Martin Ágústsson skrifaði (09.09.2013):
,,Ég hef margoft verið á leiðinni að skrifa til þín vegna þeirrar villu sem menn gera ansi oft þegar þeir segja eða skrifa,,helmingi meira“ þegar hið réttara væri að segja ,,tvöfalt meira“ en aldrei látið verða af því.
Í gær var ég hins vegar að horfa á Náttúrulífsþátt á RÚV (sem má reyndar hrósa fyrir, oft ansi skemmtilegir þættir) þegar viðmælandi í þættinum talar um stærðarhlutföll dýra og segir: ,,twice as much“ og var það þá þýtt sem ,,helmingi meira“. Þarna er villan svo vel grafin í haus þýðanda að þó svo að hann hefði getað notað beina þýðingu og fengið þá ,,tvöfalt meira“ að þá gerir hann villuna samt. Þetta kom fyrir nokkrum sinnum í þættinum.
Ég veit ekki alveg af hverju þessi villa fer svona í taugarnar á mér en ég veit hins vegar að hún gerir það og því tek ég eftir þessu mjög oft og skil ég ekki hvernig þessi villa hefur orðið svo algeng því þetta tvennt ,,helmingur“ og ,,tvöfalt“ er á engan hátt sami hluturinn.” Molaskrifari þakkar Martin þessa ágætu ábendingu.
Lesandi skrifaði (09.09.2013): ,,Sæll Eiður.
Í skopmynd Halldórs sem birtist í Fréttablaðinu í morgun (9.9.13) segir slátrarinn við lambið: „Nei lömb utan trúfélaga fá ekki að fara aftur út í haga og lifa „happily ever after“. Hér hefði íslenska dugað fyllilega.” Það er hverju orði sannnara. Hér er ensku slett á lesendur, – að óþörfu.
Sigurður Bogi Sævarsson , blaðamaður Morgunblaðsins, hefur fundið nýja leið til að tengja blaðið við lesendur á landsbyggðinni. Hann er naskur að finna áhugavert efni, þeytist um landið og afköstin með ólíkindum. Myndar og skrifar, – alveg prýðilegan texta. Ekki veitir Morgunblaðinu af að vera með bitastætt efni eins og kemur frá Sigurði Boga til að vega upp á móti rýminu sem fer í vörn fyrir kvótagreifa og endurritun sögunnar. Hann er eiginlega svar Moggans við Landa Ríkissjónvarpsins og Um land allt hjá Stöð tvö.
Afspyrnuvond fyrirsögn á íþróttasíðu Fréttablaðsins (09.09.2012): Tími fyrir tvö góð úrslit í röð. Orðið úrslit er fleirtöluorð. Þessvegna ætti að tala um tvenn úrslit, ekki tvö úrslit. Svo velkist Molaskrifari í vafa um hvort verið sé að tala um að tími sé kominn til einhvers? Þá er líklega um að ræða áhrif úr ensku. Molaskrifari er þeirrar skoðunar að sá sem þessa fyrirsögn samdi sé ekki mjög vel að sér um móðurmálið og notkun þess.
Sá ágæti fréttamaður Stöðvar tvö, Þorbjörn Þórðarson, þarf að æfa sig svolítið á orðinu saksóknari, ná því að bera það skýrt fram, en ekki tala um /sashhónara/ eins og hann ítrekað gerði í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (09.09.2013).
Í fréttum Ríkisútvarps (09.09.2013) var talað um eitthvað sem gerðist í þarsíðustu viku. Molaskrifari er óvanur þessu orðalagi. Er þetta algengt og almennt notað?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eirný skrifar:
11/09/2013 at 14:00 (UTC 0)
Ég skil þarsíðustu viku sem vikuna á undan liðinni viku. Mér finnst það ágætt því ég hef engin önnur orð til að lýsa því sem gerðist fyrir tveimur vikum síðan.
Aftur á móti átta ég mig illa á hvaða nótt er átt við þegar skrifað er og sagt gærnótt. Mér finnst fréttamenn nota það um síðastliðna nótt. Ég hefði haldið að gærnótt væri undanfari gærdagsins og því ætti að nota orðið um fyrrinótt.
Haukur Kristinsson skrifar:
11/09/2013 at 12:53 (UTC 0)
Ummæli Martins Ágústssonar benda til þess að hann hafi ekki lesið grein Helga Hálfdanarsonar, „Fimm sinnum fimm eru tuttugu“, sem finna má á bls. 69 í bókinni „Skynsamleg Orð og Skætingur“. Eiður virðist einnig ekki kannst við greinina, en Skynsamleg Orð og Skætingur sem og Molduxi, ætti að vera skyldulesning fyrir alla sem fjalla um íslenska tungu.
Helgi skrifar m.a. eftirfarandi:
„Samkvæmt íslenzkri málvenju hefur talan tuttugu verið sögð helmingi hærri en talan tíu, og tíu helmingi lægri en tuttugu. Þessi málvenja hefur víst aldrei valdið misskilningi; sá Íslendingur hefur verið vandfundinn, sem efaðist um, að helmingi hærri tala en tíu væri tuttugu, þangað til fyrir skömmu, að einhverjum reikningsmönnum kom í hug, að þetta mundi ekki vera rökrétt, hærri talan væri fimmtán, fyrst helmingur af tíu eru fimm. Og til þess að ráða hér bót á, var fariö að vinna gegn málvenjunni, og sú orðbeiting boðuð í staðinn, að tuttugu væri tveim (ef ekki tvisvar) sinnum hærri tala en tíu.“
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
11/09/2013 at 10:47 (UTC 0)
Að segja „helmingi meira“ frekar en tvöfalt meira orkar kannski tvímælis en er í samræmi við málhefð allt frá frá því til forna, eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á:
http://xn--mlfri-xqa2b6e.is/grein.php?id=78
Gunnar Þorsteinsson skrifar:
11/09/2013 at 10:08 (UTC 0)
Má vitna í Jón G. Friðjónsson hér? „Í Íslenskri orðabók segir að ‘helmingi stærri [merki] ýmist tvöfalt eða hálfu stærri, 100% (50%) stærri’ og ‘helmingi minni [merki] 50% minni’. Í orðabók Blöndals segir hins vegar að helmingi merki 100% þegar um aukningu er að ræða en 50% þegar vísað er til smækkunar (‘naar der er Tale om Forögelse eller Formindskelse betyder helmingi henholdsvis 100% og 50%’).
Umsjónarmaður hefur vanist því að helmingi stærra, meira, dýrara … merki ‘tvöfalt, tvisvar sinnum stærra, meira, dýrara …, 100%’ en helmingi minna, léttara, dýrara … merki ‘50% minna, léttara, dýrara …’, t.d.: Pabbi minn er helmingi sterkari en pabbi þinn ‘tvöfalt sterkari, 100% sterkari’ og húsið mitt er helmingi minna en þitt ‘50% minna’. Dæmi úr fornu máli sýna ótvírætt að hálfu/helmingi fleiri merkir ‘tvöfalt fleiri, 100%’. Umsjónarmaður er að vísu ekki töluglöggur maður en honum sýnist þó að þetta megi til sanns vegar færa, allt veltur á því í hvora áttina viðmiðunin gengur (upp eða niður) ef svo má að orði komast. Sem dæmi má taka: Jón á 200 krónur en Páll á helmingi meira (‘400 krónur’) og Jón á 200 krónur en Páll á helmingi minna (‘100 krónur’).
Sá sem á helmingi minna en annar hlýtur að eiga ‘50% minna’, ef helmingi minna gæti merkt ‘100% minna’ ætti hann ekkert. Í nýlegri könnun var talið koma fram að konur hefðu helmingi lægri laun en karlar (100 ‘stig’) og karlar helmingi hærri laun en konur (200 ‘stig’) og samræmist slík framsetning því sem að framan greindi. Umsjónarmanni er ljóst að málnotkun kann að vera nokkuð á reiki hvað merkingu slíkra orðasambanda varðar en finnst slíkur margbreytileiki eitt af því sem gerir íslenska tungu skemmtilega.“