«

»

Molar um málfar og miðla 1363

Í fréttum Ríkisútvarps og sjónvarps frá Úkraínu hefur að undanförnu ýmist verið talað um Kiev eða Kænugarð, sem er hið forna íslenska heiti borgarinnar.(Borgarinnar, þar sem tveir skuggalegir KGB menn, í síðum frökkum með stóra hatta með slútandi börðum eltu þann sem þetta ritar hvert fótmál 1977 er hann brá sér í stutta kvöldgöngu frá hótelinu þar sem hann gisti!) Þarna þarf vað vera samræmi. Fréttastjóri eða vaktstjóri eiga að sjá til þess að samræmis sé gætt um orðanotkun þessum efnum.

 

Í fréttum Ríkisútvarps í hádeginu í gær (02.12.2013) var greint frá því að tónlistardeild Rásar eitt hefði hlotið sérstök verðlaun eða viðurkenningu, Lítinn fugl, fyrir stuðning við íslenskra tónlist á árinu. Það er vel við hæfi nokkrum dögum eftir að deildin hefur nánast verið lögð niður, bestu þáttunum burtkastað og stjórnendur þeirra reknir. Fram kom að verðlaunaveitingin hefði verið afráðin áður en deildin var skorin niður við trog og fólk rekið.

 

Í veðurfregnum Stöðvar tvö finnst mér gæta vaxandi tilhneigingar til að flytja áherslu af fyrsta atkvæði inn í orð. Þar er til dæmis nokkuð oft (til dæmis 30.11.2013) talað um suður´STRÖNDINA. Þetta ættu yfirmenn að benda veðurfréttamönnum á.

 

Orðbragð, þáttur þeirra Brynju, Braga Valdimars og fleiri á sunnudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu er ásamt Útúrdúr besta nýja innlenda efnið sem þar hefur sést í vetur. Þátturinn er frumlegur, vel gerður tæknilega, fræðandi og fræðilegur og umfram allt skemmtilegur og upplýsandi með hæfilegum skammti af gálgahúmor. Svo er mesti bögubósi stofnunarinnar látinn vera með. Það er líka húmor.

 

Egill skrifaði í athugasemdadálk Molanna á fullveldisdaginn fyrsta desember: ,,Sæll Eiður,
Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um brottrekið fólk frá Ríkisútvarpinu og líka vitnað í það sjálft þar sem það segist hafa verið rekið. Mér finnst það ótrúlega algengt að almenningur og bersýnilega fjölmiðlamenn líka þekkja ekki muninn á því að vera rekinn eða vera sagt upp. Þessu fólki var sagt upp það var EKKI rekið. Menn eru reknir úr starfi brjóti þeir eitthvað af sér og yfirleitt gert að hætta samstundis og eru sviptir launum samtímis. Þetta á ekki við um starfsmenn Ríkisútvarpsins. Menn ættu því að hætta þessu „ég var rekinn/þeir voru reknir“ því það er einfaldlega rangt, fólkinu var sagt upp.
Kv, Egill “ Þarna má nú kannski hafa mismunandi skoðanir á merkingu og ef til vill er þarna stundum bita munur fremur en fjár. Þetta fólk hafði ekkert til saka unnið, ekkert gert af sér, – sumt unnið stofnuninni samviskusamlega í áratugi. En rétt er að því var sagt upp störfum svo var það rekið út úr Útvarpshúsinu, fékk varla að hirða föggur sínar , persónulega muni, hvað þá ljúka hálfköruðum þáttum eða binda enda tölvusamskipti. Mér sýnist að fólkinu hafi verið sagt upp og sagt að hypja sig, – sumu eftir að hafa starfað í áratugi fyrir Ríkisútvarpið , – löngu áður en það varð svo kallað ohf . Hið lögundna heiti þess, Ríkisútvarpið,sem nú heyrist nær aldrei. Aðeins árrisulustu hlustendum mun stöku sinum hafa að hafa tekist að heyra heitið Ríkisútvarp notað, og þá rétt fyrir almenna fótaferð, –  á Rás eitt.

 

Sunnudagsþætttir Gísla Marteins hafa enn ekki fundið fjölina sína í Ríkissjónvarpinu. Þátturinn á fullveldisdaginn ( 01.12.2013) var þó með besta móti. Kannski mætti hafa það til hliðsjónar í framtíðinni.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Nei, en þetta verður eitthvað stopult um sinn. K kv Eiður

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Hættur að blogga ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>