«

»

Molar um málfar og miðla 1372

Molavin skrifaði (26.12.2013):,, Það hefur verið sagt frá því í fréttum, meðal annars hjá Ríkisútvarpi og sjónvarpi, að æðsti ráðamaður Norður-Kóreu hafi látið taka Jang Sung-taek, frænda sinn af lífi. Sá var kvæntur Kim Kyong-hui, en hún var systir Kim Jong-Il, fyrrum leiðtoga Norður-Kóreu, og því mágur hans. Það tíðkast í ensku að nota orðið uncle, um fjölskyldutengsl af þessu tagi, en er það svo í íslenzku máli? Við tölum um mægðir, en ekki skyldleika. Nema ef talað er við börn, en það útskýrir ef til vill þessi fréttaskrif.” Kærar þakkir, Molavin. Réttmæt athugasemd.

 

Í frétttum um hátíðarnar var sagt frá því að rúður hefðu  brotnað í þremur smárútum sem fluttu ferðamenn og höfðu lagt í hann, eins og sagt er, gegn ráðum staðkunnugs björgunarsveitrarmanns sem vel þekkti til veðurs á þessu svæði. Leiðsögumaður ferðamannanna sagði í fréttum Ríkisútvarps að fólkið hefði aldrei verið í neinni hættu. Hversvegna þurfti þá að flytja ferðafólkið á öruggan stað með sérstökum bryndreka sem fara þurfti margar ferðir til að koma öllum í öruggt skjól? Hvernig gat leiðsögumaðurinn sagt okkur blákalt í frétttum að fólkinu hefði ekki verið nein hætta búin?  Þarna varð alvarlegur dómgreindarbrestur. Það var engu líkara en hér væri gengið út frá því að björgunarsveitir væru til taks á jólum til að bjarga málum, ef illa færi. Það var ekki þessu fyrirtæki að þakka að þarna fór ekki verr en raun bar vitni. Það var ótrúlegt að hlusta á þetta. Ferðaþjónustan á ekki að gera út á glannaskap.

 

Í fyrirsögn á mbl.is (24.12.2013) sagði: Minnast fæðingu Jesú í Betlehem. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/12/24/minnast_faedingu_jesu_i_betlehem/

Hér hefði átt að standa: Minnast fæðingar Jesús í Betlehem. Sjá einnig: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Jes%C3%BAs

 

Af mbl.is (26.12.2013): ,,Enginn starfsmanna þýska flugfélagsins Lufthansa á Charles de Gaulle flugvellinum í París mætti til vinnu í morgun og báru allir við veikindi.” Starfsmenn báru ekki við veikindi. Þeir báru við veikindum. Sögðust vera veikir. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/12/26/starfsmenn_maettu_ekki_til_vinnu/

Á mbl.is þennan sama dag var talað um að átta apar hefði verið sleppt. Átti að vera að átta öpum hefði verið sleppt.

 

Vindurinn verður búinn að lægja , sagði nýr veðurfræðingur í veðurfréttum Ríkissjónvarps (26.12.2013). Til hvers er málfarfarsráðunautur starfandi við Ríkisútvarpið ef ekki til að leiðbeina nýjum starfsmönnum, sem ferst starfið annars vel úr hendi?

 

Norrænu sjónvarpsstöðvarnar sýndu allar ( að því Molaskrifara sýndist) miðnæturmessu Frans páfa á aðfangadagskvöld. Það hefði verið tilbreyting ef Ríkissjónvarpið hefði gefið okkur kost á að fylgjast með þessari helgistund. Færeyska sjónvarpið sýndi einnig frá messunni í Róm. Hér fengum við einhverskonar hálfpoppaðan tónlistarþátt frá Hvítasunnusöfnuðinum. Þar trónaði forsætisráðherrann, SDG, á fremsta bekk. Eru einhver sérstök tengsl milli Framsóknarflokksins og Fíladelfíu/Hvítasunnusafnaðarins?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir,Þorgils , birti þetta við tækifæri. K kv ESG

  2. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sæll Eiður!

    Hér í þessum pistli bendir þú á stuttu fyrirsögn sem vart gerist jólalegri:

    Í fyrirsögn á mbl.is (24.12.2013) sagði: Minnast fæðingu Jesú í Betlehem. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/12/24/minnast_faedingu_jesu_i_betlehem/

    Hér hefði átt að standa: Minnast fæðingar Jesús í Betlehem. Sjá einnig: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Jes%C3%BAs

    Staðreyndin er sú að villu er að finna í báðum þessum fyrirsögnum: Þarna átti auðvitað að standa:

    Minnast fæðingar Jesú í Betlehem. Nafn Jesú tekur ekki s nema í nefnifalli. Eitt sinn var stuðst við latnesku beyginguna og haft Jesúm í þolfalli. Mig minnir að dr. Sigurbjörn Einarsson biskup hafi lagt þann sið af, að minnsta kosti í ritmáli, þó svo að enn eimi af slíku í tali og er það að mínu mati í lagi. Jesús er líka eitt fárra nafna (kannski það eina?) sem heldur ávarpsfallinu Jesú (til dæmis sálmurinn Ó Jesú bróðir besti), þótt sumir sleppi oft hinu hátíðlega og háfleyga ávarpsfalli… En fæðingar Jesú er minnst um jólin. Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár. Kær kveðja, Þorgils Hlynur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>