Þórður Guðmundsson skrifaði fyrir nokkru í athugasemdadálk Molanna. ; ,,Sæll Eiður, skoðaðu þetta: Þeir sem semja prófverkefni fyrir unglingana okkar verða að vanda sig sérstaklega vel, það er ekki gott að tala eingöngu um að krökkunum mistakist það þarf að skoða málfarið á prófverkefnunum líka. Hér er fyrsta spurningin á stærðfræðihluta PISA sem talsvert hefur verið í umræðunni að undanförnu. krossaspurningar.)
1. Spurning 1 af 10
1. Helena er nýbúin að eignast nýtt hjól. Það er með hraðamæli sem er festur á stýrið. Á hraðamælinum má sjá fjarlægðina sem hún hjólar og meðalhraðann í hverri ferð.
Í einni ferð hjólaði Helena 4 km á fyrstu 10 mínútunum og síðan 2 km næstu 5 mínúturnar. Hver af eftirfarandi staðhæfingum er rétt?
o Meðalhraði Helenu var meiri fyrstu 10 mínúturnar en næstu 5 mínúturnar.
o Meðalhraði Helenu var hinn sami fyrstu 10 mínúturnar og næstu 5 mínúturnar
o Meðalhraði Helenu var minni fyrstu 10 mínúturnar en næstu 5 mínúturnar
o Það er ómögulegt að segja nokkuð um meðalhraða Helenu út frá gefnum upplýsingum
Áfram »
Er nema von krökkunum mistakist þegar íslenskan er ekki á hærra plani en hér sést. Venjan hér í Kópavoginum er alla vega sú að þessir mælar sýni vegalengdir frekar en fjarlægðir. Ég t.d. hjóla ákveðna vegalengd og sú vegalengd er einfaldlega fjarlægðin mill upphafs ferðarinnar og til loka og ef ég hjóla í hring er vegalengdin jöfn ummáli hrinsins en fjarlægðin frá upphafspunkti að lokapunkti er engin!!” Molaskrifari þakkar Þórði þetta ágæta bréf.
Gunnar skrifaði (16.12.2013) : ,,Í annars ágætu viðtali Sigmars Guðmundssonar við tvær kvennanna í Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, afhjúpaði fáfræði fjölmiðlafólks á málefninu. Marg oft var tönnlast á því að þær væru frá Mæðrastyrksnefnd, en þær áréttuðu tvisvar að þær væru frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.
Staðreyndin er sú að það eru starfandi mæðrastyrksnefndir víða um land, m.a. öflug starfsemi í Kópavogi. Það er nefnilega ekkert sem heitir „Mæðrastyrksnefnd“. Það er eins og að bjóða velkominn stjórnmálamann úr stjórnmálaflokknum eða íþróttamann úr íþróttafélaginu. Reynið nú að muna þetta! – Þakka bréfið, Gunnar.
Í morgunþætti RÁSAR eitt (17.1.22013) var píanóleikarinn Philip Glass sem leika mun í Hörpu eftir áramótin ýmist kallaður Philip Stark eða Philip Glass. Engin leiðrétting. Að minnsta kosti ekki svo Molaskrifari heyrði. Það er sjálfsögð kurteisi að leiðrétta það þegar rangt er farið með mannanöfn í útvarpi.
Í fréttum Ríkissjónvarps (16.12.2013) var takað um að lenda (kjara)samningi. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Hversvegna ekki bara að tala um að ná samningum?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar