«

»

Molar um málfar og miðla 1207

Á miðvikudag (15.05.2013) flaskaði fréttastofa Ríkisútvarpsins á umfjöllun um gjald fyrir strandveiðileyfi eins og vikið var í Molum (1205). Sagði að menn greiddu níu krónur og fimmtíu aura fyrir þorskígildistonnið. Átti að vera fyrir kílóið. Munurinn var þúsundfaldur. Svipað henti Mogga sama dag sem í sínum óendanlega Evrópufjandskap sagði lesendum sínum að ekki svaraði lengur kostnaði að slá mynt að verðgildi eina og tvær evrur. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/05/15/borgar_sig_ekki_ad_sla_evrumynt/
Þegar skoðuð er heimildin sem vísað er í fréttinni kemur í ljós að þarna skakkar hundraðfalt og fimmtíufalt! Það er ekki verið að tala um einnar og tveggja evru mynt, heldur eitt sent og tvö sent, einn hundraðasta úr evru og einn fimmtugasta! Sjá: http://euobserver.com/economic/120124 Í enska textanum segir reyndar : ,,The European Commission on Tuesday (14 May) tabled several scenarios for the withdrawal of the 1 and 2 euro cent coins, with the cost of printing these coins greater than their use.” – Það er auðvitað rangt hjá þeim sem hefur skrifað þennan enska texta að tala um að prenta mynt. Mynt er slegin, ekki prentuð. Seðlar eru prentaðir. – Í þessu máli var fréttaskrifari Moggans úti í móa,- Hádegismóa. En þegar um er að ræða að gera lítið úr ESB og evrunni , þá þarf kannski ekki að hafa þetta nákvæmt. Það er ekki svo naujið, eins og sagt var í gamla daga.

Molavin sendi eftirfarandi (16.05.2013): „Franskarnar sagðar slepjulegar…“ segir Vísir punktur is í dag, fimmtudag, og hefur það eftir New York Times („The French fries arrive soggy“). Frönskurnar hafa sem sagt ekki lengur verið stökkar. Fréttabörnin, sem þýða af erlendum síðum verða að læra að beygja íslenzk orð rétt. Á sömu síður er frétt um að fréttastofur 365 miðla sameinist í eina „öfluga“ fréttastofu. Vonandi verður hún öflugri í meðferð móðurmálsins en verið hefur. – Molaskrifari þakkar Molavin sendinguna.

Hún fékk krabbamein í eitt brjóstið, sagði slúðurfréttaritari Ríkisútvarpsins í Los Angeles um kunna leikkonu við hlustendur Rásar tvö á föstudagsmorgni (1q7.05.2013). Eru þá ónefndar aðrar ambögur. Dæmalaust er dómgreindarleysi dagskrárstjóra að hella þessu yfir okkur á hverjum föstudagsmorgni.

Sigurgeir skrifaði (15.05.2013): ,,Ágæti Molaskrifari. Stundum birtast skondnar og skemmtilegar fyrirsagnir í blöðum. Í Mbl. þriðjudaginn 14. maí, á forsíðu stóð:
„Ökumenn ölvaðir eftir deilur og átök“
Og ég sem hélt í fáfræði minni að menn þyrftu að hella í sig talsverðu magni af áfengi til að verða ölvaðir. Kannski maður prófi þetta.” Rétt athugað. Molaskrifari þakkar bréfið, en mælir ekki með því að þetta sér prófað!

Lesandi Benti á þessa frétt á mbl.is (15.05.2013): Í fréttinni segir meðal annars: ,,Fórnarlambið mun vera með hrjúfur í handleggnum, sem og andliti sínu og höfði.” Hann spyr: ,,Hvað skyldi vera, að vera með,,hrjúfur“ á líkamshlutum? Getur það verið skylt því, að vera hruflaður á sömu stöðum??“ Sennilega rétt til getið, en þarna hefur að líkindum fréttabarn verið á vaktinni.

Útvarpsmaðurinn Andri Freyr Viðarsson ýjar að því á visir.is (17.05.2013) að Molaskrifari ljúgi upp tilvitnunum í fólk í skrifum sínum. Hann segir: ,, Nei ég segi svona. Hann er alltaf að vitna í einhverja gæja sem ég veit ekki einu sinni hvort þeir séu til … “ ( hvort eru til , ætti þetta reyndar að vera) Eitt er að vera ekki vel máli farinn. Annað er að dylgja um að farið sé með ósannindi. Hér hefur aldrei verið vitnað í tölvubréf eða ábendingar nema slíkt hafi borist. Oftast í netpósti stöku sinnum í síma. Það er heldur slæm iðja að gera öðrum upp illar hvatir og ómerkilegtheit. – En nóg um það.

Næstu Molar á þriðjudag.
Gleðilega hvítasunnu!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Já, sjálfsagt hefur þetta verið lagað. Fréttin var, minnir mig, skrifuð á níunda tímanum að morgni. Undir kvöld var hún óbrett. Hefur verið löguð seinna.

  2. Sveinn Agnarsson skrifar:

    Mogga til varnar þá virðist þetta með evrurnar og evrusentin hafa verið lagað, þó svo reyndar sé talað um cent en ekki sent. Sem er undarlegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>