Málglöggur Molalesandi skrifaði (14.07.2013): ,,Þetta aðilatal í fjölmiðlum, eins og hjá Pressunni í dag, er hreint með ólíkindum. Hafa þeir sem skrifa svona fréttir aldrei heyrt minnst á menn?” Von er að spurt sé. Hér er þessi makalausa frétt af pressan.is:
,,Tveir aðilar voru handteknir í miðborg Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt grunaðir um líkamsárás. Aðilarnir munu hafa ráðist á dyravörð veitingastaðar eftir að hann neitaði þeim um inngöngu. Dyravörðurinn var með áverka í andliti og ætlaði að leita aðstoðar en árásaraðilarnir voru ölvaðir og vistaðir í fangageymslu þangað til hægt var að ræða við þá.
Töluverður erill var í höfuðborginni í nótt og gistu 11 aðilar fangageymslu lögreglunnar, þrír í gistingu og átta vegna mála.
Í gærkvöldi var tilkynnt um aðila sem ruddist inn á heimili í Breiðholti. Aðilinn sem var ölvaður hringdi dyrabjöllu og þegar húsráðandi opnaði útihurðina ruddist aðilinn inn og byrjaði að róta í húsmunum.Aðilinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt var að ræða við hann.”
Góður vinur Molanna benti á eftirfarandi: ,,Af vef Viðskiptablaðsins:
http://www.vb.is/frettir/93549/
,,Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka, segir að gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna ætti að vera meira í ár en í fyrra.
Líklega mun það ekki valda styrkingu krónunnar.”
Lesandi segir síðan: Margt mætti hér betur orða. Gjaldeyrisinnflæði er klúðurslegt orð, þar sem lýsing á staðreyndum er sett fram sem nafnorð eða hugtak. Þá ber að varast orðið ”valda” enda á það fremur við um hið neikvæða. Dæmi: Drukkinn maður olli skemmdum þegar hann tryllist. Frétt VB umorðuð væri ef til vill betri svona: Gengi krónunnar hefur ekki styrkst að undanförnu þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Viðskipti þeirra hér á landi eru ekki jafn mikil og vænst hafði verið.
Snjólaug skrifaði (13.07.2013): ,,Mig langar til að nefna tvær mjög lífseigar ambögur hjá fréttamönnum Ríkisútvarpsins og þær heyrðust báðar í hádegisfréttum 13/7. Þar er slysum ollið eða ullið út um allar jarðir. Dettur engum í hug að eitthvað hafi einfaldlega valdið slysinu? Hitt er að þekkja ekki muninn á vetfangi og vettvangi. Stundum getur sá ruglingur verið spaugilegur.” Kærar þakkir, Snjólaug. Molaskrifari þakkar Snjólaugu bréfið.
Til að gera hátíðina sem besta úr garði, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (13.07.2013). Til að gera hátíðina sem best úr garði, hefði hann betur sagt.
Af mbl.is (14.07.2013): Bifreið valt um klukkan 17 á Hellisheiði í gær. Að sögn sjónarvottar var ökumaður bifreiðarinnar, ung kona, á leið til suðurs þegar óhappið varð. Dálítið undarlegt orðalag. Vegurinn um heiðina liggur að mestu austur-vestur ! Gæti verið að unga konan hafi verið á leiðinni suður, það er til Reykjavíkur sem reyndar er í vesturátt! Svo er eignarfall orðsins sjónarvottur reyndar sjónarvotts, ekki sjónarvottar.
Fréttaþulur Stöðvar tvö sagði á þjóðhátíðardegi Frakka ( 14.07.2013) að boðið hefði verið upp á miklar dýrðir í París á þjóðhátíðardaginn. Það var mikið um dýrðir ín París að venju á Bastilludaginn, 14. júlí.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
16/07/2013 at 11:09 (UTC 0)
Samkvæmt íslenskri orðabók er sögnin að valda ekki neikvæð nema í sambandinu að valda einhverjum einhverju. Annars þýðir hún einfaldlega að fá einhverju áorkað.