«

»

Molar um málfar og miðla 1208

Orðavinur sendi eftirfarandi (17.05.2013): ,,Sæll Eiður og þakka þér enn fyrir molana. Ég er latur við að senda þér dæmi, en nú gat ég ekki annað.
Í dag, 17. maí, er eftirfarandi fyrirsögn á visir.is:
Mikill verðmunur á smokkum og lúsasjampói
Hvernig datt ASÍ í hug að kanna verðmuninn á þessu tvennu? “ Þakka Orðavini línurnar. Ekki er nema von að spurt sé. En skemmtilegur er samanburðurinn þótt tenging sé ef til vill óljós.

Fjöldi gesta í hvalaskoðunarferðir hefur vaxið nær sleitulaust frá árinu 1995, var sagt í ágætri úttekt um hvalveiðar og hvalaskoðun í fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (17.05.2013) Molaskrifari hefði ekki notað orðið sleitulaust í þessu samhengi. Nægt hefði að segja, til dæmis. Gestum í hvalaskoðunarferðum hefur fjölgað með hverju árinu allt frá 1995, eða, – gestum í hvalaskoðunarferðum hefur farið fjölgandi allt frá 1995.

Í vangaveltum í sunnudagsblaði Moggans (19.05.2013) um ráðherraskipan í nýrri ríkisstjórn segir að Framsóknarþingmaðurinn Frosti Sigurjónsson hafi litla þingreynslu. Þetta er mjög kurteislega orðað. Framsóknarþingmaðurinn hefur enga þingreynslu. Hann hefur aldrei átt sæti á Alþingi.

Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á laugardagsmorgni (18.05.2013) var í fyrstu frétt fjallað ítarlega um vangaveltur Morgunblaðsins um skiptingu verkefna í nýrri ríkisstjórn. Í næsta fréttatíma var ekki vikið einu orði að málinu. Dálítið undarlegt , – líka þegar hugsað er til þess að líklega flutti Ríkisútvarpið sjö eða átta sinnum fyrr í vikunni sama viðtalið við söngvarann ágæta sem söng íslenska lagið í Malmö , sem Ríkisútvarpið stundum kallar Málmey. Molaskrifara var kennt fyrir löngu að fremur ætti að tala um Málmhauga en Málmey. Ekki veit hann hinsvegar hvort það er rétt. Kannski er hvort tveggja rétt.

Útvarpsþættir Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, Norðurslóð, á Rás eitt á laugardagsmorgnum um norræna vísna og þjóðlagatónlist eru einstaklega vandaðir og vel unnir, – ekki síst þýðingar hans á vísum og ljóðum sem þar eru flutt. Takk fyrir það. Þetta er sígilt efni.

Loksins, loksins ágætis kvikmynd í Ríkissjónvarpinn, Efinn , með Meryl Streep, á hvítasunnudagskvöld. Sundmyndin þar á undan átti ekki erindi í dagskrána þetta kvöld. Ýmislegt gott um hana. Hún var bara þrisvar sinnum of löng. Átta fréttir morguninn eftir í umsjá Ásrúnar Brynju Ingvarsdóttur voru hnökralausar, vel fluttar og góðu máli. – En það virðist vera hart í ári í Efstaleiti þegar á öðrum í hvítasunnu er boðið upp á ný endursýndan þátt klukkan hálf ellefu og þar á eftir endursýnda kvikmynd. Kannski eru þetta kostnaðartimburmenn eftir Evróvisjón?

Frétt í Ríkissjónvarp um þjófnað úr stórmörkuðum þar sem þjófarnir stálu kjötu úr frystiborðum kom Molaskrifara ekki á óvart. Fyrir meira en ári auglýsti Bónus innflutt nautakjöt á góðu verði. Molaskrifari fór í Bónusverslun og leitaði og leitaði og fann þetta kostakjöt hvergi. Fann loks afgreiðslumann, sem leiddi hann inn á lager baka til og benti á stóran pappakassa og sagði: ,,Þarna er kjötið. Við getum ekki haft það frammi í búð. Því er stolið jafnóðum og við setjum það í frystinn”. Á leiðinni fram gengum við fram hjá rekkum með sælgæti í lausri vigt. Gengur víst undir nafninu nammibar. Þá bætti hann við: ,,Svo stillir fólk sér hérna upp og borðar sælgæti beint úr skúffunum og þykist svo vera steinhissa þegar bent er á að borga þurfi sælgætið eins og aðrar vörur”. Það var og. Löghlýðin þjóð.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Auðvitað, Hallgrímur. Íþróttafréttir lúta ekki alltraf lögmálum skynseminnar.

  2. Hallgrímur Jóhannesson skrifar:

    Í íþtóttarfréttum áStöð 2 var sagt Í langestasæti í Spánarknatspirni Hvernig er hægt að vera í langefsta sæti ER ekki bara til efstasæti. takki fyrir molana.

  3. Jón skrifar:

    Hafa verður í huga að „málmurinn“ í Málmey eða Málmhaugum hefur nokkuð aðra merkingu i skandinavískum örnefnum, t.d. Norrmalm og Södermalm í Stokkhólmi.

    Wikipedia
    Namnet Malmö (belagt i formen Malmöghae cirka 1170) är en sammansättning av malm i betydelsen „sand“ eller „grus“ och pluralis högar av ordet hög.

  4. Eiður skrifar:

    Fróðlegt. Kærar þakkir, Paul.

  5. Paul B Hansen skrifar:

    Varðandi Málmhaugar / Málmey, fann ég eftirfarandi á síðunni. malmo-time.se./om staden malmo:
    NAMNET
    Namnet Malmö (belagt i formen Malmöghae ca år 1170) är en sammansättning av malm i betydelsen sand eller grus och ordet hög. Orten låg ursprungligen vid nuvarande Triangelområdet och avskars från Öresund av ett kuperat sand- och insjöområde. Namnet Malmö finns även på andra håll i landet med samma betydelse. Ordet malm är besläktat med mala och förekommer även som slutled, t. ex. i stadsdelsnamn som Norrmalm.
    Málmhaugar virðast skv. þessu vera rétt
    mbkk
    Paul B

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>