«

»

Molar um málfar og miðla 1181

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.04.2013) var tekið svo til orða, að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ámálgað að hætta sem formaður. Molaskrifari hefði notað annað orð. Sagt til dæmis að hann hefði gefið til kynna, gefið í skyn, látið liggja að því eða ýjað að því að hann ætlaði að hætta. Í málvitund Molaskrifara er að ámálga eitthvað að mælast til einhvers, óska eftir einhverju. Hann ámálgaði við mig hvort hann gæti fengið frí á mánudaginn.

Tilboðið sem stjórn Eirar lagði fram var hafnað , var sagt í fréttum Stöðvar tvö (12.04.2013). Hér hefði átt að segja, að tilboðinu sem stjórn Eirar lagði fram hefði verið hafnað. Tilboðinu var hafnað. Tilboðið var ekki hafnað. Svo fengum við að heyra af bréfdúfum á Selfossi, en fóður þeirra er blandað með lýsi og ólíverolíu!

Í fréttum Ríkissjónvarps (12.04.2013) var sagt frá Regnbogaframboði Jóns Bjarnasonar og sagt: Það blæs ekki byrlega fyrir Regnbogann. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: Það blæs ekki byrlega fyrir Regnboganum.

Af mbl.is (12.04.2013): Frost á Grímsstaðir á Fjöllum fór upp í 21 stig í dag. Fréttabarn á vaktinni á föstudagskvöldi. Frostið á Grímsstöðum á Fjöllum fór niður í 21 stig í dag.

Stundum finnst Molaskrifara að sumir þeirra sem skrifa Morgunblaðið gefi ekki mikið fyrir greind og þekkingu okkar sem enn lesum blaðið. Á forsíðu blaðsins(13.04.2012) stendur í undirfyrirsögn: Skattaálögur og veiðileyfagjald sliga fyrirtækin. Aftur og aftur lesum við annarsstaðar um ævintýralegan hagnað útgerðarinnar. Útgerðarmönnum græðist nú fé sem aldrei fyrr. Morgunblaðið sér hins vegar ekkert nema tap og svartnætti hvert sem litið er.
Fyrirsögn aðalleiðara Morgunblaðsins sama dag er: Lítilfjörlegt landris. Og undirfyrirsögnin er: Nýjar tölur Hagstofunnar lýsa skelfilegum viðskilnaði vinstri flokkanna. Í leiðaranum er hins vegar ekki fjallað um búið sem núverandi stjórn tók við, ríkisfjármálin á hliðinni og landið stefndi hraðbyri í þrot. Morgunblaðið þarf ekki að fara um langan veg að leita orsaka hrunsins og þeirra hamfara sem því fylgdu. Við erum , – ekki öll, jafngleymin og heimsk eins og sumir pennar Morgunblaðsins virðast halda.

Lesandi skrifar (13.04.2013): ,,Margir hlógu að Bubba þegar hann var að lýsa boxi hér um árið og talaði um mennina í hringinum…

Nú segir fréttamaður RÚV frá samninginum í tvígang í hádegisfréttum án þess að hiksta…! “ Molaskrifari þakkar sendinguna. Ríkisútvarpið þarf málfarsráðunaut.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eirný Vals skrifar:

    Úr handraðanum
    Flestir munu þekkja orðatiltækið það blæs ekki byrlega fyrir/(hjá) e-m, t.d.: Það hefur ekki blásið byrlega fyrir flokki kanslarans síðasta árið og ekki blæs byrlega fyrir/(hjá) KA-mönnum.

    Það vísar til þess er byr eða meðvind vantar og er yfirfærð merking ‘horfur eru ekki góðar’, sbr. einnig: dreyma draum ekki byrlegan. Það er notað með ýmsum forsetningum, t.d.:

    ekki blæs sem byrlegast fyrir e-u
    ekki blæs byrlega til einhvers
    ekki blæs byrlega með útgáfu blaðsins
    ekki blæs byrlega um fyrstu tilraunir til eflingar jarðræktar

    Það sem er að ofan fann ég á vef Málfræðifélagsins.

    Kveðja,
    Eirný

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Nú segir mín málkennd: Það blæs byrlega fyrir mig.

  3. Eiður skrifar:

    Mín málkennd segir: Það blæs ekki byrlega fyrir mér.

  4. Þorvaldur S skrifar:

    Hvort blæs byrlega fyrir mig eða fyrir mér? Hvort er byrinn fyrir mig eða fyrir mér?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>