Orðavinur skrifaði (07.01.2014): ,,Það má næstum því hlæja að þessari frétt á DV: http://www.dv.is/frettir/2014/1/6/handsomudu-unga-stulku-sem-var-klaedd-i-sprengjuvesti/. Ætli að Google hafi þýtt?” Ekki ósennilegt að þetta sé rétt tilgáta. Google hafi að minnsta kosti komið að þýðingunni, – enda ódýrt vinnuafl.
Orðið sérfræðingur er nú orðið nær eingöngu notað í fréttum Ríkissjónvarps um þá sem eru taldir hafa meira vit á boltaleikjum en venjulegt fólk.
Í fréttum Ríkissjónvarps (07.01.2014) var sagt frá hvassviðri í Evrópu, miklum sjávarflóðum og brimi. Sagt var að fólk hefði verið að fylgjast með ölduganginum. Eftir myndunum að dæma var fólk að horfa á foráttubrim, sem olli manntjóni.
Af dv.is (08.01.2014) ,,… sem er að sögn afar feginn því að bíll hans komst í leitirnar eftir að honum var stolið fyrir framan Stöðina á Vesturlandsvegi laust fyrir miðnætti í gærkvöldi”. Bíllinn komst ekki í leitirnar. Bíllinn kom í leitirnar, – bíllinn fannst. Jón tók sér frí úr vinnu til að komast í leitirnar, – leita að fé inni á afrétti. http://www.dv.is/frettir/2014/1/7/thad-er-betra-ad-taka-ser-orfaar-sekundur-og-taka-lyklana-ur-og-laesa/
Molavin skrifaði (08.01.2013): ,, Sæll Eiður. Maður fer nú að hætta að kippa sér upp við það sem fer óyfirlesið inn á vef Ríkisútvarpsins. Vonandi sést þessi mynd, sem er af síðunni í dag.” Hér kemur myndin. Þetta var leiðrétt seinna, – óafsakanlegt engu að síður. Grunnskólavilla.
Bergur benti á eftirfarandi á visir.is (08.01.2014): http://www.visir.is/i-dag-er-althjodlegur-skritigongudagur/article/2014701079977 Orðið skrítigöngudagur er náttúrulega bara bull.
Takk fyrir Nótuna , uppskeruhátíð tónlistarskólanna,sem Ríkissjónvarpið sýndi í gærkveldi (08.01.2014). Sjónvarpið á að sýna okkur meira af ungu fólki sem iðkar tónlist og hvetja það til dáða. Mikið og gott starf er unnið í tónlistarskólum landsins. Því má gjarnan sýna meiri sóma. Sömuleiðis takk fyrir frábæra ljóðatónleika úr Salnum frá 2012, – ef til vill hefur þetta verið sýnt áður, – en það breytir engu, enda efnið sígilt og frábærir listamenn komu þarna fram. Minnist þess ekki að Ríkissjónvarpið hafi áður , – sama kvöldið sýnt tvo innlenda þætti með sígildri tónlist. Gott mál.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
09/01/2014 at 20:10 (UTC 0)
Rúv sýndi einnig fínan þátt um músiktilraunir nýlega. Efnilelegt ungt fólk þar á ferð.