«

»

Molar um málfar og miðla 1301

 

Á laugardagsmorgni (7.09.2013)var sagt í fréttum Ríkisútvarpsins: Hann átti ekki annarra úrkosti. Hér hefur blandast saman, að líkindum, – hann átti ekki annarra kosta völ og hann átti ekki annars úrkosti.

 

Tannlæknir auglýsir á netinu: Tíu ára ábyrgð á tannplöntum. Hverskonar plöntur skyldu það vera?

 

Munurinn á umræðum flokksformanna í Noregi og flokksformanna á Íslandi rétt fyrir kosningar var meðal annars sá að formenn norsku flokkanna voru ekki með sífelld frammígrip, heldur réttu fram hendina og báðu þannig um orðið. Hér gjammaði stundum hver upp í annan í sjónvarpsþáttum flokksbroddanna..

 

Molaskrifari heyrði ágætar umræður í lok Vikulokanna á Rás eitt á laugardag (07.09.2013), – eftir að hafa hlustað á gjörsamlega óskiljanlegt svar SDG forsætisráðherra við spurningu um hvernig ætti að fjármagna svokallaðan leiðréttingasjóð. Í Vikulokunum kom afar skýrt fram, ekki síst hjá Magnúsi Halldórssyni , Kjarnablaðamanni, hversu arfavitlaus aðgerð flatur niðurskurður lána vegna svokallaðs,,forsendubrests” er.

 

Á laugardagskvöld (07.09.2013) talaði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps um hraðasta mann heims (e. fastest man in the world). Þetta hefur heyrst áður á þessum bæ. Hann átti við sprettharðasta mann heims, fótfráasta mann heims, þann sem er fljótastur allra að hlaupa.

 

Það er óneitanlega svolítið sérkennilegt að einkarekin sjónvarpsstöð, Stöð tvö, skuli leggja öllu meiri áherslu á innlenda dagskrárgerð en ríkisrekna báknið í Efstaleiti. Sömuleiðis sérkennilegt að þurfa að treysta á einkarekna sjónvarpsstöð, Stöð tvö, til að horfa á fréttir á föstum fréttatíma.

 

Það hefur orðið sprengja á þessu ári, sagði maður sem rætt var við í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (08.09.2013). Hann átti við að orðið hefði mjög mikil aukning á notkun tiltekinnar þjónustu. Æ algengara er að heyra ruglað saman orðunum sprengja og sprenging. Sprenging verður þegar sprengja springur eða er sprengd. Þetta á ekki að vera neitt flókið.

 

Í gærkveldi (09.09.2013) byrjuðu seinni fréttir Ríkissjónvarps 3-4 mínútum of seint. Engin skýring. Stundvísi í útsendingum útvarpsins er til mikillar fyrirmyndar. Útsendingarstjórar útvarpsins ættu að kenna starfsbræðrum sínum hjá á klukku, eins og hér hefur svo sem verið áður nefnt.

Glæsilegt kosningasjónvarp hjá Norðmönnum í gærkveldi. Umræður flokksformannanna  í þinghúsinu, þegar  úrslit lágu fyrir,  voru með öðru yfirbragði en við eigum að venjast. Formennirnir voru  yfirvegaðir og málefnalegir. –  Ekki var minnst einu orði á úrslit norsku kosninganna í  átta fréttum Ríkisútvarpsins í morgun, – (10.09.2013) daginn eftir kosningarnar. Það voru undarleg vinnubrögð. Mjög undarleg.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>