«

»

Molar um málfar og miðla 1379

Í átta fréttum Ríkisútvarps (03.01.2014) var sagt frá óveðri, stórhríð og mikilli ofankomu á austurströnd Bandaríkjanna. Sagði fréttamaður að búist væri við að hiti færi niður í 13 gráður á Celsius í New York. Það þætti nú bærilegur janúarhiti í þeirri borg! Hér hefur eitthvað skolast til. Bandaríkjamenn nota ekki Celsius kvarðann eins og við heldur tala um hita og kulda í Fahrenheit gráðum. 13 gráður á Fahrenheit jafngilda 10-11 stiga frosti á Celsius. Kannski var verið að tala um 13 gráðu frost á Celsíus, en ekki var þetta skýrt orðað. Í fréttinni var einnig talað um óveðrið sem storminn, – hrátt úr ensku. Hér hefði þurft meiri vandvirkni. Í kvöldfréttum (05.01.2013) var talað um brunagadd,- gott að heyra orð sem sjaldan heyrast í fréttum. Prik fyrir það.

 

Af dv.is (03.01.2014) „Ég held að ég sé miklu meira normal en hann,“ segir Guðmundur Andri um faðir sinn Thor Vilhjálmsson rithöfund og hlær létt. “. Hér fer það saman hjá dv.is að litlar kröfur virðast gerðar til þeirra sem skrifa í þann miðil og enginn les yfir áður en birt er.

 

Eftir nokkur ár verður hér flugmannsskortur, sagði í fjögurra dálka forsíðufyrirsögn í Fréttablaðinu (03.01.2014). Líklega verður skorturinn ekki bundinn við einn flugmann. Skárra hefði verið að tala um flugmannaskort eins og reyndar er gert í fréttinni.

 

Í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (04.01.2014) var okkur sagt frá líkamsræktarstöð sem opnaði. Ekki var okkur hins vegar sagt hvað það var sem stöðin opnaði! Í sama fréttatíma brá Hraunamannahreppi fyrir í skjátexta. Líklega var átt við Hrunamannahrepp. Landafræði, landafræði!

 

Stærsta reiðhöll landsins opnar í Kópavogi, sagði í fyrirsögn á visir.is (05.01.2014). Þess var ekki getið frekar en fyrri daginn hvað það var sem reiðhöllin opnaði,,- enda opnaði hún hvorki eitt né neitt. Hún verður hins vegar opnuð, þegar byggingu hennar verður lokið. http://www.visir.is/staersta-reidholl-landsins-opnar-i-kopavogi/article/2014140109535

 

Ótrúlega langar og ítarlegar fréttir í morgunfréttum Ríkisútvarps, sérstaklega klukkan sjö, (05.01.2014) af smáflugvél sem nauðlenti á hraðbraut í Bronx í New York. Frétt, en ekki aðalfrétt.

 

Eftir niðurskurðinn mikla eru engar fréttir í Ríkisútvarpinu frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Þetta er óviðunandi og afar léleg þjónusta. Ríkisútvarpið er með stærstu, fjölmennustu fréttastofu landsins og vel mannaða. Það fylgir því ekki mikill kostnaður að vera með stuttar fréttir á klukkutíma fresti alla nóttina. Það mætti til dæmis spara aðeins í endalausu íþróttabruðlinu þar sem aldrei virðist horft í kostnað og vera með fréttir allan sólarhringinn. Svo mætti líka spara svolítið í endalausu tilstandi í kringum söngvakeppnina margnefndu. Núverandi fyrirkomulag er þessari mikilvægu þjóðarstofnun okkar ekki til sóma.

 

Haukur skrifaði (04.01.2014): ,, Enn ein fréttin um Michael Schumacher í mbl.is í dag.

„Schumacher hafi verið á miklum hraða og rekist harkalega í þrjú grjót áður en hann staðnæmdist.“
„Rekist harkalega í þrjú grjót“!
Þetta finnst mér skringilega orðað.” Já, Haukur. Skringilega orðað er mjög vægt til orða tekið. Þakka ábendinguna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>