«

»

Molar um málfar og miðla 1251

Í Ríkisútvarpinu var sagt (09.07.2013) um forseta Íslands er hann tók sér umhugsunarfrest til að íhuga hvort hann ætlaði að staðfesta lög með undirskrift sinni, eða neita að skrifa undir – hann tók sér einhverja viku. hann tók sér um það bil viku frest. Óvandað orðalag sem því miður heyrist æ oftar.

 

Merkilegt metnaðarleysi beggja sjónvarpsstöðva að geta ekki borið rétt fram nafn söngkonunnar Dionne Warwick. Eftirnafn hennar er borið fram /worrikk/ ekki /warwikk/ eins og heyrðist á báðum stöðvum. Heldur skárra var þetta þó hjá Ríkissjónvarpinu. Einkennilegt að hafa ekki metnað til að gera þetta rétt.

 

Góð tilbreyting að fá alvöru viðtal um alþjóðamál. Viðtal Boga Ágústssonar við Ban Ki-moon í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (10.07.2013)

 

Gott framtak hjá Stöð tvö (09.07.2013) að fá Þorstein Pálssyn fyrrverandi forsætisráðherra til að túlka afstöðu forseta Íslands til veiðigjaldslaganna. Það stóð eiginlega ekki steinn yfir steini í rökstuðningi Ólafs Ragnars Grímssonar eftir greiningu Þorsteins Pálssonar.

 

Gunnar skrifar (10.07.2013): ,,Í fyrirsögn á DV.IS segir:

Þrjátíu daga skilorð
fyrir vörslu barnakláms

Samkvæmt fréttinni virðist hins vegar vera um að ræða tveggja ára skilorðsbindingu á 30 daga fangelsisdómi. Eru blaðabörnin ekki læs?? Eða gera þau ekki greinarmun á varðhaldi og skilorði?” Rétt er það að þarna virðist eitthvað skorta á skilning hjá þeim sem fréttina skrifar.

 

 

Ekki fellir Molaskrifari sig við það þegar þulur í Ríkisútvarpinu kallar ljóð Sigurðar Einarssonar texta eins og gert var í gær (10.07.2013) þegar kynnt var síðasta lag fyrir fréttir. Ýmsir velta sjálfsagt fyrir sér hvort slakað hafi verið á kröfum sem gerðar eru til þula í Ríkisútvarpinu þegar við hlýðum á sérkennilegar áherslur og undarlega hrynjandi þessa dagana.

 

Fróðlegt var að fylgjast með leikritinu sem sett var upp í Bessastaðastofu (09.07.2013) þegar forseti tilkynnti ákvörðun sína um að staðfesta lög um lækkun skatts á útgerðina í landinu. Ein af röksemdum forsetans var að málið hefði ekki verið mikið hitamál á Alþingi. Litlar umræður hefðu orðið við þriðju umræðu um málið. Ótrúlegt en satt! Hefði komið hik á forsetann ef stjórnarandstaðan hefði haldið uppi svo sem tveggja daga málþófi? Það þarf talsverðan kjark til að bera þetta á borð fyrir þjóðina. Auðvitað var staðan sú að forseti hlaut að undirrita lögin. Leikritið í Bessastaðastofu var bara venjulegt sjónarspil eins og svo vinsælt er þar á bæ þessi árin.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

6 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Takk, Eirný

  2. Eirný skrifar:

    Sæll Eiður,
    Mér finnst sjálfsagt að nafnið birtist.

    Kveðja,
    Eirný

  3. Eiður skrifar:

    Kærar, Egillæ. Birti þetta fyrir helgi.

  4. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Eirný. Bara bull ! – Man ekki hvort ég má birta nafnið þitt með þessu í Molum ?

  5. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Á mbl.is í dag 11/7 er fyrirsögn um 98 cm lax úr Víðidalsá.
    Bullið sem á eftir fer er með ólíkindum.

    „Lax er kominn upp um alla Víðidalsá og Fitjá en árnar eru loksins að sjatna eftir að hafa verið í smá flóði vegna mikilla rigninga í Húnaflóa“

    Væri ekki betra að hafa þetta eitthvað á þessa leið ?

    „Lax er kominn upp um alla Víðidalsá og Fitjá en loksins er að sjatna í ánum eftir smá flóð vegna mikilla rigninga við Húnaflóa“

    Kv, Egill

    E.S Það mætti gjarna gera Mola þína að skyldulesningu fyrir fréttaskrifara vefmiðla, hvort þeir lærðu eitthvað af því er annað mál.

  6. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Það er langt í frá að ég telji mig sérfræðing í íslensku máli og málnotkun.
    Hefði þó talið ólíklegt að gott sé til vinsælda að láta áheyrendur finna smjörþef. Ég hef aldrei heyrt að smjörþefur sé gefinn.

    http://www.mbl.is/monitor/frettir/2013/07/11/timberlake_gefur_smjorthefinn/

    Kveðja,
    Eirný

  1. Leikrit í Bessastaðastofu skrifar:

    […] Guðnason í pistli á heimasíðu sinni 11. júlí […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>