Áhafnarmeðlimir koma mjög við sögu í þessari frétt af mbl.is (27.12.2013). http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/12/27/bjorgunarskipid_situr_sjalft_fast/ Hið ágæta orð skipverji virðist gleymt og grafið.
Á mbl.is þennan sama dag var fyrirsögn: Vegirnir opna hugsanlega á morgun. Ekki kom fram hvað vegirnir mundu opna. Undarleg meinloka sem erfitt virðist að uppræta. Vegirnir verða hugsanlega opnaðir á morgun, hefði til dæmis mátt segja.
Fyrirtækið TRS býður fólki í netauglýsingu að versla tölvubúnað (27.12.2013). Fyrirtækið er að bjóða fólki að kaupa tölvubúnað.
Í morgunþætti Rásar eitt, þætti Jónatans Garðarssonar , var að morgni þriðja jóladags (27.12.2013) afar fróðlegt veðurspjall við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing um veðrið á árinu sem senn er nú liðið. Einari er einkar lagið að koma hlutunum skýrt og skilmerkilega frá sér.
Gaman var að endurnýja kynnin (nokkuð slitrótt, að vísu) við upphaflegu kvikmyndina um Dagdrauma Walters Mittys, sem Ríkissjónvarpið sýndi um miðjan dag á laugardag (28.12.2013) Þar fór gamanleikarinn Danny Kaye á kostum en Molaskrifari hafði mikið dálæti á honum á sínum tíma. Draumarnir höfðu elst misvel, en Molaskrifari skemmti sér ágætlega.
Molaskrifara var svolítið brugðið er hann las grein í Fréttablaðinu eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og yfirmann lögreglunnar í landinu í Fréttablaðinu á aðfangadegi jóla. Greinina kallar ráðherrann: Ríkisstjórn heimilanna. Ráðherrann skrifaði: ,,Allt starf ríkisstjórnarinnar miðar að því að bæta hag heimilanna og auka öryggi almennings.” Molaskrifara varð hugsað til þess er lögreglan (Hvergi kom fram að þar væri gengið fram gegn vilja ráðherrans) meiddi fólk, beitti mikilli harðneskju, handtók fólk, sumt á áttræðisaldri og lét það dúsa klukkutímum saman á lögreglustöðinni. Einkum fyrir það að vera á röngum stað á röngum tíma og vilja vernda fallegt eldhraun. Þetta var 21. október 2013. Næstum 60 lögreglumenn voru kvaddir á vettvang, vegum lokað og lögreglumennirnir handtóku 25 borgara , – suma oftar en einu sinni. Viðbrögð lögreglunnar í Gálgahrauni voru miklu harðari en í búsáhaldabyltingunni svokölluðu. En ráðherrann segir að þarna hafi ríkisstjórnin verið að auka öryggi almennings. http://www.visir.is/rikisstjorn-heimilanna/article/2013712249977
Ja hérna. Mér var ekki bara brugðið. Mér varð hálfóglatt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar