Helgi Haraldsson, prófessor emererítus í Osló skrifaði Molum nýlega: ,,Enn segjast menn hafa farið í gegnum hurðir!
http://www.dv.is/frettir/2013/12/7/johannes-nu-getid-thid-sagt-ad-mandela-hafi-opnad-fyrir-ykkur-hurdina/
“ Þegar þeir Ingi, Jóhannes og Róbert yfirgáfu herbergið opnaði Mandela hurðina fyrir þá félagana og sagði hlæjandi: „Nú getið þið sagt að Mandela hafi opnað fyrir ykkur hurðina.“
Ég trúi því ekki að Mandela hafi eyðilegt hurðina!
Vonandi hefur hann bara opnað dyrnar.”
Annar dyggur Molalesandi skrifaði um sama: ,,Ef Mandela hefði haft fyrir vana að eyðileggja hurðir er spurning hvort
hann hefði ekki sloppið fyrr úr fangelsi! En allar dyr þessa heims og
annara standa honum opnar nú orðið.” Molaskrifari þakkar bréfin sem ekki eru skrifuð að tilefnislausu.
Frétt Stöðvar tvö af óhugnanlegum atburðum í Hraunbæ (02.12.2013) var um það bili helmingi og löng, næstum fimmtán mínútur. Fréttastofan velti sér upp úr málinu. Umfjöllun í frétttum Ríkissjónvarps um sama atburð var allt önnur ,vönduð og eðlileg.
Egill skrifaði athugasemd við Molana (02.12.2013) : ,,Sæll Eiður,
Ég kveikti á fréttum Bylgjunnar kl. 17.00 í gær og heyrði fréttamann lesa þetta : ,, …. en þar fundust átta látnir til viðbótar sem myrtir höfðu verið á sama hátt“.
Ég er enn að reyna að finna út úr því hvernig hægt er að myrða látið fólk. Hálfvitahátturinn er stundum með ólíkindum.” Ekki mjög skýrt, hugsað. Satt er það.
Gunnar er ekki ánægður með nýjan þul í Ríkisútvarpinu. Hann skrifaði (02.12.2013): ,,Nú er kominn „nýr“ þulur á Ríkisútvarpið, sem þarf að vanda sig betur. Það er Helgi Pétursson, sem les upp hverja amböguna á fætur annarri. T.d.: Hamborgarahryggur [HAMBORGARHRYGGUR], 20 prósent afsláttur [20 PRÓSENTA afsláttur] o.fl.” . Molaskrifari þakkar bréfið.
Gunnar skrifaði (visir.is 0412.2013):,, Slasaðist í árekstri við Litlu kaffistofuna”
Skyldi Litla kaffistofan hafa verið á hraðferð??
Meginmálið skýrir raunar, að áreksturinn hafi ekki verið milli hins slasaða og Litlu kaffistofunnar, heldur milli tveggja bifreiða.
Lesandi spyr (11.12.2013): er það skoðun RÚV og mbl.is að konur séu ekki menn?
Tengill á frétt: L�st eftir konu og manni – http://www.ruv.is/frett/lyst-eftir-konu-og-manni. Þessu er hér með komið til skila
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þórður St. Guðmundsson skrifar:
13/12/2013 at 09:02 (UTC 0)
Þórður Guðmundsson
08.12.2013 19:01
Þórður Guðmundsson
Sæll Eiður, skoðaðu þetta: Þeir sem semja prófverkefni fyrir unglingana okkar verða að vanda sig sérstaklega vel, það er ekki gott að tala eingöngu um að krökkunum mistakist það þarf að skoða málfarið á prófverkefnunum líka. Hér er fyrsta spurningin á stærðfræðihluta PISA sem talsvert hefur verið í umræðunni að undanförnu. krossaspurningar.)
1. Spurning 1 af 10
1. Helena er nýbúin að eignast nýtt hjól. Það er með hraðamæli sem er festur á stýrið. Á hraðamælinum má sjá fjarlægðina sem hún hjólar og meðalhraðann í hverri ferð.
Í einni ferð hjólaði Helena 4 km á fyrstu 10 mínútunum og síðan 2 km næstu 5 mínúturnar. Hver af eftirfarandi staðhæfingum er rétt?
o Meðalhraði Helenu var meiri fyrstu 10 mínúturnar en næstu 5 mínúturnar.
o Meðalhraði Helenu var hinn sami fyrstu 10 mínúturnar og næstu 5 mínúturnar
o Meðalhraði Helenu var minni fyrstu 10 mínúturnar en næstu 5 mínúturnar
o Það er ómögulegt að segja nokkuð um meðalhraða Helenu út frá gefnum upplýsingum
Áfram »
Er nema von krökkunum mistakist þegar íslenskan er ekki á hærra plani en hér sést. Venjan hér í Kópavoginum er alla vega sú að þessir mælar sýni vegalengdir frekar en fjarlægðir. Ég t.d. hjóla ákveðna vegalengd og sú vegalengd er einfaldlega fjarlægðin mill upphafs ferðarinnar og til loka og ef ég hjóla í hring er vegalengdin jöfn ummáli hrinsins en fjarlægðinn frá upphafspunkti að lokapunkti er engin!!
Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:
12/12/2013 at 21:01 (UTC 0)
Ekki kann ég við að ganga í gegnum hurð! En hitt skyldu menn athuga, að „hurð“ í merkingunni „dyr“ er gamalt og alþekkt í málinu. „Hurð var opin og gekk hún til stofu“, stendur í sjálfri Laxdælu. (Þetta var þegar Bróka-Auður var að hefna sín á bónda sínum fyrir að hafa hoppað upp í til hennar Guðrúnar Ósvífursdóttur.)