«

»

Molar um málfar og miðla 1381

 

Gunnsteinn Gíslason á Bergistanga í Norðurfirði skrifaði Molum (06.01.2014): ,,Mig langar að koma á framfæri athugasemd við málfar;
Veðurfræðingar sumir og kannske allir, sem flytja okkur veðurfréttir tala eðlilega um veður og veðurfar.
Sá sem sagði okkur fréttirnar í kvöld sagði: ,,Þetta er búið að vera langt, eða langvinnt áhlaup“ Ég ólst upp við það norður á Ströndum, að áhlaup væri veður sem kemur fyrirvaralaust og sást ekki fyrir , eða ekki var hægt, að spá um.
Ég hefi þetta ekki lengra.
Þakka þér fyrir þínar ábendingar um þetta og fleira”. Molaskrifari þakkar Gunnsteini bréfið. Hann hefur einnig vanist því að orðið áhlaup um veður sé notað eins og Gunnsteinn lýsir. ,,Þetta var norðan áhlaup”. Norðanrok ,sem brast skyndilega á og enginn átti von á.

 

Skúli Gunnar skrifaði (06.01.2014) og segir meðal annars: ,, Sæll. Mig langar að senda þér mola öðru hverju. Ég vona að það sé í lagi,…  mér finnst oft leiðinlegt að heyra og sjá meðferðina á tungunni í fjölmiðlum.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi (5. jan.) var sagt frá Sigga hakkara og Wikileaks. Fréttamaðurinn segir í miðri frétt: ,,Sigurður Ingi Þórðarson, eða Siggi hakkari, hefur átt óvenjulegri unglingsár en flestir jafnaldrar sínir…..“ Þetta hljómar undarlega og hlýtur að eiga að vera „…en jafnaldrar hans.“ Ekki satt?”. Jú. Molaskrifari hnaut einnig um þetta orðalag í fréttum Stöðvar tvö. Þakka bréfið.

 

Gunnar skrifaði (07.01.2014): ,,Í fréttum Stöðvar 2, 4. janúar sl., talaði Jón Júlíus Karlsson í tvígang um Þjórsársver, en ekki Þjórsárver. Einnig sagði Edda Andrésdóttir frá óveðri sem gekk yfir norðurströnd Bandaríkjanna. Ég hef aldrei heyrt um þá strönd, enda er Kanada fyrir norðan BNA. Að vísu er strönd norðan við Alaska, en fréttamyndirnar voru ekki þaðan, heldur frá New York.” Kærar þakkir, Gunnar.

Af vef Ríkisútvarpsins (06.01.2014): ,,Gæsluvarðhaldsúrskurður sem kærður var til Hæstaréttar var í dag vísað frá dómi vegna þess að hann átti að renna út fyrir tveimur dögum, 4.janúar.” Gæsluvarðhaldsúrskurður var ekki vísað frá dómi heldur var gæsluvarðhaldsúrskurði vísað frá dómi. Hversvegna birtast svona aulavillur á vef Ríkisútvarpsins?

 

Algengt er að sjá orðið viðskiptamaður (e. businessman) í frétttum. Ekkert rangt við það. Til dæmis í Viðskiptablaðinu (06.01.2014). Molaskrifari er íhaldssamur. Kann betur við orðið kaupsýslumaður. Er frekar vanur því að orðið viðskiptamaður sé notað í sömu merkingu og orðið viðskiptavinur.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Skúli, – allt er þetta rétt. Birti þetta í Molum , ef ég má.

  2. Skúli Víkingsson skrifar:

    Mikið fer skammstöfunin BNA í taugarnar á mér og af tveim ólíkum ástæðum.

    Í fyrsta lagi er þetta skammstöfun á rangnefni Bandaríkja Ameríku. Það er ekkert Norður í USA. Einhver Íslendingur hefur tekið að sér að leiðrétta heimamenn þarna og ekki auðvelt að koma auga á ástæðu þess.

    Í öðru lagi eru skammstafanir miklu verri í íslenzku en mörgum öðrum málum vegna beyginga og algjör óþarfi fyrir svona stutt nafn: Bandaríkin, 10 stafir.

    Önnur íslenzk leiðrétting tengist Bandaríkjunum þegar talað er um „fylki“ í stað ríkja. Orðið fylki er komið frá Noregi. Samsvarandi héraðaskipting heitir län í Svíþjóð og county í Bretlandi. Ríki Bandaríkjanna skiptast í county, t.d. er Orange County í Kaliforníu vel þekkt. Ég hef séð bandarísk county þýdd sem „fylke“ í norsku. Það er sá meginmunur á ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Noregs að ríkin hafa töluverða sjálfsstjórn með lagasetningarvaldi o.s.frv. sem norsku fylkin hafa ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>