«

»

Molar um málfar og miðla 1374

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (29.12.2013) var sagt að íþróttamaður ársins hefði verið valinn á hófi íþróttafréttamanna  (endurtekið í kvöldfréttum).  Þarna hefði Molaskrifari notað aðra forsetningu og sagt að íþróttamaður ársins hefði verið kjörinn í hófi íþróttafréttamanna.

 

Molavin skrifaði (30.12.2013): ,,Við hlið hvers fréttabarns situr að jafnaði fyrirtaks blaðamannsefni, sem kann vel með málið að fara. Það er uppörvandi að sjá í Fréttablaðinu (28.12. – í annars dapurlegri frétt um uppsagnir 30 sjómanna á Sauðárkróki) talað um að menn hafi misst skiprúmið. Vegur upp á móti skrifum um ,,áhafnarmeðlimi“ sem oft sjást. Það þarf trúlega ekki mikið til að bæta blaðamennskuna og sú ábyrgð hvilir á yfirmönnum.”  Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er rétt. Nýliðar í fréttamennsku, eins og í öðrum störfum, þurfa leiðsögn.

 

Molalesandi skrifaði (30.12.2013): ,,Nýjustu fréttir af málkennd í fjölmiðlum. Í dag, 30. des: ,,Þjóðkirkjan safnaði 15 milljónum króna til tækjakaups“ (visir.is) ,,Lögreglan varð var við reykmettaðan bíl” (dv.is)   Ja, hérna. Ekki batnar  það svona undir lok ársins.  Molaskrifari þakkar ábendingarnar.

 

Þorgils Hlynur skrifaði í athugasemdadálk Molanna (29.12.2013):  ,, Í fyrirsögn á mbl.is (24.12.2013) sagði: Minnast fæðingu Jesú í Betlehem. Sjá:http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/12/24/minnast_faedingu_jesu_i_betlehem/

Hér hefði átt að standa: Minnast fæðingar Jesús í Betlehem. Sjá einnig:http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Jes%C3%BAs

Staðreyndin er sú að villu er að finna í báðum þessum fyrirsögnum: Þarna átti auðvitað að standa:

Minnast fæðingar Jesú í Betlehem. Nafn Jesú tekur ekki s nema í nefnifalli. Eitt sinn var stuðst við latnesku beyginguna og haft Jesúm í þolfalli. Mig minnir að dr. Sigurbjörn Einarsson biskup hafi lagt þann sið af, að minnsta kosti í ritmáli, þó svo að enn eimi af slíku í tali og er það að mínu mati í lagi. Jesús er líka eitt fárra nafna (kannski það eina?) sem heldur ávarpsfallinu Jesú (til dæmis sálmurinn Ó Jesú bróðir besti), þótt sumir sleppi oft hinu hátíðlega og háfleyga ávarpsfalli… En fæðingar Jesú er minnst um jólin. Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár. –  Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er rétt hjá þér, Þorvaldur.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    En nú var íþróttamaðurinn ekki kjörinn í hófinu heldur var tilnefning hans opinberuð þar. Kjörið fór fram dagana á undan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>