«

»

Molar um málfar og miðla 1378

Molavin skrifaði (02.01.2014): ,,Svo segir í fyrirsögn á dv.is (2.1.14): ,,Vann 90 milljónir í Víkingalottói. Vinningshafinn kemur frá Finnlandi“ Samkvæmt orðanna hljóðan mætti ætla að hinn heppni væri væntanlegur hingað til lands frá Finnlandi. Af öðrum netmiðlum má skilja að hann sé finnskur. Það er engu líkara en að það sé að verða venja að tala um að menn ,,komi frá“ tilteknu landi þegar átt við að þeir séu þarlendir. Eða „komi frá Akureyri“ ef um Akureyring er að ræða.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Það er rétt. Þetta er að verða heldur hvimleið venja í mörgum miðlum.

Hér er svolítil viðbót frá sama: ,,Útsendingar rofna eftir að mastur féll“ segir í fyrirsögn á ruv.is (02.01.2014). Ætli útsendingin hafi ekki rofnað ÞEGAR mastrið féll, en hafi legið niðri EFTIR að það féll.” Rétt ábending, Molavin.

 

Ekki var hægt að skilja fréttir gærdagsins (03.01.2014) á annan veg en að Mjólkursamsamsalan hefði pungað út 50 milljónum króna úr sínum digru sjóðum til að koma  í veg fyrir samkeppni í smjörsölu. Um þetta sagði minn gamli vinur Guðni Ágústsson framkvæmdastjóri samtaka mjólkurvinnslustöðva í hádegisfrétttum í gær: ,,Niðurstaðan var bara sú að í þessu einstaka tilfelli, sem blasti við, til að tryggja íslenskt smjör og íslenskan rjóma fyrir jólin, þá þurfti að flytja inn þetta írska smjör, – þá var það bara niðurstaðan að mjólkuriðnaðurinn tæki þetta á sig” (50 milljónirnar, væntanlega). Nú er Molaskrifari mát. Hann skilur þetta ekki. Þurfti að flytja inn írskt smjör til að tryggja íslenskt smjör og íslenskan rjóma?  Merkilegt kerfi sem þessi þjóð þarf að búa við.

 

Prýðileg fréttaskýring hjá Boga Ágústssyni í morgunþætti Rásar tvö á fimmtudagsmorgni (02.01.2014). Hann fjallaði um áramótaræður og ávörp nokkurra þjóðhöfðingja og þjóðarleiðtoga. Molaskrifari viðurkennir að hann hlustar of sjaldan á þessa ágætu pistla hans Boga.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (01.01.2014) var talað um fyrsta barnið til að fæðast í Hreiðrinu (á Landspítalanum. Betra hefði verið, – fyrsta barnið sem fæddist í Hreiðrinu.

 

Það er alveg rétt sem Eiríkur Jónsson bendir á í bloggi sínu Sagt er … http://eirikurjonsson.is/sagt-er-1429/ að það er fáránlegt þegar annars ágætur fréttamaður lætur frétt snúast um sig , fækkar fötum og þykist fara í sjósund. eins og fréttamaður Ríkissjónvarps gerði að kveldi nýársdags. Dómgreindarleysi hjá fréttastofu.

 

Sumir fréttamenn eiga erfitt með að gera greinarmun á því að kjósa og að greiða atkvæði um. Í Speglinum (02.01.2014) var talað um að kjósa um samning. Rétt hefði verið að tala að greiða atkvæði um samning.

 

Skúli skrifaði (03.01.2014): ,,Í fréttum Bylgjunnar í hádeginu í gær og í kvöldfréttum Stöðvar 2, var sagt frá því að flugeldi hefði sprungið í höndunum á manni á Selfossi. Ég hef reyndar heyrt þetta orð notað víðar sem ekki er til að því er ég best veit. Það virðist vera útbreiddur misskilningur í fjölmiðlum að flugeldur sé flugeldi og bæti við sig karlkyns greini. Hér er flugeldinn um flugeldinn o.s.frv.”. Þakka bréfið, Skúli. Molaskrifari heyrði þetta líka. Aldeilis furðulegt. Kannski halda fréttabörn að flugeldi sé eitthvað sem tengist fiskeldi? Gunnar nefnir þetta og fleira í bréfi til Molanna sama dag: ,,Hödd Vilhjálmsdóttir sagði frá því í fréttum Stöðvar 2 að „flugeldi“ hefði sprungið … Það var að sjálfsögðu „flugeldur“.
Þá baðst Thelma Tómasson afsökunar á því að texta hefði vantað við frétt á ensku: „Textavélin eitthvað að stríða okkur.“ En ekki datt henni til hugar að fara örfáum orðum um hvað útlendingurinn hafði sagt, eins og Bogi Ágústsson gerði um daginn, þegar textavél Sjónvarpsins bilaði.
Þá er einkennilegt að bæði Jón Júlíus Karlsson og Þorbjörn Þórðarson, á sömu stöð, segja alltaf: „þrátíu“ í stað „þrjátíu“. Hvers vegna að sleppa j-hljóðinu?”  Molaskrifari þakkar bréfið. Bogi og fleiri fréttaþulir Ríkissjónvarps endursegja nær alltaf ummæli erlendra viðmælenda ef texti ekki birtist á skjánum. Hrós fyrir það. Slík endursögn eða þýðing virðist flestum fréttaþulum Stöðvar tvö um megn.

 

Á föstudagsmorgni (03.01.2014) voru bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið með myndir af verslanagluggum þar sem voru auglýsingar um útsölur. Á forsíðu Fréttablaðsins stóð: Útsala , en á forsíðu Morgunblaðsins var allt upp á ensku: Sale, sale.   Slík skilti blasa víða við, til dæmis í Kringlunni, – því miður.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Já, vægast sagt! K kv esg

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Enn ein fréttin um Michael Schumacher í mbl.is í dag.

    „Schumacher hafi verið á miklum hraða og rekist harkalega í þrjú grjót áður en hann staðnæmdist.“
    „Rekist harkalega í þrjú grjót“!
    Þetta finnst mér skringilega orðað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>