Gunnar skrifaði (13.01.2014): ,,Á dv.is stendur: Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3-4 sæti í flokksvali Samfylkingarinnar vegna komandi borgarstjórnarkosninga.
Það er allt gott og blessað, en er ekki nóg að konan fái eitt sæti á listanum? Er nokkur þörf á að sama manneskjan fái þrjú til fjögur sæti þar?
Eða eru raðtölur að hverfa úr skrifuðu máli í dag?” – Molaskrifari þakkar bréfið. Raðtölur í rituðu máli eru sennilega á undanhaldi, – því miður.
Dyggur lesandi Molanna, fyrrverandi blaðamaður, sendi eftirfarandi (13.01.2014): ,,Rétt í þessu sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins, Benedikt Grétarsson, að þjálfari norska handknattleiksliðsins væri geðþekkur. Hvaða erindi á persónuleg skoðun fréttamanns á manninum í fréttir?” Molaskrifari þakkar bréfið. Okkur hlustendum kemur þetta að sjálfsögðu ekkert við. Fréttamaðurinn á að halda sínum skoðunum frá fréttum, – hafa þær fyrir sig.
Dálítið undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (13.01.2014): ,, Mastrið er það hæsta af sinni tegund í Evrópu, eða 412 metra hátt, og er rekið af Ríkisútvarpinu.” Einkennilegt að tala um að reka mastur. Kannski hefði verið eðlilegra að segja að Ríkisútvarpið bæri ábyrgð á mastrinu, eða að mastrið væri í umsjá Ríkisútvarpsins. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/13/412_metra_hatt_mastur_ljoslaust/
Í fréttum Stöðvar tvö var sagt (13.01.2014),, … þar sem stjörnurnar blönduðu geði”. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Þarna hefði þurft að bæta við: … þar sem stjörnurnar blönduðu geði við gesti.
Andartak hlustaði Molaskrifarin á Virka Morgna á Rás tvö (14.01.2014) og heyrði Andra Frey Viðarsson tala um að öppgreida (e. upgrade). Hvernig væri að tala íslensku við hlustendur? Hvar er málfarsráðunautur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar