«

»

Molar um málfar og miðla 1182

Molavin sendi eftirfarandi (14.04.2013):,,Allt að 100 manns hafa komið að leitinni…“ segir í Bylgjufrétt um starf björgunarsveita í dag, 14. apríl. Þar er trúlega átt við þá, sem tóku þátt í leitinni en ekki hina sem áttu þar leið um. Orðin ,,aðkoma” og ,,nálgun” eru nú tízkuorð í fréttamáli og notuð þegar sjálfsagt er að tala um að,,taka þátt“ eða ,,fást við.“ Einn flokksleiðtoginn lýsti nýverið stefnu flokks síns sem „heildstæðri nálgun“ og ég var engu nær um hvað hann átti við.

Það hefur verið nefnt hér áður, en það eru vinsamleg tilmæli til fréttamanna Ríkisútvarpsins að þeir hætti að bera heiti borgarinnar Damaskus fram upp á ensku / da´Maskus/ en fylgi íslenskri málhefð og hafi áhersluna á fyrsta atkvæði.

Konráð bendir á eftirfarandi af dv.is (14.04.2013): ,,Þetta er allt í sömu fréttinni og reyndar fleira sem klúðurslega er orðað:
,,ferðamaður var bitinn til dauða af bjór“
,,Maðurinn blæddi til dauða.“
,,Þá réðst bjór með hundaæði á tvo bónda í Hvíta-Rússlandi“
http://www.dv.is/skrytid/2013/4/14/franskur-ferdamadur-drepinn-af-bjor/
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er með ólíkindum.

Af mbl.is (14.04.2013): Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um kl. 20:30 í kvöld vegna reykjarlyktar sem fannst koma frá timburvinnslu í Súðarvogi Reykjavík. Reykjarlykt sem fannst koma? – Sem fannst koma, er ofaukið.

Hvað eru þessar ,,brakandi milljónir” sem Lottómaðurinn talar um í Ríkissjónvarpinu (13.04.2013) ?

Úr auglýsingu í Ríkisútvarpinu (14.04.2013) Almennt útboð á hlutafé … lýkur … Hér hefði átt að segja: Almennu útboði á hlutafé … lýkur …

Í texta bíóauglýsingar sem sýnd var á Stöð tvö (14.04.2013) var talað um : … fólkið sem lugu að þér. Hefði átt að vera: … fólkið sem laug að þér.

Í fréttum Stöðvar tvö (14.04.2013) var sagt frá nýju smáforriti fyrir farsíma sem tengist Íslendingabók. Þar var sagt: En notendur geta einfaldlega rekið saman ættir sínar …. Gaman væri að sjá þann rekstur! Hér ruglaði fréttamaðurinn saman sögnunum að reka og að rekja. Þetta hefði átt að vera: Notendur geta einfaldlega rakið saman ættir sínar …

Feitt læk á þetta ! Segir í fyrirsögn á leikdómi í Morgunblaðinu ((15.04.2013). Morgunblaðið lætur ekki sitt eftir liggja að efla og styrkja móðurmálið.
Fréttastofa Ríkissjónvarpsins stóð sig vel í fréttaflutningi af voðaverkunum í Boston á mánudagskvöld (15.04.2013).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er engin hefð fyrir íslenskum framburði á Connecticut, – amk ekki sem ég þekki. Það er hinsvegar algegnt að þetta sé borið rangt fram eins og Arkansas.

  2. Valur skrifar:

    Þú talar um að fylgja íslenskri málhefð við framburð á Damaskus, hvað með íslenska málhefð þegar borið er fram nafið á Connecticut ? Þú hefur nú ekki ósjaldan sett út á framburð fréttamanna á því. Því spyr ég, hvers vegna á að bera fram Damaskus uppá íslensku en Connecticut uppá ensku ?

  3. Eiður skrifar:

    Þetta er víst vandaðir og mörmiklir bílar.

  4. Kristján skrifar:

    Bílaframleiðandinn Mercedes kemur oft við sögu þegar fjallað er um kappakstur. Hann fær sömu útreið og Damaskus í framburði, Íþróttafréttamaður Stöðvar 2 sagði um helgina: mer’ Cedes. Rúv bætti um betur og sagði: mör’ Ceidís.

    Nú aka menn ekki lengur um á Benz. Þeir eru á Mörseidís.

    „Páskarnir juku veltuna í dagvörum um 8% milli ára í mars“. Fyrirsögn af Visi.is í gær (15.4.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>