Molavin skrifaði: ,,Fréttabörnin á Vísi ráða ekki við að koma einni setningu óbrenglaðri frá sér, sbr. visir.is í dag, 5.7.: ,,Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden barst bónorð á dögunum frá einum frægasta einkaspæja Rússa, Önnu Chapman.“ Fyrir nú utan það að Anna Chapman var njósnari Rússa en ekki einkaspæjari.” Molaskrifari þakkar bréfið.
Egill Þorfinnsson skrifarði Molum þetta ágæta bréf (07.07.201): ,,Sæll Eiður,
Ég rakst á þessa frétt á mbl.is í dag undir fyrirsögninni „Hjól vélarinnar rákust í varnargarð“
Farþegi um borð í vélinni sagði við CNN að svo virtist sem flugstjórinn hafi aukið hraða vélarinnar þegar hún kom inn til lendingar, eins og hann vissi að vélin myndi ekki hafa það af á flugbrautina.
Flugvélar eða aðrar vélar hafa það ekki af. Hér hefði átt að standa „eins og hann vissi að vélin myndi ekki ná inn á flugbrautina“ eða „næði ekki inn til lendingar“.
Í lokin þrír gullmolar frá þýðendum Stöðvar 2.
Í kvikmyndinni The Painted Vail sem sýnd var 20/11 2012 þá var „consulate“
( skrifstofa ræðismanns ) þýtt sem „sendiráð“.
Í myndinni The Listner frá 17/10 2012 var „tell the judge“ þýtt sem „segðu það kviðdómnum“.
Að lokum þessi snilli úr þættinum „Drop Dead Diva“ frá 17/10 2012. “ Learn how to drive“. Eftir mikil heilabrot var niðurstaða þýðanda þessi, „taktu ökuskírteinið“.Molaskrifari þakkar Agli bréfið
Í yfirliti í fréttalok í Ríkisútvarpinu að loknum sex fréttum (06.07.2013) var ,varað við vatnavexti í ám. Heldur álappalegt orðalag. Betra hefði verið að hvetja ferðafólk til sýna varkárni því víða væru ár í miklum vexti. Eða bara vara við ám í miklum vexti.
Molavin lýkur þessum Molum með stuttu bréfi (07.07.2013): „,,Tækni við hönnun og byggingu flugvéla hefur stórbatnað…“ segir í upphafi Vísisfréttar 7. júlí. Það fer betur á að tala um smíði farartækja en byggingu. Skipasmiðir eru stétt manna og reyndar var talað um kirkjusmiði líka, sem og húsasmiði. En byggingameistarar er gott og gilt starfsheiti, sem á þó ekki við um þá sem smíða skip eða flugvélar.” Þakka bréfið ,Molavin
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar