«

»

Molar um málfar og miðla 1303

Eirný Vals skrifaði (10.09.2013): ,,Mér finnst skrítið að makríll fundi en það er líkast til reyndin, kannski er hann þá í torfum sem hægt er að kasta á.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/08/jakvaett_andrumsloft_a_makrilfundi/  Nú spyr ég, sem aldrei hef unnið á fréttastofu, hvað er neikvætt við að hafa fyrirsögnina -jákvætt andrúmsloft á fundi um makríl (veiðar á makríl) ?“-

Það er auðvitað ekkert neikvætt við það, – betra. – Og Eirný heldur áfram: ,,Það má með sanni segja, einu sinni byrjuð, getur ekki hætt. Hvað finnst þér um fyrirsögnina á vef Morgunblaðsins?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/07/mjolk_og_skyr_ur_vestfirskum_kum/ Ég er alveg með það á hreinu að vestfirskar kýr mjólka en að þær skila skyri er ofar mínum skilningi en sýnir vel hve lítið erindi norska kúakynið á hingað.” – Þetta er auðvitað rétt athugað hjá Eirnýju. En Molaskrifara finnst gott og gilt að tala um makrílfund, reyndar! Kærar þakkir.

Gunnar skrifaði (10.09.2013): „Þetta ágæta fólk, Hjalti og Lára Sóley, eru stödd fyrir norðan …“ sagði Þórður Helgi á Rás 2 þriðjudagsmorguninn 10. sept. Einnig: „Þú ert ekki að þekkja marga …“
Fólkið er statt fyrir norðan og þú þekkir ekki marga, væri rétt. Svona málfar er ekki boðlegt í útvarpi allra landsmanna.
Þá fannst mér sérkennilegt að heyra í hádegisfréttum: „… hjá Samskipum og Eimskipi …“ Hef alltaf talið bæði orðin vera fleirtöluorð. – Molaskrifari er Gunnari sammála og þakkar honum bréfið.

 

Þessi málaflutningur virðist ekki hrífa, var sagt í átta fréttum Ríkisútvarps (10.09.2013). Enginn yfirlestur. Þess sér æði oft stað, – því miður. Hvar er gæðaeftirlit með framleiðslu fréttastofunnar? Hvar eru málfarsráðunautur og fréttastjóri?

Leikmannalega, sagði knattspyrnuþjálfari í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.09.2013). Íþróttafréttamenn segja gjarnan varnarlega og sóknarlega og ekki er það svo sem til sérstakar fyrirmyndar. Ekki er  ástæða til að halda nýyrðinu leikmannalega til haga.

Glöggur lesandi sendi eftirfarandi (10.09.2013): ,,Merkileg frétt – sitt á hvað er talað um bíl og ökutæki. Engin slys urðu á fólki, og hér færi betur á að segja einfaldlega, engan sakaði. Þá segir að ökutækið hafi bakkað. Bílar gera ekki neitt sjálfvirkt. Frekar hefði átt að segja að bílnum hafi verið bakkað. Sjá: http://www.visir.is/bakkadi-yfir-bensindaelu/article/2013130919957 Molaskrifari þakkar sendinguna.

Hápunktur innlendrar dagskrárgerðar Ríkissjónvarpsins kristallast í Hraðfréttum og Gunnari á Völlum. Þarf ekki að senda þessa þætti til útlanda, þar sem þeir gætu unnið allskonar verðlaun, -Óskara og allt hvað eina sem Molaskrifari kann ekki einni að nefna?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    Merkilegt hversu ómerkileg sjónvarpsdagskrá RÚV getur verið. Hver ákveður að t.d. Gunnar á Völlum sé boðlegt sjónvarpsefni á „prime time“. Ekki setja þeir markið hátt.

    Varnarlega og sóknarlega eru auðvitað bein áhrif frá ensku (defensively og offensively).
    Einfaldari framsetning virðist vera á undanhaldi. Sjaldnar segja menn: Vörnin var léleg, eða: sóknarleikurinn var góður.

    …..svona leikmannalega séð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>