«

»

Molar um málfar og miðla 1252

 

Í frétt af mótmælasvelti fanga í Guantanamo Bay fangabúðunum á Kúbu var sagt í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (10.07.2013): … þar sem fljótandi fæða er þvinguð ofan í fjörutíu og fimm þeirra. Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að segja: … þar sem fljótandi fæðu er þvingað ofan í fjörutíu og fimm þeirra.

Í sama fréttatíma var sagt: … sem minnismerki um hvað ein manneskja getur áorkað í þágu mannkynsins. Hér hefði Molaskrifari sagt: .. minnismerki um hverju ein manneskja getur áorkað í þágu mannkyns. Í þessum fréttatíma var rangt farið með nafn Thorbjörns Fälldin fyrrverandi forsætisráðherra Svía. Hvar er gæðaeftirlitið með framleiðslu fréttastofunnar?

 

Í frétt á Stöð tvö (10.07.2013) um ólympíuleika í stærðfræði sagði þulur: … en þarlend yfiröld taka á sig kostnað vegna gistingu og uppihalds. Hefði átt að vera vegna gistingar og uppihalds.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (10.07.2013) spurði Þorbjörn Þórðarson fréttamaður Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðráðherra: ,, Er æskilegt að þetta vald (að senda  lög frá Alþingi  í þjóðaratkvæðagreiðslu með því að neita að undirrita þau)  sé í höndum eins manns ?” Sigmundur Davíð svaraði ekki spurningunni.  Fabúleraði bara um að forsetinn væri þjóðkjörinn, sem allir vita. Fréttamaður lét  ráðherra komast upp með að svara ekki spurningunni. Ekki gott hjá fréttahauknum.

 

Gunnar sendi eftirfarandi (11.07.2013): ,,Í fréttatíma Stöðvar 2 á miðvikudag, sagði Þorbjörn Þórðarson: „Þar er vísað til hækkun veðhlutfalla …“
Að sjálfsögðu á hann við að vísað sé til hækkunar veðhlutfalla
Í sama fréttatíma talaði Þorbjörn einnig um „þjóðatkvægreiðslu“, hvað sem það nú er.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Rakst á Afríkudrottninguna , The African Queen, með Katharine Hepurn og Humphrey Bogart á breskri kvikmyndaràs . Myndin er gimsteinn. Klassískt verk í kvikmyndasögunni. Myndir á borð við Afríkidrottninguna rata aldrei í Ríkissjónvarpið. Þeir sem kaupa inn kvikmyndir fyrir sjónvarp allra landsmanna virðast þeirrar skoðunar að engin  kvikmyndaframleiðsla sem máli skipti  hafi átt sér stað fyrr en eftir 1990.

 

Málsmeðferðartími hælisleitenda styst, segir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (11.07.2013) http://www.ruv.is/frett/malsmedferdartimi-haelisleitenda-styst Málleysa. Ófullburða setning. Starfar ekki málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Stefán, – þetta er athyglisvert. Má ég ekki birta þetta eftir helgina með nafninu þínu?

  2. Stefán Friðrik Stefánsson skrifar:

    Sæll Eiður. Tek undir með þér að kvikmyndir hjá Ríkissjónvarpinu eru jafnan afspyrnu lélegar. Eitt sinn þegar Þórhallur Gunnarsson var dagskrárstjóri ákvað ég að senda tölvupóst á dagskrárdeildina og benda á hvort þeir hefðu í hyggju að bæta ráð sitt og kaupa stórmyndir kvikmyndasögunnar og sýna fólki, þó ekki væri nema eina mynd endrum og eins, alvöru mynd með alvöru leikurum. Svarið kom seint og um síðir, þakkað fyrir ábendinguna en góðfúslega bent á að gömlu myndirnar væru nú líka dýrar í innkaupum og betra að leggja meiri áherslu á nýjar myndir í magninnkaupum. Sendi þeim síðan svarpóst og benti á að betra væri að kaupa gullmola en rusl á sama verði. Ekki var því svarað. Síðan hafa þeir varla sýnt alvöru myndir, utan þess að þeir sýndu Arabíu Lawrence einhvern tímann og kannski eina til tvær aðrar. Meira er það varla. Það er ekki mikill metnaður á dagskrárdeildinni fyrir alvöru kvikmyndum en vonandi mun Skarphéðinn Guðmundsson bæta úr þessu næsta vetur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>