22 í gærkvöldi þegar nokkuð af vörubrettum féllu af palli vörubifreiðar sem var á austurleið. Klúðurslega orðað. Einfaldara hefði verið:…. þegar nokkur vörubretti féllu af palli vörubifreiðar. Í fréttinni segir líka að bílstjórinn hafi athugað farminn , – áður en hann ók upp á heiðina. Auðvitað ekkert rangt við þetta en dáliítið undarlegt orðalag. Hversvegna ekki: … áður en hann lagði af stað?

Hversvegna skyldi auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins taka við auglýsingum með augljósum ritvillum og henda þeim á skjáinn? Eins og auglýsingu þar sem stendur: Nú Fer Hver Að Verða Síðastur. Þessi ritháttur er ekki til fyrirmyndar. Málfarsráðunautur lætur sjálfsagt sem honum komi þetta ekkert við frekar en annað sem varðar málfar í stofnuninni. Kannski er þetta bara blanda af kæruleysi og vondum vinnubrögðum. Margsinnis hefur komið fram að auglýsingadeildin virðist gagnrýnilaust taka við öllu sem að henni er rétt,- ef greiðsla fylgir.

Mjög athyglisverð frétt á Stöð tvö (10.04.2013) um laun fiskvinnslufólks í Færeyjum og á Íslandi. Launin eru helmingi hærri í Færeyjum. Framfærslukostnaður þar aðeins hærri sem og skattar, en afkoma fólks samt miklu betri. Skyldi þetta bera á góma í kosningabaráttunni hér á landi? Sennilega ekki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það kom fram í fréttinni að skattar og framfærslukostnaður væru nokkru hærri en hér, en engu að síður væri hlutur fiskvinnslufólks mun betri í Færeyjum en á Íslandi.

  2. Loftur Jónsson skrifar:

    Fyrst að fréttamaður Stöðvar 2 var að gera samanburð á launum á Íslandi og Færeyjum þá hefði hann alveg mátt segja frá mismun á framfærslukostnaði og sköttum í Færeyjum og Íslandi og tilgreina líka nettó laun í umslagið.
    Kveðja, L.J.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>