«

»

Molar um málfar og miðla 1209

Fjórum eða fimm sinnum var í frétt Stöðvar tvö (19.05.2013) um Vaðlaheiðargöng talað um gangnamunnann. Rétt hefði verið að tala um gangamunnann. Þarna var samræmi í vitleysunni. Eignarfallið af orðinu göng er ganga. Eignarfallið af orðinu göngur , fjárleitir, er hins vegar gangna. Þessvegna er talað um gangnamenn, þá sem fara í fjárleitir á fjöllum. Það er mikill viðvaningsbragur á því þegar þessu er ruglað saman eins og svo rækilega var gert í fréttum Stöðvar tvö að kveldi hvítasunnudags. Fleiri tóku eftir þessu því Gunnar skrifaði Molum sama kvöld: ,,Fréttamenn og þulur Stöðvar 2 töluðu hvað eftir annað um jarðgöng í eignarfalli (á hvítasunnudag) og notuðu orðið: „gangna“ en rétta beygingarmyndin er „ganga“. Orðið „göngur“ tekur aftur á móti eignarfallsmyndina „gangna“. Rétt beyging er: Jarðgöng, jarðgöng, jarðgöngum, jarðganga og jarðgöngin, jarðgöngin, jarðgöngunum, jarðganganna.” Á þetta verður aldrei of oft minnt.

Evróvisjónkynnir Ríkissjónvarpsins (18.05.2013) talaði um stóra hittið. Hann átti víst ekki við hittið sem Þórbergur talaði stundum um. Hann átti við metsölulag. Annars komst kynnirinn vel frá sínu, það sem Molaskrifari heyrði af þessum hátíðahöldum.

Prýðileg úttekt Kastljóss á Eirar-málinu á þriðjudagskvöld (21.05.2013). Takk fyrir það. Nú á eftir að leiða í ljós hverjir bera ábyrgð á því að hafa hlunnfarið eldri borgara með þeim hætti sem þarna virðist blasa við. Reksturinn virðist um tíma hafa verið glórulaust rugl.

Þátturinn Tónleikakvöld var á dagskrá Ríkissjónvarpsins (20.05.2013. Vandaður þáttur sem Molaskrifari sá á BBC og gott ef Ríkissjónvarpið hefur ekki sýnt hann áður ( þess er yfirleitt aldrei getið). Þátturinn er lokaþáttur úr tónleikaröðinni BBC Proms (2011), Last Night of the Proms, úrvalsefni. Það skrítna var hinsvegar að þátturinn Tónleikakvöld var sýndur klukkan 1045 fyrir hádegi !

Molaskrifari er fremur sérvitur eins og lesendur vita. Hann fellir sig illa við orðalag sem íþróttafréttamaður notaði í fréttum Ríkisútvarps (19.05.2013). Fréttamaðurinn sagði: Arsenal urðu á engin mistök … Molaskrifari hefði kunnað betur við orðalagið: Arsenal urðu ekki á nein mistök. Þetta hefur svo sem heyrst áður.

Á hvítasunnudagsköld (19.05.2013) var á dagsrá Ríkissjónvarpsins mynd sem kölluð var Sundið. Í prentaðri dagskrárkynningu var sagt að þetta væri mynd um raunir tveggja manna sem kepptu að því að verða fyrstir Íslendinga til að synda yfir Ermarsund. Ekkert athugavert við það. Niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins talaði hinsvegar ævinlega um að myndin fjallaði um raunir tveggja manna sem stefndu að því að verða fyrsti Íslendingurinn sem syndir yfir Ermarsund ! Skylt er að geta þess að þetta var þó lagfært í lokakynningunni, rétt áður en myndin var sýnd. Þá var niðursoðna röddin margbúin að tönnlast á sömu vitleysunni bæði þann dag og dagana áður. Kvöldið eftir skaust svo niðursoðna konuröddin með alls ótímabæra dagskrárkynningu inn í einleik Sigurðar Sigurjónssonar, Afann. Tæknileg mistök, en ekki hvarflaði að Ríkissjónvarpinu að biðjast afsökunar. Ekki frekar en fyrri daginn. Ríkissjónvarpið þarf að koma dagskrárkynningar málum í betra lag. Núverandi fyrirkomulag er ekki boðlegt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt er það, Þorvaldur.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Í þessu sambandi má þá ekki gleyma orðinu „undirgangur“. Mætti ekki nýta það í ýmsu sambandi?

  3. Eiður skrifar:

    Sæll Sigurður, – kærar þakkir.Ég birti þetta undir nafni einhvern næstu daga. Þetta er alveg rétt ábending með undirgöng, – var næstum fallinn í þessa gryfju á fésbók í dag !

  4. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Í síðasta mola þá fjallaðir þú um Vaðlaheiðargöng, eða öllu heldur beygingu orðsins „göng“, sem er þörf áminning.
    Þá datt mér í hug að senda þé vangavelltur mínar sem ég hef burðast lengi með og finnst alltaf jafn ergilegt að heyra eða sjá á prenti.
    Þær vangaveltur eru um orðið „undirgöng“, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist vera búið að festa rætur svo rækilega í íslensku máli, bæði í ræðu og riti.
    Ég spyr: Af hverju þarf að flækja málið með þeim hætti að segja undirgöng í stað þess að segja bara göng?
    Þessu fylgir nefnilega alltaf svo ankanalegt orðalag, nefnilega „undirgöng undir veginn“!
    Því ekki bara „göng undir veginn“? Göng er alveg nóg. Annað hvort eru þau undir eitthvað, í gegnum, nú eða kannski yfir.
    Ef eitthvað er til sem heitir „undirgöng“, þá ætti að sama skapi að vera til „gegnumgöng“ og þá „yfirgöng“ ef því væri að skipta.

    Það væri gaman að heyra þitt álit á þessu.

    Kv, Sigurður H. Ólafsson

    p.s. Þér er frjálst að birta þennan pistil, styttan eða óstyttan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>