«

»

Molar um málfar og miðla 1368

 

Fyrrum starfsbróðir úr fréttamennskunni skrifaði ( (18.12.2013): ,,Á heimleið í gær var ég – eins og gjarnan – með útvarpið í gangi og hlustaði með öðru eyra. Verið var að lesa auglýsingar. Ein hljómaði svona: „Flott föt fyrir flotta krakka frá Spáni og Ítalíu“. Því miður missti ég af hvaða verslun það var, sem fer um svo langan veg til þess að ná eyrum foreldra flottra krakka frá Spáni og Ítalíu. Útrásarvíkingarnir farnir að láta á sér kræla á nýjum slóðum. Heiti næsta auglýsanda fór hins vegar ekki fram hjá mér. Það var verslunin „Betra bak“. Hún vildi ná til þeirra „sem ætla að versla sér inniskó fyrir jólin“. Um leið og ég steig út úr bílnum til þess „að versla mér“ brauð og mjólk spurði ég sjálfan mig að því hvort auglýsingadeild Ríkisútvarpsins taki athugasemdalaust við öllum ambögum sem leitað er með til hennar – auk enskuslettanna, sem gjarna fá að fljóta með. Má þá ekki vænta þess að hún fari líka að taka að sér að auglýsa á spænsku og ítölsku til þess að ná megi betur eyrum foreldra flottra barna þar um slóðir. Allt er þetta til sannindamerkis um það sem Vigdís Hauksdóttir segir. Ríkisútvarpið er undir illum áhrifum frá Evrópusambandinu. Slettir evrópsku. Misþyrmir íslensku. Mál er að linni.”.  Réttt er það. Mál er að linni. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins tekur athugasemdalaust  við öllum ambögum og sletttum svo lengi sem  greitt er fyrir birtinguna Þar ræður málfarslegt metnaðarleysi ríkjum. Það er seinni tíma fyrirbæri þar á bæ.

 

  Málgglöggur Molalesandi vitnar í eftirfarandi af fréttasíðu Ríkisútvarpsins (19.12.2013): ,,Sáttameðferð skilar fleiri loknum málum

21:28 Mikill meirihluti foreldra sem leitað hafa til sýslumannsins í Reykjavík við sambúðarslit hefur nýtt sér sáttameðferð áður en tekin er ákvörðun um forræði barna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu.”. Hann spyr, og ekki er nema von að spurt sé: ,,Skyldi þetta eiga að merkja: Sáttameðferð leysir fleiri mál — eða: Fleiri mál leyst með sáttameðferð?

 

Að morgni þriðjudags (17.11.2013) Gerði Molaskrifari svolitla tilraun til að hlusta á Virka morgna á Rás tvö. En slökkti, þegar  umsjónarmaðurinn Andri Freyr Viðarsson tilkynnti að hann væri kominn með ,,heddsetttið á hausinn”. Er það skilyrði fyrir því að fá að annast þennan þátt að slettta og vera heldur illa máli farinn?

 

Fyrr um morguninn hlustaði Molaskrifari svolitla stund á morgunþátt Rásar rvö þar sem rætt var við stúlku sem titluð var tískublaðakona við Fréttablaðið. Hún sagði okkur að núna væri ,,veiðimannalúkkið inn”. Molaskrifari fór yfir á Rás eitt þegar konan var búin að segja  þrisvar eða fjórum sinnum : .Ég vill…”

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í Morgunglugga Rásar eitt (20.12.2013) væri sagt að texti sálmsins Hærra minn Guð til þín væri eftir Matthías Jochumson. Matthías þýddi þennan fallega lofsöng. Sarah Flower Adams orti. Vandvirkni á að vera kjörorð Ríkisútvarpsins okkar þar sem margter reyndar afar vel gert.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Egill. K kv og gleðileg jól , Eiður

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég tók eftir hópferðabifreið í umferðinni í dag sem var með auglýsingu frá einhverri fasteignasölu og á henni stóð “ Frítt söluverðmat“. Eignir og hlutir eru verðmetnir en ég hef aldrei heyrt talað um verðmat á sölu enda er þetta bara rugl.. Oft eru auglýsingastofur ekkert betri en fjölmiðlar, það fer reyndar versnandi með ári hverju það sem auglýsingastofur senda frá sér.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>