«

»

Molar um málfar og miðla 1300

Málglöggur maður skrifaði Molum (06.09.2013): ,,Hér er merkileg villa, sem ég hélt að enginn lenti í:

Skelfilegt slys

Pilturinn sem lést hefur birt myndbönd af þyrluflugi sínu á YouTube.

Hér má sjá hann með einni af fjarstýrðu þyrlunum sínum. ætti að vera: „má sjá hann hér með eina af þyrlunum sínum

Það er mikill munur á því hvort „vera með …“ tekur þolfall eða þágufall:

Hún sendi manninn með hundinn til dýralæknis

Hún sendi manninn með hundinum til dýralæknis.

Ég hef aldrei vitað til að unglingar skildu ekki muninn á þessu.” Molaskrifari þakkar réttmæta ábendingu. Molaskrifari hefur heldur aldrei vitað til þess að menn geri eitthvað eftir andlátið eins og hér er sagt. ,,Pilturinn sem lést hefur birt myndbönd ….”

 

Í fréttum Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (08.09.2013) var fjallað um að tillaga Bandaríkjaforseta þyrfti einnig að hljóta samþykki öldungadeildar þingsins. Ekki var fréttin vel orðuð.

Um það skrifaði gamalreyndur blaðamaður, Bjarni Sigtryggsson, á fésbók:,, Þá þarf tillagan einnig að hljóta kjörgengi í öldungadeildinni“ sagði í Stöðvar-2 frétt rétt í þessu. Verður tillagan þá í framboði? Fréttabörnin á Stöð-2 fara æði frjálslega með hugtök, sem þau hafa heyrt en þekkja hvorki né skilja´”. Undarleg villa.” – Sá sem fréttina skrifaði skilur greinilega ekki orðið kjörgengi.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.09.2013) sagði landbúnaðarráðherrann að stofnstærð makríls væri stærri en … Ráðherrann mun hafa átt við að makrílstofninn væri stærri en …

 

Í dálknum Frá degi til dags í Fréttablaðinu (06.09.2013) er vísað til fótabúnaðar Gísla á Uppsölum. Þar segir: ,,Hann var í einum gúmmískó og einum Adidas strigaskó við sláttu”. Gísli var ekki við sláttu. Hann var að slá. Hann var við slátt.

 

Gunnar skrifaði (06.09.2013) „En þetta hefur „innspírerað“ nafnagiftir, er þaggi, í fjölskyldunni?“ sagði Margrét Erla Maack í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 4. sept. sl. Hvað er að innblæstri eða áhrifum? Mér finnst lágmark að dagskrárgerðarfólk Kastljóss tali sæmilega góða íslensku við viðmælendur sína. – Satt segirðu , Gunnar og það gera reyndar langflestir í Kastljósi. Þetta er undantekning. Hvað skyldi málfarsráðunautur segja?

 

Molaskrifari benti nýlega á vandaða bandarísk heimildamynd um einelti, Bully, og taldi að hún ætti erindi við íslenska áhorfendur. Honum hefur nú verið bent á að Ríkissjónvarpið sýndi myndina 2. janúar sl. og er því hér með til haga haldið.

 

Tvær skemmtilegar ,,fréttir” á Stöð tvö á föstudagskvöld (06.09.2013). Önnur var um styttu eftir Ásmund Jónsson við sundlaug í Öndverðarnesi í Grímsnesi, hin um giftingarhring sem fannst í sandi á Spánarströndu, en hefur nú ratað til rétts eiganda í Svíþjóð. Þetta voru kannski ekki ,,harðar fréttir” eins og fréttamenn segja stundum, en góðar fréttir. Allavega skemmtilegra en að horfa á þær, fremur en forsætisráðherra bryðja beikon í Ríkisjónvarpinu.

 

Það hefði verið góð tilbreyting ef Ríkissjónvarpið hefði treyst sér til að sýna okkur beint frá hinum stórkostlegu Last Night of the Proms BBC tónleikum á laugardagskvöldið (07.09.2013) eins og NRK 2 sjónvarpið gerði og BBC að sjálfsögðu. Sennilega hefur Ríkissjónvarpið ekki talið sig hafa ráð á þessu. Sportið og Evróvisjón kosta svo mikið.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

10 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Allir hafa heyrt um sáttumann. Aldei heyrt fyrr að vera við sláttu. Vera við slátt.

  2. Stígur Helgason skrifar:

    Heill og sæll Eiður,

    Í Íslenskri orðabók eru þrjár skýringar á orðinu ‘sláttu’. Sú fyrsta er svohljóðandi: „(hey)sláttur, það að slá“

    Kannski er orðalagið sem þú bendir á úr dálkinum Frá degi til dags ekki hefðbundið, en samkvæmt þessu er það þó tæpast rangt.

    Kv. Stígur Helgason

  3. Eiður skrifar:

    Gott. – Takk

  4. Eiður skrifar:

    Ekkert. Þín tillaga er betri. Takk. ESG

  5. Eirný skrifar:

    Það má með sanni segja, einu sinni byrjuð, getur ekki hætt.

    Hvað finnst þér um fyrirsögnina á vef Morgunblaðsins?
    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/07/mjolk_og_skyr_ur_vestfirskum_kum/

    Ég er alveg með það á hreinu að vestfirskar kýr mjólka en að þær skila skyri er ofar mínum skilningi en sýnir vel hve lítið erindi norska kúakynið á hingað.

  6. Eirný skrifar:

    Sæll Eiður,
    Mér finnst skrítið að makríll fundi en það er líkast til reyndin, kannski er hann þá í torfum sem hægt er að kasta á.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/08/jakvaett_andrumsloft_a_makrilfundi/

    Nú spyr ég, sem aldrei hef unnið á fréttastofu, hvað er neikvætt við að hafa fyrirsögnina -jákvætt andrúmsloft á fundi um makríl (veiðar á makríl) –

  7. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Valgeir.

  8. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Evrópusöngvakeppni finnst mér, satt að segja, ósköp leiðinlegt orð – eins og fyrirbærið sjálft. Geta nú ekki málhagir menn fundið upp eitthvert stutt og og þjált orð yfir þetta uppátæki. Hugsunin á bak við orðið mætti til dæmis vera gól eða spól eða ról! Þetta er nú bara svona uppástunga, – vel meint!

  9. Eiður skrifar:

    Athugasemd móttekin.

  10. Egill skrifar:

    Enn og aftur skrifarðu “EVRÓVISJÓN” þrátt fyrir ábendingu um daginn um hálfþýtt orð. Einungis fyrri hluti orðsins er þýddur. Í hvaða orðabók finnurðu annars orðið VISJÓN? Hvernig væri að nota frekar EVRÓPUSÖNGVAKEPPNI?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>