«

»

Molar um málfar og miðla 1386

 

 

Enn reka dauðar kýr á land í Danmörku og Svíþjóð, sagði í fyrirsögn á pressan.is (11.01.2014): http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Erlent/enn-reka-daudar-kyr-a-land-i-danmorku-og-svithjod Ekki fylgdi það sögunni hvað kýrnar ráku á landi. Fyrirsögnin hefði átt að vera: Enn rekur dauðar kýr á land í Danmörku og Svíþjóð.

 

Úr frétt á mbl.is (11.01.2014) um öryggismál á Litla Hrauni: Þá segir hann að verið sé að steypa fyrir nýju girðingunum. Þetta finnst Molaskrifara ekki mjög skýrt orðað.

Við erum að fjölga, sagði landbúnaðarráðherra í drottningarviðtali við Gísla Martein Baldursson Á sunnudagsmorgni í Ríkissjónvarpinu (123.01.2014). Okkur er að fjölga, vildi ráðherra sagt hafa. Rúsínan í pylsuenda viðtalsins var þegar Gísli Marteinn þakkaði ráðherra skýr svör!

Arnbjörn skrifaði í athugasemdadálk Molanna (12.01.2014): ,, Í kveri sínu Íslenzkri setningafræði / Íslenzk setningafræði bls. 21 ræðir Björn Guðfinnsson um óbeygða einkunn. Hann er að vanda reglufastur en viðurkennir engu að síður gildi málvenju sem stangast á við regluna sem hann boðar. Þetta hefur hann að segja um óbeygða einkunn:
„[Grein] 65. Algengt er nú [formáli 2. útgáfu er skrifaður 1943] orðið að nota einkunnir óbeygðar, þegar þær eru heiti.
Dæmi: Greinin birtist í dagblaðinu Vísir. – Ég keypti þetta í verzluninni Baldur. – Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðinn.
Sérstaklega tíðkast óbeygð einkunn, þegar heitið er orðasamband, tvö eða fleiri samhliða orð.
Dæmi: Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöt og fiskur. – Hann er meðlimur í bókmenntafélaginu Mál og menning. – Þetta er úr verzluninni Blóm og ávextir.
[Grein] 66. Notkun óbeygðrar einkunnar er málfræðilega röng. Hún er og að jafnaði óþörf og til lýta. . Þó mundu sumir kunna illa við þessar setningar:
Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöti og fiski. Þetta er úr verzluninni Blómum og ávöxtum.
Hins vegar er ekki hægt að finna neitt að beygðri einkunn, þegar hún er eitt orð:
Greinin birtist í dagblaðinu Vísi. Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðni.“
Kannski eru menn nú sáttir við að svo sé tekið til orða: „Hvaða hugrenningar skyldu vakna við lestur skáldsögunnar Sjálfstæðs fólks?“ “  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Arnbjörn skrifar:

    ‘matematískur’ átti það að vera

  2. Arnbjörn skrifar:

    Sá hinn sami „merki maður“ mælti gegn því að sagt væri ’til og frá bænum’ þar sem hvor forsetningin stýrir sínu falli. Hann lagði því til að sagt yrði þess í stað ‘að og frá bænum’ þar sem báðar forsetningar stýrðu eignarfalli. Hann gat því verið ‘matemetískur’ í reglufestu sinni líkt og BG. Annars finnst mér tilvitnuð ummæli Bjarnar sýna að hann hafi ekki verið alveg jafneinstrengingslegur og kemur fram í þeim orðum sem hinn merki maður lét falla í samtali við son sinn.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Nú er það svo að einhvern tímann sagði merkur maður um Björn heitinn Guðfinnsson, og hafði sá ekki mikið dálæti á reglufestu Bjarnar: „Björn, hann er stærðfræðingur sem fór að fást við málfræði og hafði því óstöðvandi löngun til að þvinga málið undir einhverskonar reglur og sérstaklega þó að finna brot á reglunum.“
    En hvernig væri annars að segja: „Hvaða hugrenningar skyldu vakna við lestur skáldsögunnar Grámosans glóir?“ Eða hvernig ætli maður sneri sig út úr þessu með Grámosann, svo notað sé orðalag sem Birni og samtíðarmönnum hans var mikill þyrnir í augum; sem sé að hafa „maður“ sem óákveðið fornafn?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>