Stefán Friðrik Stefánsson, mikill áhugamaður um kvikmyndir, skrifaði (13.07.2013) : ,,Sæll Eiður. Tek undir með þér að kvikmyndir hjá Ríkissjónvarpinu eru jafnan afspyrnu lélegar. Eitt sinn þegar Þórhallur Gunnarsson var dagskrárstjóri ákvað ég að senda tölvupóst á dagskrárdeildina og benda á hvort þeir hefðu í hyggju að bæta ráð sitt og kaupa stórmyndir kvikmyndasögunnar og sýna fólki, þó ekki væri nema eina mynd endrum og eins, alvöru mynd með alvöru leikurum. Svarið kom seint og um síðir, þakkað fyrir ábendinguna en góðfúslega bent á að gömlu myndirnar væru nú líka dýrar í innkaupum og betra að leggja meiri áherslu á nýjar myndir í magninnkaupum. Sendi þeim síðan svarpóst og benti á að betra væri að kaupa gullmola en rusl á sama verði. Ekki var því svarað. Síðan hafa þeir varla sýnt alvöru myndir, utan þess að þeir sýndu Arabíu Lawrence einhvern tímann og kannski eina til tvær aðrar. Meira er það varla. Það er ekki mikill metnaður á dagskrárdeildinni fyrir alvöru kvikmyndum en vonandi mun Skarphéðinn Guðmundsson bæta úr þessu næsta vetur.” Kærar þakkir fyrir bréfið, Stefán Friðrik. Eigum við ekki að vona að Eyjólfur hressist , eins og þar stendur. Ég er þó reyndar ekki mjög bjartsýnn, en sjáum hvað setur.
Sem Molaskrifari situr við tölvuna og hlustar á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins á laugardegi (13.07.2013) segir ágætur fréttamaður, … útilokað að mannleg mistök hafi ollið slysinu!
Til hvers starfar málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið, ef hann ekki getur leiðbeint fréttamönnum um beygingu sagnarinnar að valda? Málfar í fréttum ætti reyndar að vera á verksviði fréttastjóra.
Gunnar skrifaði (13.07.2013): ,,Á Stöð 2 er þáttur sem heitir Besta svarið. Ég sá brot af honum í kvöld, föstudagskvöld, og var lítt hrifinn af byrjuninni. Sverrir Þór, stundum kallaður Sveppi, sagði:
„Komið þið sæl, kæru áhorfendur.“ Svo bætti hann við: „400 gestir í salnum og þau eru öll að klappa.“
Mér finnst að Sverrir ætti að temja sér betra mál en hann gerir. Það eru „þeir“ áhorfendurnir, hann má ekki bulla svona, þarna á að gera kröfur um rétt málfar. Svavar heitinn Gests hóf sína útvarpsþætti iðulega á orðunum: „Komið þið sælir, hlustendur góðir“. Það er rétt mál.”. Molaskrifari þakkar bréfið.
Vikið var að því hér í Molum nýlega að æ oftar heyrðist nú talað um einhverja viku, í merkingunni um það bil viku. Í íþróttalýsingu í Ríkissjónvarpi (11.07.2013) var talað um að líklega yrði einhverjum þremur mínútum bætt við leiktímann. Hrá eftiröpun úr ensku. Molaskrifara finnst þessi nýlunda ekki til bóta.
Í Húnaþætti Ríkissjónvarps var (12.07.2013) sagt um tvo einstaklinga að þeir kæmu báðir frá Stykkishólmi. Ekki voru mennirnir að koma frá Stykkishólmi. Þeir voru frá Stykkishólmi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar