Kunnur stjórnmálamaður skrifaði á fésbókarsíðu sína (31.12.2013): … ef okkur ber gæfa til að skipta gæðum okkar ágæta lands sem jafnast. Hann hefði betur sagt: … ef við berum gæfu til að skipta gæðum okkar ágæta lands sem jafnast. Ótrúlega algengt er að sjá rangt farið með þetta orðtak að bera gæfu til ….
Í hádegisfréttum Ríkissjónvarps sagði fréttamaður (31.12.2013) að ófært væri norður á Djúpuvík. Norður á Djúpavík, átti hann við.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni lagði mikil kannabislykt frá íbúðinni, – var skrifað á mbl.is á gamlársdag (31.12.2013). Hér hefði átt að segja: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni lagði mikla kannabislykt frá íbúðinni.
Klessti á og stakk af, skrifar fréttabarn í fyrirsögn á dv.is (01.01.2013). http://www.dv.is/frettir/2014/1/1/klessti-og-stakk-af/ Fréttin var um að ekið hefði verið utan í bifreið og ökumaðurinn stungið af.
Molalesandi skrifaði vegna fréttar í Ríkisútvarpinu (01.01.2014): ,,Sæll Eiður og gleðilegt ár.
Þakka þér fyrir að benda á margt sem betur mætti fara í ræðu og riti.
Mig langar að benda þér á orðalag fréttar á ruv.is:
,,Tugum rúta hefur verið keyrt út úr Reykjavík í kvöld“.
Hvað finnst þér?” Mér finnst þetta illa orðað og ekki vera vott um mikla tilfinningu fyrir móðurmálinu. Þakka ábendinguna.
Valur vísaði til fréttar á visir.is (3012.2013) og segir: ,,Þessi frétt er úr Vísi í dag. Virðist blaðamanni alveg sjálfsagt að
móðga hina látnu og ættingja hennar með því að segja að konan hafi
verið Ókvænt … í staðin fyrir að segja bara að hún hefði verið ógift
eða bara einhleyp. Hef tekið eftir þessu áður. Sjá http://www.visir.is/konan-sem-lenti-i-umferdarslysi-a-hellisheidi-er-latin/article/2013131239901
Gísli Baldur Marteinsson sagði í þætti sínum á gamlársdag að nú skyldum við hafa gaman saman. Þessi enska hráþýðing er orðin ótrúlega algeng hjá fjölmiðlafólki (e. have fun together) og étur þar hver eftir öðrum. Ýmislegt var bitastætt í þættinum sem þó var alltof langur. Í upphafi var eins og Agli Helgasyni væri hálfpartinn ofaukið í þriggja manna samtali. Margt var til í því sem þeir sögðu Kári Stefánsson og Þorsteinn Pálsson. Fyrrverandi menntamálaráðherra talaði um stjórnmálaflokka sem sífellt töluðu menninguna niður, – án þess útskýra það frekar. Hún nefndi hinsvegar ekki að núverandi ríkisstjórn hefur gengið lengra en flestar aðrar ríkisstjórnir í því að skera niður framlög til menningarmála. Ráðherrann fyrrverandi nefndi líka móðurmálið. Hún ætlar á næstunni að stjórna þætti á Stöð tvö sem á að heita Ísland got talent! Stöð tvö sýnir móðurmálinu sérstaka fyrirlitningu með þessu þáttarheiti eins og hér hefur áður verið nefnt.
…segir ummæli forsætisráðherra hljóma sem öfugmæli og tvískinnungur …, var sagt í fréttayfirliti í hádegisfréttum Ríkisútvarps á nýársdag (01.01.2014). Hefði átt að vera: … hljóma sem öfugmæli og tvískinnung, – ekki tvískinnungur.
Nýtt þjónustuver Sjúkratrygginga Íslands opnaði 2. janúar, auglýstu Sjúkratryggingarnar í Fréttatímanum (03.-05.01.2014). Þjónustuverið opnaði hvorki eitt né neitt. Það var opnað. Þetta var rétt orðað í útvarpsauglýsingu (03.01.2014) en þá var sagt að þjónustuverið hefði verið opnað 2. janúar.
Stundum er engu líkara en stjórnendur Ríkissjónvarpsins haldi að engir nema börn horfi á sjónvarp fyrrihluta dags um helgar og á frídögum. Sjálfsagt er að gera vel við börnin, en sjónvarpið á ekki að vera barnfóstra svo foreldrarnir geti sofið aðeins lengur. Ekki haga hinar norrænu stöðvarnar dagskrá sinni svona.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
03/01/2014 at 22:38 (UTC 0)
Ég hef vanist því að segja á Húsavík, á Hólmavík,, en í Bolungarvík og í Ólafsvík. Málvenja heimamanna á að ráða.
Gísli Sigurgeirsson skrifar:
03/01/2014 at 20:38 (UTC 0)
Gleðilegt árið. Ég er nú reyndar búinn að gleyma forsetningareglum Árna Bö varðandi staðarnöfn. Mig minnir samt, að hann hafi innrætt okkur fréttamönnum að segja í Vík, en ekki á. Hann undirstrikaði þó, að málvenja á hverjum stað ætti að ráða.
Eiður skrifar:
03/01/2014 at 12:49 (UTC 0)
Auðvitað. Þakka þér leiðréttinguna.
Bergur skrifar:
03/01/2014 at 11:15 (UTC 0)
„Gísli Baldur Marteinsson sagði í þætti sínum á gamlársdag“
Hver skyldi það nú vera? Áttu við Gísla Martein Baldurson ?