«

»

Molar um málfar og miðla 1253

Egill skrifaði (11.037.2013): Á mbl.is í dag er fyrirsögn um 98 cm lax úr Víðidalsá.
Bullið sem á eftir fer er með ólíkindum.„Lax er kominn upp um alla Víðidalsá og Fitjá en árnar eru loksins að sjatna eftir að hafa verið í smá flóði vegna mikilla rigninga í Húnaflóa“Væri ekki betra að hafa þetta eitthvað á þessa leið ?

„Lax er kominn upp um alla Víðidalsá og Fitjá en loksins er að sjatna í ánum eftir smá flóð vegna mikilla rigninga við Húnaflóa“

E.S Það mætti gjarna gera Mola þína að skyldulesningu fyrir fréttaskrifara vefmiðla, hvort þeir lærðu eitthvað af því er annað mál. – Molaskrifari þakkar Agli bréfið. Þetta sem hann bendir á er með ólíkindum illa skrifað. Enginn prófarkalestur. Molaskrifara grunar að þessir pistlar séu stundum lesnir á  ritstjórnum fjölmiðla.

 

Eirný benti á þessi furðuskrif á mbl.is (11.07.23013) og segir: ,,Það er langt í frá að ég telji mig sérfræðing í íslensku máli og málnotkun.
Hefði þó talið ólíklegt að gott sé til vinsælda að láta áheyrendur finna smjörþef. Ég hef aldrei heyrt að smjörþefur sé gefinn.”  Sjá

http://www.mbl.is/monitor/frettir/2013/07/11/timberlake_gefur_smjorthefinn/

Aða tala um gefa smjörþefinn er út úr kú. Að finna smjörþefinn af einhverju er að þola óþægilegar afleiðingar einhvers, segir orðabókin.

 

Gunnar benti á þessa frétt á mbl.is (11.07.2013): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/11/odyrustu_fargjoldin_hafa_haekkad_mikid/  Hann spyr: ,,Hvar skyldu fargjöldin vera seld og hver skyldu afföllin vera?, Fyrr á tímum seldu ferðaskipuleggjendur aðeins far og tóku fargjald fyrir.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Áskell skrifaði (11.07.2013): ,,Ritstjóri bleikt.is fjallar um nekt í pistli og talar þar um að,,spranga um á rassinum“ í merkingunni kviknakinn eða allsber. Ég játa fúslega að ég hef ekki heyrt þannig tekið til orða, en minnist þess að hafa heyrt talað um að „vera á tásunum“ í merkingunni að vera berfættur. Ég er ekki viss um að íslenskt mál verði fallegra ef svona rugl nær fótfestu.” Nei, Áskell, þetta gerir málið ekki fallegra.

 

Hún er föflug fréttaþjónustan á mbl.is (11.07.2013): Bræðurnir Joe og Nick Jonas geta ekki beðið eftir því að verða frændur en eldri bróðir þeirra, Kevin, á von á barni með eiginkonu sinni. Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/07/11/kevin_jonas_a_von_a_barni/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Snjólaug . Má ég ekki beirta þetta í Molunum undir nafni?

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Anna. Má ég ekki birta þetta í Molunum undir nafni?

  3. Anna Sigríður Einarsdóttir skrifar:

    Mikið gladdi það hjarta mitt að lesa litla pistilinn „Málið“ í Mbl. miðvikudaginn 10. júlí , bls. 33, þar sem eftirfarandi stendur um orðtakið að leiða saman hesta sína: „Knattspyrnulið leiða saman hesta sína. Það segjum við af því um er að ræða viðureign, þótt hún sé sjaldan jafn-harkaleg og hestaat var. Orðtakið er ónothæft um þá sem spila tónlist saman, spila saman í liði eða vinna saman.“ Þarna vantaði bara ágæta skýringarteikningu úr bók Jóns G. Friðþjófssonar um uppruna, sögu og notkun íslenskra orðatiltækja, „Mergur málsins“ á bls. 244 þar sem lesendur geta fengið nokkra hugmynd um hvernig hestaat var iðkað fyrr á öldum. Þetta orðtak er nú notað í rangri merkingu í tíma og ótíma og virðist helst vera einblínt á hve það er flott að nota það – og vissulega er það myndrænt og sterkt – þar sem það á við.
    Illa brá mér því við lestur Mbl. í gær, laugardag 13. júlí, þar sem sagt var frá því á
    bls. 10 að …fjallkonur opni sælkerahús á Selfossi… og í fyrirsögn (sem hefur greinilega ekki verið prófarkalesin af höfundi fyrrnefnds pistils „Málsins“ ) segir: „…Mágkonurnar Elín Una Jónsdóttir og séra Sigrún Óskarsdóttir leiða saman hesta sína og sameina sérþekkingu og ástríðu á sveitalífi og matargerð í nýrri verslun sinni, Fjallkonunni….“ Þarna hefði einungis þurft að kippa hestabullinu út, alls 4 ónothæfum orðum, og afgangurinn hefði staðið fyrir sínu, merkingin öllum ljós.

    Sumarkveðja,
    Anna Sigríður Einarsdóttir

  4. Snjólaug Bragadóttir skrifar:

    Mig langar til að nefna tvær mjög lífseigar ambögur hjá fréttamönnum Ríkisútvarpsins og þær heyrðust báðar í hádegisfréttum 13/7. Þar er slysum ollið eða ullið út um allar jarðir. Dettur engum í hug að eitthvað hafi einfaldlega valdið slysinu? Hitt er að þekkja ekki muninn á vetfangi og vettvangi. Stundum getur sá ruglingur verið spaugilegur. Kveðja, Snjólaug.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>