«

»

Molar um málfar og miðla 1299

Undarleg er tímasetning á makrílfundi í Reykjavík. Fundinum lýkur á morgun, sunnudag. Á mánudag, daginn eftir, eru þingkosningar í Noregi. Það gengur engin norsk samninganefnd frá samkomulagi um makrílveiðar daginn fyrir kosningar í Noregi. Þrátt fyrir þetta sagði sjávarútvegsráðherrann í sjónvarpsfréttum í gærkveldi (06.09.2013) að nú væri kjörið tækifæri til að leysa makríldeiluna, – daginn fyrir norsku kosningarnar!!! Lítið raunsæi hjá ráðherranum.

 

Trausti skrifaði (05.09.2013): ,,Er það virkilega svo að komið sé frost í jörðu á Norðausturlandi?
Heldurðu ekki að frost hafi frekar verið á jörðu þar um slóðir?”. Að sjálfsögðu, Trausti. Þarna skolaðist heilmikið til hjá fréttaskrifaranum. Í fréttinni segir: ,,Frost var í jörðu á nokkrum stöðum á Norðausturlandi í nótt en ekki er útlit fyrir að það frysti á láglendi á næstu dögum. Ber er hægt að tína þrátt fyrir að það frysti.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/05/i_lagi_ad_tina_ber_thratt_fyrir_frost/

 

Honum var gert að sök, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (05.09.2013). Hefði betur sagt: Honum var gefið að sök.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (05.09.2013) var talað um tvær höfuðstöðvar. Líklega hefði átt að tala um tvennar höfuðstöðvar. Orðið höfuðstöðvar er ekki til í eintölu, samkvæmt vef Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks máls.

 

Gagnrýni hans á stjórnvöld í Miðausturlöndum urðu til þess … sagði fréttamaður Stöðvar tvö á miðvikudagskvöld (04.09.2013). Rétt hefði verið: Gagnrýni hans á stjórnvöld í Miðausturlöndum varð til þess að….

 

Þeim vantaði sannanir, sagði fréttamaður Ríkisútvarps í Speglinum (04.09.2013). Hvað segir málfarsráðunautur um þágufallsvæntumþykju?

 

Í hverri viku, stundum oft í viku, koma ábúðarmiklir íþróttafréttamenn á skjáinn og segja okkur í upphafi íþróttafrétta að nú séu þeir með alveg nýja frétt. Oftar en ekki er það frétt um að einhver íþróttamaður hafi flutt sig milli félaga eða einhver þjálfari verið rekinn eða ráðinn. Og þjóðinni líður auðvitað stórum betur eftir að hafa hlýtt á boðskapinn.

 

Eirný Vals skrifarði eftirandi athugasemd (06.09.2013): ,,Í Fréttablaðinu miðvikudaginn 4. september var skrifað að í lærðu máli væri notað orðið strámaður yfir það að villa um með því að búa til rétta skoðun og að rök gegn henni væru röng.

Ég hef haldið og held enn að strámaður sé bein þýðing á ensku orðunum straw man. Það hlýtur að vera til betra orðalag sem nær þessu betur.

Hvað með að nota villuljós, smjörklípu eða eitthvað annað sem þeir sem vanir eru að móta umræðu finnst eðlilegt?” Það er rétt Eirný. Þetta er hráþýðing úr ensku. Smjörklípan er komin inn í málið og villuljós hefur verið þar lengi.

 

Nýlega var að því vikið í Molum að heimsmet ættum við Íslendingar líklega í því að nota greiðslukort til að greiða fyrir varning eða þjónustu sem kostaði smáræði, 200 til 300 krónur. Annað heimsmet eigum við örugglega, en það er í skrifum minningargreina um smábörn. Í Morgunblaðinu var nýlega næstum heil opna minningargreina um sex ára gamalt barn.

 

Í fréttum norrænu stöðvanna og í breskum og bandarískum fréttum heyrir Molaskrifari ekki betur en jafnan sé talað um að fundur hinna svonefndu G 20 ríkja fari fram í Sánkti Pétursborg. Í Ríkisútvarpinu er hinsvegar nær alltaf talað um Pétursborg. Í fréttum klukkan níu á föstudagsmorgni var ýmist talað um Pétursborg eða Sánkti Pétursborg. Á ekki fréttastjóri eða vaktstjóri að sjá um að samræmi sé í orðanotkun í fréttum? Eða málfarsráðunautur? Hvað veldur? Molaskrifari hélt að borgin héti Sánkti Pétursborg. Það getur vel verið að málvenja sé að tala um Pétursborg, ekki Sánkti Pétursborg. Molaskrifari veit það hreinlega ekki.

 

Í fréttum útvarps í gærkveldi (06.09.2013) var helmingi lengri frétt um úrslit fótboltaleiks fyrr um kvöldið en um skiptalok í tugmilljarðagjaldþroti Sparisjóðs Keflavíkur. Gjaldþrotið kostar skattgreiðendur tæplega tuttugu milljarða króna. Athyglisvert.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Gunnar. Auðvitað verður að gæta þess að orðaröð valdi ekki merkingarbrenglun, eins og er í dæmunum sem þú nefnir. K kv ESG

  2. Gunnar Bergmann. skrifar:

    Hef tekið eftir rangri orðaröð í fréttum:

    T.d.“ Maðurinn bar við minnisleysi hjá lögreglunni.“ (Var þá lögreglan minnislaus?)

    „Fundur verður haldinn til að mótmæla manndrápunum á Ingólfstorgi.“ (Átt var við manndráp í Sýrlandi. Vonandi hafa ekki margir verið drepnir á Ingólfstorgi!)

    „Fundur verður haldin um einelti á Alþingi í dag.“ (Jú örugglega einelti í gangi þar.)

  3. Eiður skrifar:

    Rétt er það að orðaröð er oft smekksatriði. Þar get ég sjálfsagt verið sérvitur, – eins og víðar!

  4. Linda skrifar:

    Þú fyrirgefur, Eiður, en stundum finnst mér orðaröðun þín svolítið skrýtin, eins og til dæmis hér:

    „Nýlega var að því vikið í Molum að heimsmet ættum við Íslendingar líklega í því að nota greiðslukort…“

    Svona hefði ég skrifað: Nýlega var að því vikið í Molum að Íslendingar ættu líklega heimsmet í því að nota greiðslukort til að greiða fyrir…

    Ef til vill bara smekksatriði, veit ekki 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>